Helgin var fín. Samt ekki eins góð og hjá þessum Northwestern nemanda, sem fékk 1 milljón dollara þegar hann skrifaði undir hjá Oakland Raiders í NFL deildinni.
Dan og Becky vinir mínir gerðu heiðarlega tilraun til að hafa matarboð heima hjá Dan. Þar voru um 30 manns og við borðuðum pasta og drukkum kokteila. Allavegana, var þetta fínt og ekki sniðugt að vera að fara út í einhver smáatriði.
Á laugardag fórum við Hildur að versla og í fyrsta skipti í sögu okkar Hildar þá verslaði ég en hún ekki. Um kvöldið vorum við frekar löt og sátum bara heima og horfðum á nokkra þætti af Queer as Folk, sem fjallar um homma í Pittsburg. Mjög góðir þættir, jafnvel fyrir gagnkynheigða.
Á sunnudag spilaði ég svo fótbolta í þriggja stiga hita. Alveg stórkostlegar hitabreytingar hérna síðustu viku. Á síðasta sunnudag var 28 stiga hiti en í gæt var þriggja stiga hiti, rigning og rok. Þetta minnti mig á að spila á mölinni í Faxaflóamótinu þegar ég var lítill.
Í gærkvöldi fórum við svo ásamt tveim vinkonum hennar Hildar niðrí Greektown. Þar var kærasti Victoriu að syngja grísk þjóðlög. Grísk þjóðlagatónlist er að mínu mati álíka skemmtilegt og mexíkósk kántrí tónlist en þetta var þó fróðlegt. Við ákváðum þó að fara þegar að heilu fjölskyldurnar voru komnar dansandi upp á svið.