« desember 28, 2005 | Main | janúar 02, 2006 »

Áramóta-ávarp

desember 30, 2005

perquin.jpgAf einhverjum ástæðum hef ég undanfarna daga hlustað nær stanslaust á síðasta lagið á nýju(stu) Eels plötunni, “Things the grandchildren should know”. Þetta er án efa besta lag plötunnar og einhvern veginn finnst mér það passa svo vel við þessi áramót. Allavegana 1 eða 2 punktar í laginu eiga vel við það hvernig mér líður núna um áramótin.

I tried to make the most of my situations
And enjoy what i had
I knew true love and i knew passion
And the difference between the two
And I had some regrets
But if i had to do it all again
Well, it’s something i’d like to do

Þetta ár hefur verið skrýtið á svo ótal marga vegu. Svo innilega viðburðalaust, en samt skringilega fullt af spennandi hlutum. Ég hef upplifað æðislegar stundir, en einhvern veginn eru þær nær allar tengdar útlöndum. Hérna heima finnst mér lítið skemmtilegt hafa gerst. Einhvern veginn virkar allt betra í útlöndum. Stelpurnar eru skemmtilegri, hlutirnir meira spennandi og mér líður betur.


Ég hugsa sennilega alltof mikið á áramótum. Reyni að gera upp árið hjá sjálfum mér og hvort ég sé sáttur við lífið og tilveruna. Allt frá því hversu duglegur ég var í ræktinni til þess hvernig ég hef verið við fólkið í kringum mig.

Ég hef ferðast umtalsvert á þessu ári og fyrir það getur árið ekki annað en talist gott. Hef sennilega ferðast umtalsvert meira en flestir í kringum mig og fyrir það get ég ekki annað en verið þakklátur. Ég er heppinn með vinnu í þeim skilningi, en ég sleppi líka umtalsverðu úr hefðbundnu lífsgæðakapphlaupi hér á Íslandi til að geta “eytt” meiri pening í ferðalögin mín, því þau eru það sem gefa mér langmesta lífsfyllingu.

Hef ekki enn getað skilið eina fyrrverandi kærustu mína, sem kvartaði yfir því að sjónvarpið í stofunni minni væri svo hrikalega lítið miðað við sjónvarpið sem hún og hennar fyrrverandi höfðu átt. Þau áttu 300.000 króna sjónvarp í stofunni, sem þau höfðu fjárfest saman í. Hins vegar höfðu þau bara einu sinni á einhverjum 5-6 árum, sem þau voru saman, farið til útlanda. Auðvitað er það þeirra val og allt gott um það að segja. En það þýðir samt ekki að ég geti skilið svona lagað.


Ég sá Liverpool verða Evrópumeistara í Istanbúl í besta úrslitaleik allra tíma. Fyrir það er ég ævinlega þakklátur og geri mér góða grein fyrir því hversu stórkostlega heppinn ég var að upplifa þetta. Ég get allavegana strokað “sjá Liverpool verða Evrópumeistara” útaf listanum yfir hluti, sem ég ætla að gera áður en ég dey. Ég væri þó alveg tilbúinn að endurtaka þetta einhvern tímann aftur. Þess vegna strax á næsta ári.

Ferðalögin hafa líka oft bjargað mér frá leiðindum hérna heima. Oft hefur mér fundist ég vera að gera lítið spennandi hluti, en utanlandsferðir, hvort sem þær voru tengdar vinnu eða öðru, komu mér í gang aftur. Kannski á þetta sérstaklega við London ferðina í ágúst þar sem ég eyddi fjórum dögum með sjálfum mér, hugsandi minn gang. Eftir þá ferð skrifaði ég ferðasögu, sem ég hef þó aldrei haft geð í mér að birta hér því ég var ekki alveg viss hvernig mér leið.

Og svo var Mið-Ameríkufríið mitt líka stór upplifun. Átti þar frábærar 5 vikur í æðislegum löndum. Kynntist frábæru fólki, skemmti mér stórkostlega og naut þess að upplifa nýja hluti í nýjum löndum.

Og svo kynntist ég þar stelpu. Sambandið endaði reyndar tveim mánuðum seinna vegna fjarlægðar og annarra hluta. En enn og aftur fann ég ástina hjá útlenskri stelpu. Það er einsog ég laði að mér skrýtnar íslenskar stelpur, sem eru fullar af vandamálum, bjánalegum afsökunum og öðru veseni. Kannski er þetta tilviljun en utan eins sambands, þá hafa öll mín sterkustu og skemmtilegustu sambönd verið með útlenskum stelpum. Í þeim samböndum hefur verið minnsta vesenið og ég hef ekki þurft að glíma við nein af þeim vandamálum, sem ég hef þurft að glíma við í mínum samböndum og sambandstilraunum með íslenskum stelpum.

Kannski er þetta bara ein stór og skrýtin tilviljun. Ég veit ekki. En ég er eiginlega búinn að fá nóg af vissu leyti.


Næsta ár verður ár breytinga í mínu lífi, á því er ekki nokkur einasti vafi. Ég er sæmilega ánægður við þessi áramót. Ég lít ágætlega út, er í besta formi ævi minnar og mér gengur ágætlega í vinnutengdum málum. En það er samt svo mikið sem mér finnst ekki í lagi.

Því ætla ég að breyta og er í raun strax byrjaður að huga að breytingunum og hef stigið fyrstu skrefin í átt að nokkrum. Það hefur gefið mér aukinn kraft að undanförnu.

En ég mun þó halda áfram að skrifa hér á þessari síðu. Þrátt fyrir að margir skilji ekki þörf mína fyrir að opinbera smá hluta af mínum tilfinningum á vefnum, þá fæ ég furðu mikið útúr því. Ég fæ vissa útrás með því að halda dagbók, en ég þarf líka mína útrás á þessari síðu. Og ég held þessu úti að langstærstu leyti af því að þetta veitir mér ánægju.

Ég vona að þið eigið eftir að eiga gott ár á næsta ári.

E, take it away:

I do some stupid things
but my heart’s in the right place
and this I know

Gleðilegt ár!

869 Orð | Ummæli (11) | Flokkur: Dagbók

Treat her right

desember 30, 2005

Þetta er fyndnasta myndband sögunnar - (smellið á “watch” og þá kemur myndbandið í sér glugga). Algjörlega stórkostlegt.

18 Orð | Ummæli (2) | Flokkur: Tónlist

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33