Sokkabuxur

Þá er ég orðinn frekar steiktur í hausnum eftir að hafa setið fyrir framan þennan gullfallega Apple tölvuskjá síðustu 8 klukkutímana. Ég er að búa til vef fyrir Íslensk-Erlenda, sem flytur inn Oroblu. Þannig að ég hef verið að skanna inn einhverjar pakkningar utan af kvenna nærfötum og sokkabuxum. Herbergið mitt lítur sennilega hálf skringilega út, því hér eru nærfatapakkar útum allt í bland við tóma kaffibolla, geisladiska og annað drasl, sem hefur safnast saman síðustu kvöld.


Annars hafa Smashing Pumpkins komið mér í gegnum kvöldið. Mikið afskaplega var það nú frábær hljómsveit. Ég var eitthvað að lesa einhverjar gamlar færslur af þessari síðu þar sem ég var að tala um Pumpkins. Ég ákvað því að setja bara á Pumpkins playlistann minn í iTunes, en hann er einmitt níu klukkutímar og fjörutíu mínutur að lengd (135 lög) enda á ég allar Pumpkins plöturnar. Galapagos, Mayonaise, Sweet Sweet, Tonight Tonight og fleiri eru hreint ótrúlega góð lög.

Þegar ég var í sjötta bekk í Verzló tók ég alltaf Mellon Collie með mér í öll partí. Í hverju einasta partíi setti ég svo “Bullet with Butterfly Wings” á. Var mér nokk sama hvort ég þekkti húsráðanda eða hvort ég hefði leyfi til að skipta um tónlist. Ég þurfti einfaldlega að heyra þetta lag, annars var djammið ónýtt.


Annars er gríðarlega hressandi umræður á netinu 12 á milli Katrínar og einhvers gaurs, sem tók uppá því að útbýta einhverjum vefverðlaunum. Katrín varð réttilega fúl yfir því að hann skyldi alltaf vera eitthvað að bauna á hana og ákvað hún bara að svara honum. Hann varð þá alveg gríðarlega sár og fór eitthvað að tala um að stærðfræði væri gagnslaus og að roleplay væri víst skemmtilegt. Stórsniðugt alveg. Besta kommentið á samt Svansson. Annars er það að tegra fín skemmtun. Aðallega vegna þess að kennarinn sem kenndi mér kúrsa í tegrun er snillingur.