10 ár

Ég er frekar slappur í því að halda utanum stóra áfanga á þessu bloggi.  Oftast er það þannig að ég les færslu hjá Gumma Jóh þar sem hann fagnar sínu bloggafmæli og þá man ég að ég hef gleymt bloggafmælinu mínu.  Ég byrjaði nefnilega að blogga nokkrum vikum á undan honum.

Þetta blogg er núna orðið 10 ára gamalt.  Það er ótrúlegt.  Fyrstu færsluna skrifaði ég á þetta blogg 22.apríl 2000.  Þá notaði ég Blogger.com, sem var á þeim tíma nokkuð nýtt tól.  Það voru ekki mörg blogg á Íslandi – ég man að ég las blogg hjá Björgvin Inga og Geir Freys, en mikið fleiri voru þau ekki bloggin á Íslandi þá.  Fyrstu árin var þetta frekar þröngur hópur, sem bloggaði reglulega, mest strákar á milli tvítugs og þrítugs.

Áhugi minn á bloggi hefur komið og farið í gegnum árin.  Í byrjun var þetta rosalega gaman.  Færslurnar á mínu bloggi voru alltaf mjög stuttar, en ég bloggaði á tímum oftar en einu sinni á dag.  Með auknum vinsældum bloggsins hefur áhugi minn aðeins dafnað.  Í dag eru blogg um pólitík alltof áberandi á Íslandi.  Flest bloggin á Mbl og á Eyjunni virðast fjalla nær eingöngu um pólitík og ég les ekki mörg þeirra.  Það vantar blogg frá skemmtilegu fólki, sem hefur frá einhverju áhugaverðu að segja – ekki bara fólk sem hefur skoðanir á öllu, sem er að gerast á Íslandi.  Mér finnst til dæmis ótrúlegt að það skuli ekki vera til fleiri skemmtileg blogg um tónlist, sjónvarp, bíó, íþróttir og svo framvegis.

Liverpool bloggið, kop.is – sem í dag er mun vinsælla en þessi síða – er nokkurs konar afsprengi þessa bloggs og bloggsins hjá Kristjáni Atla.  Ég skrifaði alltof mikið um fótbolta á þessa síðu og síðustu mánuðirnir áður en við stofnuðum Liverpool bloggið voru einmitt líka síðustu mánuðir Houllier hjá Liverpool, þannig að pistlar mínir um Liverpool voru ekki beint jákvæðir.  Síðan að við stofnuðum Liverpool bloggið hefur sú síða vaxið gríðarlega í vinsældum og er haldið uppi af frábærum pennum, sem skrifa með mér og Kristjáni, og gríðarlega góðum hópi af málefnalegum og skemmtilegum lesendum.

* * *

Áhuginn minn á þessu bloggi hefur kannski verið meiri í gegnum árin.  Síðustu 2 árin hef ég fært rosalega mikið af því, sem ég hefði einu sinni bloggað um, yfir á Twitter eða Facebook.  Þar fæ ég meiri og fljótari viðbrögð fólksins í kringum mig (auk þess að margir gamlir bloggarar eru vinir mínir á Facebook) og því hef ég oftast meira gaman af þeim miðlum.  Ég hef þó aldrei hætt að blogga hérna – og held að í þessi 10 ár hafi aldrei liðið meira en 2 vikur á milli færslna.  Og mér finnst enn gott að hafa bloggið sem vettvang þegar að ég vil tjá mig um eitthvað.  Heimsóknum á þessa síðu hefur líka eitthvað fækkað í gegnum árin eftir því sem að ég set inn færri færslur.

Áherslurnar hafa líka breyst.  Áður var ég gríðarlega fljótur að blogga um eitthvað, sem ég var pirraður yfir.  Núna bíð ég oftast í talsverðan tíma áður en ég skrifa um eitthvað, sem ég er æstur yfir.  Ég blogga líka mun minna um pólitík og er oftast mun kurteisari en ég var fyrstu árin.  Kannski er það aldurinn og eflaust er það líka að vegna Serrano finnst mér ekki passa að ég sé að æsa mig um of á blogginu mínu.

