Glæpur og refsing

Í fríinu mínu tókst mér loksins að klára að lesa Glæp og refsingu eftir Fyodor Dostoevsky. Þetta er kannski ekki ýkja merkilegt nema fyrir það að ég byrjaði að lesa þessa bók fyrir fjórum árum.

Ég keypti bókina fyrst á götumarkaði í Buenos Aires. Þar, í einhverju brjálæði, hélt ég að ég myndi fljúga í gegnum spænska þýðingu á bókinni, en ég gafst upp eftir um 100 blaðsíður og byrjaði að lesa styttri spænskar bækur, svo sem Animal Farm.

Ég var þó alltaf hálf svekktur yfir því að hafa gefist uppá bókinni. Fyrir um tveim árum las ég svo í Northwestern dagblaðinu viðtal við uppáhaldsprófessorinn minn, Irwin Weil, sem kenndi mér sögu Sovétríkjanna fyrir nokkrum árum. Í viðtalinu sagði Weil frá því hvernig hann heillaðist fyrst af Rússlandi. Hann var nemandi við University of Chicago þegar hann keypti sér á föstudegi bókina Glæp og refsingu. Hann tók hana með sér heim á heimavistina og byrjaði að lesa hana um kvöldið. Hann var svo heillaður af bókinni að hann hætti ekki að lesa fyrr en hann var búinn með bókina en það var á laugardagseftirmiðdegi. Eftir að hafa lesið bókina var hann svo staðráðinn í að læra rússnesku og hefur hann helgað ævi sinni rússneskri sögu.

Eftir að hafa lesið viðtalið varð ég aftur órólegur og fannst mér að ég ætti nú að drífa mig í að lesa bókina. Um jólin gaf Hildur mér svo eintak af enskri þýðingu bókarinnar. Ég byrjaði strax að lesa hana en einhvern veginnn tókst mér aldrei að klára hana… þangað til í fríinu fyrir um þrem vikum.

Allavegana, þá er bókin hrein snilld. Hún fjallar um Raskolnikov, sem er stúdent í St. Pétursborg. Hann er sannfærður um að allir merkustu menn mannkynssögunnar hafi þurft að fórna öðrum lífum til að ná sinni stöðu sem merkismenn sögunnar. Hann er sannfærður um að hann þurfi að taka líf annarra til þess að hann geti talist meðal þeirra manna, sem hann lítur upp til.

Snilligáfa Dostoevskys er augljós af því hvernig hann lýsir tilfinningum Raskolnikovs, hvernig hann reynir að sannfæra sjálfan sig um réttmæti glæpsins og hvernig hann glímir við sektina og hvernig ástin fær hann til að viðurkenna það að hann hafi gert eitthvað rangt.