Ég er kominn til Moskvu og er að reyna að drepa tímann þangað til að ég á flug héðan í kvöld. Moskva ætlar að kveðja á viðeigandi hátt með ausandi rigningu og því nenni ég ekki út.
Lestin frá St. Pétursborg var hreinasta helvíti. Í fyrsta lagi komst ég að því að ég hafði keypt miða á vitlausu farrými, þannig að nú var ég í vagni, sem var opinn með um 50 kojum í stórum sal. Það var svo sem ekkert svo hrikalegt og ég dreif mig uppí koju og fór að lesa. Þá hófust ósköpin.
Til að byrja með ákvað gaurinn í kojunni við hliðiná mér að þrátt fyrir að klukkan væri 1 að nóttu, þá væri tilvalið að hlusta á rússneska þjóðlagatónlist. Ég veit hvað þið haldið: “Rússnesk þjóðlagatónlist hlýtur að vera ýkt skemmtileg!” Jæja, ykkur skjátlast, hún er hörmung, sérstaklega þegar hún er spiluð í ónýtu kassettutæki. Þegar ég var um það bil kominn á það stig að ég ætlaði að henda kasettutækinu útum gluggann og láta gaurinn éta spóluna ákvað hann þó að slökkva á tækinu.
Stuttu seinna voru ljósin slökkt og ég lagðist til svefns. Vandamálið er að þrátt fyrir öll meint afrek kommúnismans í Sovétríkjunum, þá var sú iðja að þétta glugga ekki hátt skrifuð. Þannig var að glugginn, sem ég svaf við var alltaf að opnast. Í raun alltaf þegar lest kom framhjá okkar lest, þá opnaðist glugginn. Útivið var svona 5 stiga frost og þegar lestin er á 90km ferð, þá líður manni einsog frostið sé sirka 80 gráður.
Þannig að alltaf þegar önnur lest keyrði framhjá (sem var á um 10 mínútna fresti), þá opnaðist glugginn, þvílíkur hávaði barst af lestinni og hausinn á mér fraus úr kulda. Þá þurfti ég að snúa mér, berja tvisvar í gluggann og reyna svo að sofna aftur. Svona gekk þetta þangað til klukkan 9 í morgun. Ég hef átt skemmtilegri nætur, en núna er ég samt í fínu skapi, þökk sé tveim espressoum.
Þegar ég kom til Moskvu í morgun dreif ég mig yfir á Rauða Torgið og beið í biðröð til að komast inní grafhýsi Leníns. Af einhverjun annarlegum ástæðum er þessi maður, sem á allstóran hluta í því að bera mestu hörmungar allra tíma yfir rússnesku þjóðina, enn hafður til sýnis á Rauða Torginu þrátt fyrir fall kommúnismans.
Grafhýsið er skrítin sjón. Þess er gætt af vörðum, sem eru mjög alvarlegir og benda manni hvert maður skuli ganga (og sjá auðvitað til þess að enginn getur tekið myndir). Maður labbar inní stórt herbergi og þar í miðju herbergi liggur Lenín í jakkafötum. Honum er viðhaldið með því að smyrja hann með einhverju efni vikulega. Þetta er ótrúlega skrítin lífsreynsla að sjá hann þarna, nokkurn veginn heilan, nær 80 árum eftir að hann dó.
Fyrir utan grafhýsið á Kremlarmúrum eru minnismerki um önnur góðmenni, svo sem Stalín (sem var áður inni í grafhýsinu með Lenín, en einhver kona sagði Khruschev að henni hefði dreymt að Lenín hefði sagt henni að hann vildi ekki vera við hliðiná Stalín og því var Stalín fluttur út) og Dzerzhinsky (sem stofnaði KGB). Það magnaða við þetta allt er að við styttur af þessum mönnum, sérstaklega þessum tveimur var fullt af nýjum blómum, sem fólk hafði lagt við stytturnar! Ég verð víst að sætta mig við að sumt fólk mun ég aldrei skilja.
Annars er ég ekkert búinn að sjá neinar sætar stelpur í dag. Hvað er í gangi? Kannski eru þær allar í skóla eða vinnu, enda klukkan ekki orðin tvö.
(Skrifað í Moskvu kl. 13.30)
Skyldu þetta vera orginal jakkafötin?
Eða “ný föt, sama röddin”? 🙂
Ég veit ekki hvort þetta eru sömu fötin en hann er allavegana tekinn vikulega úr boxinu, hreinsaður og smurður aftur, þannig að hann er sennilega tekinn úr fötunum þá. Það er ábyggilega ekkert alltof skemmtilegt starf. 🙂
Góðmenni!!!!!! 😯
Ertu að kalla T.d. Jósef Stalín Góðmenni. Halló.
Ég held að þú þurfir að lesa seinni heimstyrjöldina í Sovétríkjunum aðeins betur vinur.
Ok, Sandra. Á meðan ég les aftur um Seinni Heimsstyrjöldina og Sovétríkin, þá ættir þú að læra aðeins um *kaldhæðni*. 🙂