* * *

Stelpubloggin hafa líka breyst með aðstæðum mínum.  Ég er búinn að búa í þremur löndum, Bandaríkjunum, Íslandi og hér í Svíþjóð og aðstæður í mínu einkalífi hafa líka breyst.  Ég er auðvitað að mestu hættur að skrifa um stelpur, enda tókst mér að finna ástina í mínu lífi.  Ég átti það líka til að blogga meira þegar að mér leið ekki vel og bloggið hjálpaði mér oft mikið.  Í dag er ég svo miklu hamingjusamari en ég var stóran hluta þessara 10 ára, að bloggið þarf að líða fyrir það.  Það er í góðu lagi.

* * *

Ég ætla að halda þessu bloggi áfram vonandi sem lengst.  Ég hef alltaf eitthvað að segja öðru hvoru og ég á vonandi eftir að fara í slatta af skemmtilegum ferðalögum, sem einhverjir hafa gaman af að lesa um.

Ég held örugglega að það sé til fólk þarna úti, sem hefur lesið þetta blogg nánast frá fyrsta degi.  Þeim og öllum öðrum, sem hafa lesið bloggið, þakka ég kærlega fyrir.  Þessi bloggsíða hefur gefið mér margt í gegnum árin og ég er alveg klár á því að líf mitt er miklu skemmtilegra í dag en það hefði verið hefði ég ekki tekið þá ákvörðun fyrir 10 árum að prófa að blogga.  Allt fólkið sem ég hef kynnst í gegnum bloggið og allar samræðurnar sem ég hef átt hafa gefið mér mikið.

Takk.

10 thoughts on “10 ár”

  1. Til lukku með áfangan Einar, tvímanalaust eitt áhugaverðasta blogg á íslandi… 🙂
    Byrjaði að lesa bloggið þitt þegar ég var að skoða að fara í ferðala… fann það held ég í gegnum leit.is á sínum tíma… svona 6-7 ár síðan… … hlakka til að lesa þetta í einhver ár í viðbót…

  2. Væri ekki bara eðlilegast að sleppa því að halda upp á “bloggáfanga”?
    Kannski ok að líta yfir farinn veg eftir 10 bloggár.

    Annars alltaf jafn skemmtilegt bloggið hjá þér.

  3. Takk Kristján og Kristján!

    Kári, ég mun ekki halda uppá afmæli þessarar síðu næst fyrr en hún verður 15 ára. 5 ár er fínn tími.

  4. Til hamingju með áfangann.

    Ég hef sjálfur verið “stalker” á þetta blog síðan ég veit ekki hvenær, eflaust 7-8 ár og ég hef alltaf haft gaman að þér; þú ert góður penni og hefur oft frá skemmtilegu að segja. Á sama máti þá þekkjumst við ekki baun og er ekki vinur þinn á facebook, þannig að ég ætla að góðfúslega biðja þig um að ekki færa þig of mikið í þá áttina. Hinn opni heimur þarf á bloggurum eins og þig að halda! 🙂

  5. Besta bloggið!* vona að þú haldir áfram þrátt fyrir fb 🙂 þú lifðir líka myspace tímabilið af!…mér finnst ferðabloggin skemmtilegust.

  6. þú, gummijóh og katrin.is eruð algjör uppáhöld hjá mér! haha. vinum mínum þykir ég stórundarleg að lesa síðurnar ykkar því ég þekki ykkur ekki neitt, en þið eruð bara svo fyndin og ferðasögurnar þínar eru auðvitað alveg frábærar. til hamingju með 10 árin.

  7. Til hamingju með þennan merka áfanga,.. já,.. ætli ég sé þá ekki búin að vera lesa bloggið þitt í 10 ár líka?

    Allaveganna,.. keep up the good work!

    Kveðja frá Skáni.

  8. Ég er nú búin að kíkja á þetta blogg reglulega í gegnum árin, enda alltaf gaman að lesa skemmtileg og vel skrifuð blogg. Þeim hefur því miður farið ört fækkandi undanfarið og undantekning nú til dags ef einhver bloggar reglulega (eða bara yfirleitt.) Gaman að lesa þessa færslu um afturlit til fortíðar, mér finnst það einmitt einn besti kosturinn við blogg, að geta litið um öxl og rifjað upp, bæði hið góða og slæma.

    Finnst uppsetningin á síðunni líka stílhrein og fín. 😉

    Til hamingju með bloggárin tíu, megi þau verða mörg fleiri.

    Kv
    Bimma

Comments are closed.