Ferdinand, Campbell og Hyppia

Þá er Manchester United búið að kaupa nýjan varnarmann á 30 milljónir punda og allir eru farnir að spá þeim titlinum. Menn gleyma oft að hinir þrír mennirnir í vörninni, Neville, Silvestre og Brown eru ekki nema meðalleikmenn og markvörðurinn Barthez er trúður, sem gerir alltof mörg mistök.

Philip Cornwall á Football365 ber saman þrjá bestu varnarmennina í enska boltanum: Sami Hyppia, Sol Campbell og Rio Ferdinand. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að Hyppia sé besti varnarmaðurinn í enska boltanum og er ég honum hjartanlega sammála. Þess má geta að Hyppia kostaði tíu sinnum minna en Ferdinand.

Þess má einnig geta að öll vörnin hjá Liverpool (sem var sú besta á Englandi í fyrra) kostaði helmingi minna en bara Ferdinand. Dudek (besti markvörður í enska boltanum) kostaði 5 milljónir punda, Henchoz og Hyppia samtals 6 milljónir, Babbel var ókeypis og Riise kostaði 4 milljónir. Samtals gerir þetta 15 milljónir punda, sem er sama og hálfur Ferdinand.

Ég er orðinn mjög spenntur fyrir enska boltanum en hann byrjar að rúlla eftir nokkrar vikur. Ég er ánægður með nýju mennina hjá Liverpool (Diouf gæti verið svakalega góð kaup) en enn vantar, að mínu mati, mann á hægri vænginn. Ég hefði verið til í að sjá Lee Bowyer þar, en ekkert varð úr því. Fyrir utan hægri vænginn þá er ég ánægður með liðið. Danny Murphy er þó sterkur og eins hef ég alltaf haft trú á Smicer, þrátt fyrir að hann sé afskaplega óáreiðanlegur.