« október 03, 2005 | Main | október 06, 2005 »

Mið-Ameríkuferð 12: Ferðalok

október 04, 2005

Ég er kominn heim. Kom klukkan 6 í morgun. Fór beint í vinnuna úr fluginu, en gafst upp um 2 leytið vegna þreytu. Er búinn að sofa síðan þá.

Ferðin var æðisleg. Ég hef enga sérstaka þörf fyrir afslöppun í fríunum mínum. Hef aldrei séð sjarmann við það að liggja á strönd í þrjár vikur. Ég vil að fríin mín séu full af ævintýrum, upplifunum og látum. Afslöppunin felst í því að gleyma vinnunni og lifa lífinu á öðruvísi hátt í smá tíma. Þannig kem ég heim fullur af sögum og krafti. Það er mín hvíld.

Mér finnst ég vera á ákveðnum tímamótum í mínu lífi og ég gerði mér miklar væntingar um að þessi ferð mín myndi skýra hlutina og gera mér kleift að taka þær ákvarðanir, sem mér finnst ég verða að taka. Að vissu leyti gerði ferðin það, en að vissu leyti flækti hún hlutina líka. Þannig gerast hlutirnir einfaldlega, maður getur ekki hannað atburðarrásina fyrirfram.


Ég hef haft gaman af því að skrifa ferðasöguna og vona að þið hafið haft gaman af því að lesa hana. Það er öðruvísi að gera þetta hérna opinbert á móti því að skrifa ferðasöguna til vina og vandamanna. Aðallega saknaði ég þess að heyra ekkert frá vinum. Það vissu allir hvað ég var að gera, en ég vissi ekkert hvað hinir voru að gera. Það er kannski í lagi í svona tiltölulega stuttu ferðalagi, en á lengra ferðalagi þyrfti ég að skoða hvernig ég gæti haldið út þessari síðu, sem og persónulegu sambandi við mína vini.

En ég hef strax við heimkomu fengið hrós frá fólki, sem ég hafði ekki hugmynd um að læsu þessa síðu, fyrir ferðasöguna og mér þykir verulega vænt um það. Að vissu leyti er feedback-ið það, sem heldur manni við efnið. Mér þykir alltaf gríðarlega skemmtilegt þegar að fólk kommentar á sögurnar mínar og bætir jafnvel við sínum eigin sögum. Það gerir þetta allt skemmtilegra.


Fyrir ykkur, sem eruð að spá í einhverju svona ferðalagi, en finnið alltaf ástæður til að gera það ekki, þá hef ég bara eitt að segja: Þetta er ekkert mál!

Ef ég tek ekki með flugferðir í dæmið, þá má ætla að ég hafi eytt um 30 dollurum á dag á ferðalaginu. Dýrasta hótelið, sem ég gisti á var í Cancun og þar borguðum við 30 dollara fyrir herbergið, eða 15 dollarar á mann. Fyrir utan það, þá fór hótel eða gistiheimila kostnaður ALDREI upp fyrir 10 dollara á nótt, eða um 600 krónur. Auk gistingar, þá voru rútuferðir um 2 dollarar á dag og matur kannski um 14-15. Samtals, þá áætla ég að ég hafi eytt undir 30 dollurum á dag. Það gera 1800 krónur á dag, eða 54.000 fyrir heilan mánuð.

Flugin kostuðu mig 50.000 (reyndar var Flugleiðaflugið á frímiða), þannig að ferðin kostaði mig samtals um 105.000 krónur. Ég leyfi mér að fullyrða að Íslendingur á Mallorca í tveggja vikna ferðalagi þar sem hann gistir á sömu ströndinni og eyðir tíma í sömu sundlauginni í tvær vikur, eyðir meiri peningi en ég á mínu mánaðarferðalagi um 5 lönd Mið-Ameríku.

Auðvitað þarf maður að færa fórnir, en það er hluti af ævintýrinu. Ég hef gist í gistiheimilum fullum af kakkalökkum og flugum. Fyrir utan Cancun gisti ég aldrei á hóteli með loftkælingu, þrátt fyrir gríðarlegan hita. Ég ferðaðist með ódýrum rútum og borðaði á ódýrum veitingastöðum. En það að ferðast og lifa einsog fólk býr í þessum heimshluta er mikilvægur hluti af upplifuninni. Það er ekkert gaman að ferðast um þessa staði og skoða þá útum glugga á loftkældri risarútu, ofverndaður af íslenskum fararstjóra og með gistingu á lúxushóteli. Kannski er það í lagi þegar maður eldist, en í dag get ég ekki hugsað mér annað en að gera þetta á ódýra mátann. Gisting á ódýrum gistiheimilum er líka frábær leið til þess að kynnast fullt af skemmtilegu fólki.

Þannig að verðmiðinn ætti ekki að hindra fólk. Þá er bara að berja í sig kjark, kaupa Lonely Planet bók um svæðið, sem þig langar að heimsækja, og drífa þig af stað. Það er EKKERT mál að feraðst einn. Kostirnir eru ótal margir og þú átt eftir að kynnast fullt af fólki, sem er á svipuðu róli og þú. Ég er búinn að kynnast fleira fólki á þessum mánuði heldur en á Íslandi allt síðasta ár.


En allavegana, ég vona að þið hafið haft gaman af ferðasögunni. Ég hef haft gaman af að skrifa hana og ef ég hef kveikt hjá einhverjum löngum til ferðalaga, þá er það frábært. Takk fyrir mig.

p.s. myndin er tekin uppá stærsta píramídanum í Chichen Itza, Mexíkó.

Skrifað í Vesturbæ Reykjavíkur

768 Orð | Ummæli (27) | Flokkur: Ferðalög

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33