Meðmæli

Fyrst ég er byrjaður að mæla með efni á þessu bloggi þá get ég haldið áfram að tína til það sem ég hef elskað síðustu mánuði.

Freedom eftir Jonathan Frantzen er frábær bók – sú besta sem ég hef lesið í mörgu ár. Ég elskaði The Corrections – las hana á einhverju ferðalagi fyrir nokkrum árum og var því spenntur fyrir Freedom. Ég og Margrét lásum hana bæði í Indlandsferðinni og við vorum bæði mjög hrifin. Ef þú lest bara eina bók á árinu, þá er Freedom góður kostur.

Besta bíómynd sem ég hef séð síðustu vikur er 50/50. Frábær mynd þar sem Joseph Gordon-Levitt leikur 27 ára gamlan strák sem fær krabbamein. Seth Rogen leikur besta vin hans og Anna Kendrick er frábær sem læknir hans (hún var frábær í Up in the Air og ekki síðri í þessari mynd).

Já, og ég held að ég hafi ekki skrifað um það á þessu bloggi en síðasta sería af Curb Your Enthusiasm (númer átta) er stórkostleg. Ég er á því að þetta séu fyndnustu sjónvarpsþættir í heimi . Sería 7 þar sem hann safnar saman Seinfeld leikurunum var ekkert rosalega góð að mínu mati, en áttunda serían, sem gerist að hluta til í New York, er frábær.

Nýja Bond myndin

Ég fór á James Bond myndina síðasta sunnudag.  Það þykir víst ekki merkilegt.  Ég var að spá í því af hverju ég skemmti mér ekki nógu vel.  Roger Ebert hittir svo naglann á höfuðið:

OK, I’ll say it. Never again. Don’t ever let this happen again to James Bond. “Quantum of Solace” is his 22nd film and he will survive it, but for the 23rd it is necessary to go back to the drawing board and redesign from the ground up. Please understand: James Bond is not an action hero! He is too good for that. He is an attitude. Violence for him is an annoyance. He exists for the foreplay and the cigarette. He rarely encounters a truly evil villain. More often a comic opera buffoon with hired goons in matching jump suits.

Nákvæmlega!

Quantum of Solace er nefnilega einn allsherjar eltingaleikur, sem nánast ógerningur er að fylgjast með þar sem myndavélin er á þvílíkri ferð allan tímann.  James Bond á ekki að snúast um það.

Hottie and the Nottie

Hverjum hefði dottið í hug að gamanmynd með Paris Hilton í aðalhlutverki myndi fá slæma dóma?  Nýja myndin hennar fær 0,6 af 10 mögulegum í einkunn á MetaCritic. Defective Yeti, sem er ein besta bloggasíðan á netinu, tekur saman brot af verstu dómunum.

“Imagine the worst movie you’ve ever seen. Got it? Now try to think of something worse. That something is this movie.”

Ég er orðinn spenntur.

Bíó

Hér er mynd sem ég er verulega spenntur fyrir: Where in the world is Osama Bin Laden. Í þessari mynd reynir Morgan Spurlock, sem gerði SuperSize Me, að finna Osama Bin Laden. Fín hugmynd!

* * *

Svo er ég búinn að sjá þrjár myndir síðustu tvær vikur, sem ég mæli með. Fyrir það fyrst er það Cloverfield, sem er heiladauð skemmtun, en samt verulega góð. Hinar tvær myndirnar eru svo öllu merkilegri. Útí Boston sá ég No Country for old men, sem er besta mynd sem ég hef séð síðan ég sá The Departed. Ég hef fengið skammir frá vinum mínum fyrir að dásama bæði Knocked Up og Departed svo mikið að þeir hafi farið með algjörlega uppblásnar vonir og orðið fyrir vonbrigðum – þannig að ég ætla ekki að nota mjög sterk lýsingarorð til að lýsa No Country for old men, en læt nægja að segja að hún er besta mynd sem ég hef séð síðan ég sá The Departed fyrir um 18 mánuðum.

Svo sá ég líka Before the Devil Knows your Dead með Ethan Hawke, Marisu Tomei og Philip Seymour Hoffman. Ég hafði ekki lesið einn staf um þá mynd, þannig að hún kom mér verulega á óvart. Myndin fjallar um bræður (leikna af Hawke og Hoffman!!) sem ákveða að ræna skartgripabúð foreldra sinna. Frábær mynd, sem ég mæli líka hiklaust með. Já, og ég komst að því að Marisa Tomei er 43 ára gömul. Það finnst mér magnað.

Þannig að núna hafið þið þrjár myndir til að horfa á. Ekkert að þakka!

Little Children

Það er ekki oft sem ég nenni að standa í því veseni að downloada mynd, sem er ekki komin til landsins. Oftast nær er ég ekkert sérlega spenntur yfir því að sjá nýjar bíómyndir um leið og þær koma út.

