Það er mér löngu orðið ljóst að Ágúst Flygenring er einn af allra duglegustu pennunum á naggnum. Ég hef í raun oft haldið að hann skrifi með þeim einum tilgangi að hneyksla og fara í taugarnar á öðrum, því sumir vefleiðarar gera í raun ekkert annað en að svara Ágústi.
Ég hef þó mjög gaman af að lesa síðuna hans Ágústs, því ég hef ávallt mikinn áhuga uppá hverju hann tekur næst. Mér fannst til dæmis mjög sniðugt þegar hann tók sig til og sagði frá því að á náttborðinu síðustu daga hefði legið fjárlagafrumvarpið. Ef þessi gaur er ekki á leiðinni inná þing, þá skal ég hundur heita.
Pistillinn hans í dag minnti mig á að það er eitt, sem fer alveg ofboðslega í taugarnar á mér í málflutningi Ágústs. Reyndar hef ég líka tekið eftir þessu hjá fleiri vefleiðurum. Ágúst fjallar í skondnum pistli sínum í dag um jafnrétti og jöfnuð. Þar ber hann saman það sem hann kallar jafnrétti og sósíalisma. Hann endar svo pistilinn á orðunum:
Ef ég hef einhvern tímann stutt stjórnmálaflokk á Íslandi þá var það sjálfsagt Alþýðuflokkurinn undir stjórn Jóns Baldvins. Ég var sammála þeim flokki í mörgum málum, t.d. landbúnaðarmálum (þar sem menn voru ekki hræddir við að mótmæla framsóknarmennsku), Evrópumálum og langflestu í efnahagsmálunum. Ég tilheyrði sennilega hægri helmingi flokksins. Ég tel mig vera mun hægrisinnaðari en flesta Sjálfstæðismenn, en það sem ég þoli ekki við Sjálfstæðisflokkinn er að í honum er of mikið af Íhalds- og framsóknarmönnum. Eftir að Samfylkingin varð til þá hef ég ekki fundið flokk, sem ég er fullkomlega sáttur við.
Já, ég ætlaði víst að tala um Ágúst. Málið er að ég á erfitt með að þola það þegar það að vera krati þýðir að maður geti ekki verið hugsjónarmaður. Eins og Ágúst kallar það, þá er “kratismi” útþynnt theoría. Ég er ekki sammála þessu. Samkvæmt Ágústi þá þurfa menn að vera öfgamenn til hægri eða vinstri til að geta talist hugsjónarmenn. Ágúst hefur oft kallað þá sem skrifa fyrir Múrinn hugsjónarmenn (og efast ég ekki um það), en hann hefur svo oft í sömu andrá gefið í skyn að þeir sem séu nær miðju séu bara einhverjir vitleysingar, sem trúi ekki á hugsjón, heldur séu bara valdagráðugir. Þetta er ekki sanngjarnt. Ég tel mig alveg vera jafnmikinn hugsjónarmann og þá, sem skrifa fyrir frelsiog múrinn. Ég er hins vegar hlynntur stefnu, sem fær lánað það besta úr báðum áttum. Ég held að flestir séu sammála um það að öfgarnar ganga ekki alveg upp.