Það er vissulega alveg hrikaleg hlutskipti að vera Liverpool aðdáandi þessa dagana. Þetta eru alveg ólýsanleg vandræði hjá þessu liði. Ég bara skil ekki hvernig þetta hefur allt gerst. Fyrir tæpum tveimur árum skrifaði ég þessa færslu.
Hvað hefur gerst? Hvað veldur því að ég hef ekki lengur trú á manninum, sem ég hélt að væri fremsti knattspyrnuþjálfari í heimi? Hvernig gerðist það að mér verður nánast óglatt þegar ég sé suma Liverpool leikmenn mæta til leiks?
Ég á ekki gott með að svara þessum spurningum. Ég veit bara að í gær byrjaði ég að horfa á Liverpool spila gegn Birmingham, liði í fallsæti. Og ég bjóst ekki við neinu. Ég hef misst alla trú á liðið mitt. Ég hélt að það myndi aldrei gerast.
Að mínu mati eiga bæði leikmenn og þjálfari að skipta á milli sín ábyrgðinni. Þrátt fyrir að Houllier hafi verið kveikjan að mestu gagnrýninni hjá mér þá verður því ekki mótmælt að sumir leikmenn hafa verið Liverpool liðinu algerlega til skammar. Sumir leikmenn, sem Houllier hefur keypt eða verndað ættu einfaldlega ekki að leika með Liverpool.
Þegar maður horfir á þá 11 leikmenn, sem Liverpool spilar með þá er svo sem ekkert stórkostlegt að. Þó eru veikleikar liðsins svo augljósir öllum, sem horfa á fótbolta.
Liðið hefur tvo frábæra markmenn. Miðverðirnir tveir eru frábærir saman og Hamann og Gerrard ættu að vera með bestu miðvallarpörum í enska boltanum. Riise hefur alla burði til að verða besti vinstri bakvörður í heimi. Frammi eru svo Owen og Baros afbragðsgóðir framherjar.
Hinir, sem spila fyrir liðið eru hins vegar liðinu til skammar. Jamie Carragher og Djimi Traore eru sennilega ágætis miðverðir en þeir geta hins vegar ekki nokkurn skapaðan hlut í bakvarðarstöðunum. Danny Murphy á oft ágæta daga en svo á milli koma dagar einsog gærdagurinn þar sem hann hreinlega gat ekki sent á samherja. Diouf og Cheyrou eru einfaldlega ekki nógu góðir fyrir Liverpool. Það má vel vera að ef þeir fái hálftíma til að dútla með boltann geti þeir gert eitthvað, en það mun bara ekki gerast.
Salif Diao, Igor Biscan og Vladimir Smicer eru alveg ómögulegir leikmenn. Smicer á góðan leik á þriggja mánaða fresti en hverfur þess á milli. Ef hann á tvö góða leiki í röð, þá meiðist hann og kennir svo meiðslunum um hversu erfitt hann á með að fóta sig í boltanum.
Emile Heskey
Og þá komum við að framherjunum. Og að Emile Heskey.
Ó vei mér, hvað ég hata Emile Heskey.
Ég get bara ekki mögulega séð hvað fær Gerard Houllier til að hafa Emile Heskey í þessu Liverpool liði. Maðurinn er gersamlega og fullkomlega gagnslaus framherji. Menn segja að hann sé svo sterkur, en samt vann hann engan skallabolta í gær. Og svo á hann að draga til sín svo marga varnarmenn. Bla bla bla. Henry dregur líka til sín varnarmenn en ólíkt Heskey þá getur hann líka skorað mörk, sem er gríðarlegur kostur fyrir framherja.
Það er gersamlega óþolandi hversu mikilli tryggð Houllier heldur við Emile Heskey. Í gær ákvað hann til dæmis að hvíla Michael Owen, einn af 10 bestu framherjum í heimi og hafa þess í stað Heskey í liðinu. AF HVERJU?? Ef einhver í þessum heimi getur nefnt mér eina góða ástæðu fyrir að hafa Emile Heskey í liðinu í staðinn fyrir Owen, þá má hann láta mig vita.
Ég held einfaldlega að Houllier hafi ekki það, sem til þarf til að koma þessu liði alla leið. Til þess þarf þjálfara, sem
- er óhræddur við að selja gagnslausa menn einsog Smicer, Heskey, Biscan og fleiri
- kaupir ekki bara varnarsinnaða miðjumenn
- er heill heilsu
- gerir sig ekki að fífli í hverju einasta blaðaviðtali
- kennir ekki dómurum um þegar liðið leikur ömurlega einsog gerðist í gær
- launar mönnum fyrir góða leiki en setur þá ekki á bekkinn (samanber Milan baros).
- og mikilvægast af öllu, þorir að spila skemmtilegan sóknarbolta
Í dag talar Houllier um að hann hafi vitað að liðið myndi eiga slæman kafla. Hann lætur einsog þetta sé bara eitthvað smá vesen. Í guðanna bænum, liðið hefur unnið TVO af síðustu SEXTÁN leiki. Það er svo ömurlegur árangur að það er ekki fyndið. En Houllier segir
og
Ok, ég er sennilega ekki “true fan”. Þetta er óþolandi að maðurinn skuli segja svona hluti. Einhvern tímann fyrr á þessu tímabili sagði hann að sönnu stuðningsmennirnir væru þeir, sem mættu á útileiki, en það eru um 1500 manns. FRÁBÆRT! Hvað heldur Houllier að hann gæti keypt marga varnarsinnaða miðjumenn ef að Liverpool hefði bara þessa 1500 stuðningsmenn, sem hann kallar “sanna stuðningsmenn”. Það er nokkuð ljóst að hann hefði ekki geta hent 10 milljónum punda i kjötflykkið Emile Heskey ef að í þessum heimi væru ekki til milljónir af vitlausum Liverpool aðdáendum, einsog mér, sem horfa á hvern einasta leik í sjónvarpi, fylgjast með fréttum af liðinu daglega og eyða morðfé í að kaupa búninga liðsins.
Houllier er að reyna að gera lítið úr gagnrýnendum sínum. Ég hvet fólk til að reyna að segja þeim, sem þekkja mig, eða hafa búið með mér að ég sé ekki sannur stuðningsmaður. Það að ég skuli nenna að setjast niður og gagnrýna liðið sýnir það einfaldlega hversu annt mér er um þetta lið.
Það liggur við að mér sé sama hvort liðið vinni Manchester United á sunnudaginn. Auðvitað vil ég að Liverpool vinni en það breytir því samt ekki að þetta tímabil er það ömurlegasta, sem ég hef upplifað á minni ævi. Fyrir það á Houllier skilið að missa starf sitt.
Já! Þetta er mjög góð þróun -endilega að minnka umfang þessara Liverpool-pælinga á forsíðunni :biggrin:
Hvaða hvaða, þið eruð amk í úrvalsdeildinni (ennþá) en dormið ekki við botn 1. deildarinnar eins og stórveldið mitt!
Jói (JBJ), síðan hvenær var Sheff Wed stórveldi ? 😉