Eftir að ég útskrifaðist úr skóla hef ég verið alltof latur við að lesa. Þannig að sennilega litast þessi listi mikið af þeim bókum, sem ég las í háskóla og á ferðalögum, sem ég hef verið á undanfarin ár.
10. | Faust – Goethe – Nei, reyndar þá fannst mér hún hrikalega leiðinleg. Ég er bara ennþá stoltur að hafa komist í gegnum hana og skilið allavegana meirihlutann. |
9. | Nóttin- Eli Wiesel |
8. | Veröld ný og góð – Aldous Huxley |
7. | Dagur í lífi Ivan Denisovich – Aleksandr Solzhenitsyn |
6. | 1984 – George Orwell |
5. | Eugene Onegin – Aleksandr Pushkin – Ég hef aldrei verið hrifinn af ljóðum. Samt er þessi bók í uppáhaldi hjá mér, en hún er skáldsaga í ljóðaformi. Þurfti að lesa hana fyrir bókmenntatíma og það tók mig óratíma að komast í gegnum hana, en hún var þó sannarlega vera þess virði. |
4. | Bjargvætturinn í grasinu – J.D. Salinger |
3. | Glæpur og Refsing – Fyodor Dostoevsky – Reyndi þrisvar að klára bókina en komst aldrei nema á blaðsíðu 50. Tókst loksins að klára hana fyrir um ári og varð heillaður. Dostoevsky skyggnist á ógleymanlegan hátt inní hugarheim morðingja. |
2. | Lygn streymir Don – Mikhail Sholokov – Er eiginlega í jafn miklu uppáhaldi hjá mér og 100 ára einsemd. Stórkostleg bók, sem kveikti áhuga minn á Rússlandi svo um munaði. Samt virðist bókin vera alveg gleymd. Hún fæst nánast hvergi. Kennarinn minn í rússneskum bókmenntum þurfti að ljósrita bókina fyrir okkur, því hún var hvergi fáanleg! |
1. | 100 ára einsemd – Gabriel Garcia Marques – Engin bók hefur fengið mig til að gersamlega gleyma öllu í kringum mig líkt og 100 ára einsemd. Las hana þegar ég var á ferðalagi um Suður-Ameríku. Ótrúlegasta bók, sem ég hef nokkurn tímann lesið. Hrein snilld! |
Eflaust er þessi listi litaður um of af bókum, sem ég hef lesið í tengslum við skólann (og kannski full rússneskur), þannig að bækur, sem ég las mér meira til skemmtunnar á árum áður fá minna vægi. En svona lítur þetta allavegana út í dag.
Hefurðu lesið bækurnar eftir Isabel Allende?? Mér fannst “100 ára einsemd” minna dáldið á þær (IA er skemmtilegri höfundur en GGM að mínu mati). Annars langar mig að benda á Ilminn eftir Patrick Süskind sem er mesta snilld sem til er!! 🙂
Lygn streymir Don fæst í nokkrum eintökum í Bókavörðunni (Fornbókabúðin Vesturgötu). Það er rétt hjá þér, það er leiðinlegt hvað hún er eiginlega algjörlega horfinn þar sem hún er ein besta inngangsbók inn í rússneskar skáldsögur sem til er. Rússneska snilldin, í aðeins torfminni útgáfu.
Ef að þetta eru þínar tíu uppáhalds bækur þá ættir þú endilega að kíkja á nokkrar bækur. T.d. Útlendingurinn eftir Camus, Sultur eftir Knut Hamsun (mjög Glæpur og refsingleg), Þrúgur reiðinnar (soldið pólitísk í lokin en fram af því hrein snilld). Þessar eru t.d. mjög í anda listans.
Persónulega geri ég lítið annað en að lesa og hef lengi ætlað að henda upp einum svona lista. Verst hvað það gengur erfiðlega.
Strumpakveðjur 🙂
Ég verð að vera sammála Þóri með Útlendinginn eftir Camus. Hún er einsog góð Woody Allen mynd, maður sér nýja hluti í hvert skipti sem maður les hana. Hlustaði á hana á hljóðbók í fínum lestri Benedikts Erlingssonar þrisvar-fjórum sinnum í vinnunni fyrir nokkrum árum.
Svo verð ég að benda á Góða dátann Svejk eftir Hasek. Ein lúmsk-fyndnasta bók sem til er! :biggrin:
Ekki það að ég gæti vart búið til topp-10 lista, þar sem ég hef varla lesið 10 skáldsögur um ævina (fyrir utan skólaskylduna). Útlendingurinn og Svejk eiga aftur á móti heima á svona lista.
Takk fyrir allar ábendingarnar. Varðandi Lygn Streymir Don, þá var umræða um hana hér.
Af þessum bókum, sem minnst er á, þá hafa Góði Dátinn Svejk og Þrúgur Reiðinnar alltaf verið á óskalistanum hjá mér. Ég er bara alltof latur þessa dagana. Er að jafna mig eftir skóla-fráhvarfseinkenni. :confused:
Þessi færsla mín var svona dálítið til að sparka í rassinn á sjálfum mér og klára að lesa þær bækur, sem ég er byrjaður á, það er Ástir á tímum Kóleru eftir Garcia Marques og Don Kíkóta eftir Cervantes (á spænsku)
Ég mæli með lestri Gísla Halldórssonar (frá ca. 1980) á Góða dátanum Svejk á hljóðbók. Þetta er líklegast frægasti upplestur íslenskrar útvarpssögu og stendur fyllilega fyrir sínu. Mæli sérstaklega með því fyrir upptekna (og oft þreytta) menn. 😉
🙂 lékstu í Nonna og Manna?
Neibbs, það var annar Einar Örn 🙂