Þá er ég búinn að skila hagfræði ritgerðinni minni. Ég er búinn að vera að vinna í þessari ritgerð síðan í janúar og er þetta búin að vera ótrúlega mikil vinna, sérstaklega síðustu þrjár vikur. Fyrir áhugasama, þá fjallar ritgerðin um tengsl á milli veðurfars og fjarveru starfsmanna. Ég set hana inn, eða allavegana eitthvað af henni þegar ég fæ hana tilbaka frá þeim, sem dæma hana.
Vegna þessarar ritgerðar hefur líf mitt verið einstaklega óspennandi undanfarna daga. Til dæmis um síðustu helgi gerði ég ekki neitt nema að læra og fara tvisvar í bíó. Sá Spiderman, sem var fín og svo nýju Woody Allen myndina, Hollywood Ending, sem var alger snilld. Fyndnasta Allen myndin síðan Everyone says I love you. Allen leikur leikstjóra, sem hefur ekki leikstýrt vinsælli mynd í meira en tíu ár en fær alltíeinu gott tilboð. Áður en hann byrjar að mynda verður hann hins vegar blindur en ákveður samt að reyna að leikstýra myndinni. Mjög fyndið.