Ég fór um helgina með fótboltaliðinu í keppnisferð til University of Indiana, sem er í Bloomington í Hoosier ríkinu. Okkur gekk ágætlega. Við spiluðum tvo leiki, unnum Ball State 7-1, þar sem ég skoraði tvö mörk en töpuðum naumlega fyrir Indiana State, þrátt fyrir mikla yfirburði í seinni hálfleiknum. Þar skoraði ég ekki neitt, en fékk gult spjald fyrir að hrinda leikmanni, sem var hrinti mér eftir aukaspyrnu. Gaman að því. Leikmaðurinn sem hrinti mér fékk líka gult en hann var hins vegar svo snjall að hann byrjaði að röfla í dómaranum og endaði með rautt spjald. Sniðugt, ekki satt?
Við gerðum lítið á laugardagskvöldinu, enda Bloomington ekki spennandi staður. Við horfðum á Northwestern (ameríska) fótboltaliðið spila við Ohio State, en ég man ekki hvernig sá leikur fór. Á meðan ég sat í rólegheitum inní hótelherbergi í Bloomington var Hildur að djamma hérna í Evanston og skemmti hún sér (samkvæmt hennar eigin frásögn og vina minna) vel.
Þegar ég kom heim heyrði ég svo að árásirnar hefðu byrjað og mamma hafði víst hringt að heiman (hæ mamma!) til að tékka hvort ekki væri allt í lagi. Hérna er bara allt í fínu lagi, fyrir utan það að klukkan er orðin 9 um kvöld og ég þarf að fara að gera eitthvað hópverkefni í félagsfræði. Búúúú!!!