Að sögn BBC hafa skæruliðar í Kólumbíu sprengt þrjár sprengjur í Bogota í dag, en í dag mun Alvaro Uribe taka við sem forseti landsins. Einnig er á BBC frétt um það hvernig vinstisinnaðir skæruliðar hafa fært sig yfir til Venezuela.
Uribe hafði það á stefnuskrá sinni að ráðast gegn skæruliðunum, en síðasti forseti Kólumbíu, Andres Pastrana reyndi allt hvað hann gat til að semja við FARC skæruliðana, sem og aðra hópa skæruliða, sem tilheyra bæði hægri og vinstri væng stjórnmálanna.
Ljóst er að Pastrana mistókst gjörsamlega ætlunarverk sitt, því ofbeldið hefur sjaldan verið verra og nú hafa skæruliðar að miklu leyti flutt starfsemi sína til stóru borganna, þar sem þeir geta gert mun mannskæðari árásir.
Það er erfitt að sjá nokkra lausn á vandamálum Kólumbíu aðra en lausn Uribes, það er að ráðast með fullu valdi á skæruliðana. FARC hefur hins vegar alltaf notið stuðnings furðulega margar vinstrimanna á Vesturlöndum. Það skýrist kannski helst af því að margir (og ég er kannski ekki alsaklaus af því) líta með rómantískum augum til Guevara, Cienfuegos, Castros og annarra ungra skæruliða, sem hétu því að berjast gegn óréttlæti í Suður-Ameríku. Í dag er það hins vegar ljóst að FARC eiga ekkert skylt við gömlu hugsjónir Ché Guevara og félaga heldur eru þetta morðingjar, sem gera allt, sem þeir geta til að hrella kólumbískan almenning.
Þrátt fyrir þetta þá var til dæmis FARC ávallt boðið að sitja ráðstefnur á vegum vinstrisinnaðra samtaka, svo sem World Social Forum (sem Múrsmenn hafa lofað í greinum sínum) sem telja sig vera mótvægi við samtök sem lofa alþjóðavæðingu að hætti vesturlanda. Reyndar þá hættu World Social Forum að bjóða FARC á ráðstefnu sína í fyrra, ekki vegna þess að þeir væru á móti morðum á saklausu fólki, heldur vildi samkoman ekki líta illa út eftir atburðina 11. september. (sjá grein í The Economist).
Önnur ástæðan er sú að margir vinstrimenn hafa varið aðgerðir FARC með þeim rökum að einnig séu til hægrisinnuð skæruliðasamtök, sem eru að mati margra (og efa ég það ekki) í mörgum tilfellum mun verri en FARC. Þetta er álíka gáfulegt og að styðja Stalín af því að Hitler var enn verri.
Það er hins vegar ljóst að það verður gríðarlega erfitt verk fyrir Uribe að uppræta skæruliðasamtökin. Bandaríkin hafa reyndar heitið honum stuðningi (ekki vegna þess að þeim sé annt um kólumbíska borgara heldur vilja þeir minnka útflutning á eiturlyfjum frá Kólumbíu). Hins vegar eru skæruliðarnir margir búnir að búa síðustu 10-20 árin (eða jafnvel lengur) í frumskógum landsins og þekkja því vel til allra aðstæðna. Einsog Bandaríkjamenn hafa fengið að kynnast þá getur verið erfitt að yfirbuga skæruliðasamtök.
Uppfært: Í dag segja BBC að 15 manns hafi látist og hafi flestir verið fátækir íbúar Bogota, sem er einmitt sá hópur, sem skæruliðar þykjast vera að hjálpa. Sjá myndir.
hvað eru skæruliðar hvað gera þeir og hvar búa þeir yfirleitt