En ég gerði þó undantekningu fyrir [Little Children](https://www.eoe.is/gamalt/2005/10/21/20.16.14/) fyrir nokkrum dögum, einfaldlega af því að hún er byggð á einni af mínum uppáhaldsbókum eftir Tom Perrotta (sjá [hér](https://www.eoe.is/gamalt/2005/10/21/20.16.14/)). Allavegana, myndin er ekki eins góð og bókin en samt ein besta mynd sem ég hef séð á þessu ári. Einhvern veginn finnst mér bókin vera í minningunni fyndin og skemmtileg, þótt hún sé vissulega erfið og sorgleg á tímum. En bíómyndin nær einhvern veginn ekki skemmtilegu hlutunum við bókina.

En það verður þó að segjast að ef að Jackie Earle Haley fær ekki Óskarinn fyrir leik sinn í myndinni, þá er eitthvað mikið að.

Núna eru komnir 5 dagar í röð þar sem ég hef ekki farið að sofa fyrir klukkan 3, sem er magnað þar sem ég fer vanalega að sofa á miðnætti. Í kvöld held ég að það sé lítil hætta á öðru en að ég verði sofnaður fyrir miðnætti.

Merkilegt.

Þegar ég kom heim og kveikti á Kastljósi sá ég að aðalmálið í íslensku þjóðfélagi í dag er úthlutun á einhverri einbýlishúsalóð í *Kópavogi*.

Ég er hræðilega þreyttur.

Deuce BMG

Ég á bágt með að trúa því að ég búi í landi þar sem Rob fokking Schneider – sem var að klára við að gefa út mynd, sem margir gagnrýnendur eru sammála um að sé [versta mynd allra tíma](http://rogerebert.suntimes.com/apps/pbcs.dll/article?AID=/20050811/REVIEWS/50725001/1023), komist á baksíðu stærsta dagblaðsins, á forsíðu þriðja stærsta dagblaðsins og í einkaviðtal í vinsælasta sjónvarpsþáttinn, allt sama daginn.

Mér finnst gott mál að taka vel á móti frægu fólki, en þetta er eiginlega dálítið sorglegt.

Brúðkaup

Wedding Crashers er æðislega fyndin mynd. Farðu og sjáðu hana í dag! Ok?

Er það skilið?


Er kominn til Kettering og var að koma úr kvöldverði þar sem ég var sá eini, sem var ekki á bíl, og *þurfti* því að drekka rúmlega hálfa rauðvínsflösku. Ætla að reyna að skrifa hádramatíska ferðasögu um London þegar ég kem heim.

Vildi bara benda fólki á að Wedding Crashers er mjög fyndin mynd. *Mjög!*

Fahrenheit umræða

Fahrenheit 9/11 verður frumsýnd um helgina á Íslandi og því er hafin umræða um myndina hér á landi.

Ég sá myndina fyrir nokkrum vikum og skrifaði um hana hér: [Fahrenheit 9/11](https://www.eoe.is/gamalt/2004/07/03/17.01.27/)

Í Kastljósi í kvöld var riddari sannleikans frá því í fjölmiðlamálinu, Ólafur Teitur að þræta við [Sverri Jakobsson](http://kaninka.net/sverrirj/010514.html) og kvikmyndagagnrýnanda (Ólaf Torfason) um myndina.

Ólafur Teitur er löngu hættur að reyna að fela stjórnmálaskoðanir sínar, þrátt fyrir að hann sé blaðamaður. Hann, líkt og ansi margir hægrimenn í Bandaríkjunum kýs að einbeita sér að meintum staðreyndavillum í myndinni, svosem að Michael Moore hafi ekki getið þess rétt hvað bókin, sem Bush las í 7 mínútur í skólastofu á Florida á meðan ráðist var á Bandaríkin, hét. (Ok, Ólafur tiltók líka aðrar merkilegri meintar staðreyndavillur. Flestar þeirra eru ræddar [hér](http://www.michaelmoore.com/warroom/f911notes/)).

Einsog ég [skrifaði um áður](https://www.eoe.is/gamalt/2004/07/03/17.01.27/), þá eru samsæriskenningarnar án efa veikasti hluti myndarinnar. Ekki vegna þess að þær séu endilega ósannar, heldur draga þær úr áhrifum bestu hluta myndarinnar, sem sýna áhrif efnahagsástandsins og stríðsins í Íraks á venjulegt fólk. Vegna galla á samsæriskenningunum geta menn gert lítið úr bestu atriðunum með því að benda á óskyldar meintar staðreyndavillur í öðrum atriðum og þannig dregið á ósanngjarnan hátt úr trúverðugleika myndarinnar.

Besti hluti Fahrenheit 9/11 er nefnilega að hún gefur atburðum síðustu ára andlit. Í stað þess að heyra um tölfræði, þá sjáum við fólkið, sem stríðið og stefna Bush snertir. Auk þess gagnrýnir myndin á skemmtilegan hátt alla geðveikina í kringum Bush stjórnina, allt frá appelsínugulum hryðjuverkavörnum til skerðingar á borgaralegum réttindum Bandaríkjamanna.

Hversu margar meintar staðreyndavillur, sem Ólafur Teitur og félagar finna, þá nær það ekki að grafa undan þeim meginboðskap myndarinnar að Bush stjórnin hefur grafið undan réttindum borgara sinna, öryggi þeirra, sem og orðspori Bandaríkjanna á alþjóða vettvangi.