Þá er helgin búin og ég þarf víst að fara að læra aftur.
Laugardagurinn var alger snilld. Við Hildur fórum á Crobar, sem er sennilega heitasti næturklúbburinn hérna í Chicago. Þar kostar morðfé inn en þrátt fyrir það er alltaf biðröð. Reyndar var biðröðin stutt núna en það hefur sennilega verið af mannúðarástæðum, þar sem kuldinn fyrir utan var fáránlegur.
Inni var troðfullt einsog vanalega. Geðveikt gaman, tónlistin góð og stemningin frábær. Reyndar fannst mér vera fullmikið af strákum, sem voru berir að ofan. Þetta virðist vera mikið í tísku í Bandaríkjunum þessa dagana. Á MTV sá ég heimildarmynd um fólk, sem fer í lýtaaðgerðir og þar var fylgst með strák, sem setti sílíkon í kálfana sína (honum fannst kálfarnir vera svo stelpulegir). Allavegana, þá var sýnt þegar gaurinn var að fara að djamma. Þegar hann var að gera sig tilbúinn byrjaði hann á því að setja á sig glimmer. Síðan fór hann í bol, sem hann síðan fór úr um leið og hann kom inná klúbbinn.
Ok, það voru allavegana nokkrir þannig gaurar þarna. Síðan fóru þeir uppá pallana og dönsuðu þar. Mér var ekki skemmt.
Þrátt fyrir það var kvöldið snilld og við dönsuðum til kl.5.
Á sunnudag var frekar lítið gert. Jú, við lágum uppí rúmi og horfðum á Sex & The City. Síðan horfðum við á nokkuð góða heimildamynd um kvikmyndagerðarmenn, sem fylgdu fyrstu slökkviliðsmönnunum inní World Trade Center 11.sept.