Er kominn mánudagur?

Þessi vika er búin að vera skemmtileg geðveiki. Ég er á fullu að reyna að klára þessa ritgerð mína og er ég því búinn að vera að forrita í Stata, sem er ekki alveg jafnspennandi og það hljómar.

Anyways, við Hildur erum búin að gera fullt skemmtilegt síðustu daga fyrir utan að læra. Á föstudag fór ég með Dan og Marie á Cubs leik. Sáum þá spila við Dodgers. Leikurinn fór þannig að annað liðið vann. Um kvöldið fórum við í co-op partí. Var þetta partí hjá sósíalistunum til styrktar skóla í Gvatemala. Sennilega ágætis málefni. Stelpa, sem var með mér í tíma fór þarna í spring break og hún var að segja mér sögur af raunum sínum. Tónlistin var hins vegar frekar há, svo ég man ekki mikið.

Ég man hins vegar eftir því að það var einhver gaur, sem vildi giftast Hildi vegna þess að hún vissi hver Michael Schumacher er. Málið er nefnilega að Formula 1 er álíka vinsæl hérna í bandaríkjunum og íslenskur handbolti. Þessi gaur var víst einhver voðalegur formula 1 aðdáandi. Hann reyndi svo að telja mér trú um að það væri gaman að horfa á þau ósköp en ég veit betur. Ég hélt því fram að það væri jafnleiðinlegt að horfa á Formula 1 og Nascar. Ég hélt að það myndi líða yfir hann þegar ég sagði það. Hann reyndi svo að skýra út fyrir mér að í Nascar keyrðu bílarnir í hringi en í Formula 1 keyrðu þeir líka í hringi en með fleiri begyjum. Svo eru líka viðgerðarhlé, sem eru víst voða spennandi. Sennilega álíka spennandi og horfa á hnjaskvagninn á HM í fótbolta.

Já, og svo hitti ég líka fullt af fólki, sem ég hef ekki hitt lengi og það var voða gaman. Ég ákvað víst að hitta eina stelpu í Mexíkó þegar við ætlum að ferðast þangað í sumar. Veit ekki hvort ég muni efna það loforð.

Laugardagurinn var furðu atburðalítill. Við Hildur ætluðum í bíltúr en það gekk ekki vel. Málið er nefnilega að rúðuþurrkurnar á bílnum okkar eru bilaðar. Þar sem mikil rigning var úti þurftum Hildur alltaf að fara út á öllum ljósum til að þurrka rúðurnar. Þetta gekk fyrstu 5 mínúturnar en svo gáfumst við upp. Meira gerðist ekki á þeim degi.

Á mánudaginn fórum við svo með Marie, Ryan, Becky og Dan niðrí Wrigleyville á einhvern “írskan” bar. Reyndar fannst mér barinn ekkert vera neitt voðalega írskur og við drukkum flest Bud Light. En ég meina hei. Þetta var fínt, þótt Dan og Marie hafi orðið dálítið drukkin eftir því, sem leið á kvöldið.

Á þriðjudag fórum við svo útað borða með nokkrum vinum mínum á Las Palmas, sem er mexíkóskur veitingastaður. Þessi staður var gríðarlega vinsæll á tímabili því allir gátu keypt sér margarítu án þess að sýna skilríki. Þeir voru hins vegar teknir fyrir það og núna er eiginlega engin ástæða fyrir að fara þarna, því maturinn er frekar vondur. Við fórum samt að gömlum vana og það var bara fínt.