Ok, ég er kominn heim. Kom seint í gærkvöldi og var böggaður af tollvörðum enn einu sinni. Í þetta sinn gengu þeir svo langt að þeir létu mig snerta einhvern pappír til að sjá hvort ég hefði höndlað eiturlyf síðustu daga.
Ég er alltaf, og þá meina ég alltaf tekinn í tollinum. Þetta byrjaði þegar ég kom einn heim frá Venezuela. Þá var ég reyndar síðhærður og asnalegur en þetta hefur haldið áfram og í hvert einasta skipti sem ég kem heim til Íslands er ég alltaf tekinn. Meira að segja hef ég komið stífgreiddur í jakkafötum í gegnum tollinn og samt er ég tekinn.
Það er nokkuð ljóst að eiturlyfjasmygl eru dottin útaf listanum yfir störf, sem ég gæti hugsað mér að vinna (ásamt því að vinna í námu og sigla á kafbát).
Allavegana, ég kom það seint heim og var svo hrikalega slappur í morgun að ég er bara heima að jafna mig. Á eftir að skrifa eitthvað á næstunni um eftirfarandi:
- Smá ferðasaga frá London: David Blaine, djamm á hommaklúbb og fleira
- Ég las Dude, where’s my country? og fannst hún nokkuð góð. Las einnig Fast-Food Nation og Fat Land. Mjög athyglisverðar bækur
- Sá einnig Kill Bill og þarf einhvern veginn að koma því frá mér hversu stórkostlega mikil vonbrigði sú mynd var. Ef mig langar til að horfa á klukkutíma langa bardagasenu, þá get ég farið á fucking karate mót.
- Átakanlega færslu um baseball úrslit síðustu daga og hvernig þau hafa haft áhrif á geðheilsu mína
Já, og Disintegration með the Cure er schnilldarplata. Byrjaði að hlusta á hana vegna þess að Lovesong var í þætti af Queer as Folk. Hún er búin að vera í spilaranum síðan þá.
Say what? Hvað kemur íslenskum tollurum við hvort þú hafir handleikið fíkniefni erlendis? Þú gætir hafa verið að gera það þar sem það er löglegt!
Ég er ekki í eiturlyfjum og ekki á leið að prófa þau (önnur en góð rauðvín) en mér finnst magnað hvað hönd ríkisins teygir sig langt í svona.
JBJ, þetta snýst væntanlega ekki um hvort þú hafir snert eiturlyf í útlöndum, heldur hvort þú sért líklegur til að vera að smygla þeim inn í farangrinum/endaþarminum. Niðurstöður pappírsprófsins ráða væntanlega einhverju hvort þú sért settur í “áhættuhópinn” og kannaður frekar…
En það er einmitt helvíti áhugavert að þeir MEGI gera þetta. Taka þeir líka púðurpróf, þú gætir verið með byssu falda á þér?
Jamm, mér fannst þetta skrítið. Þegar þeir voru búnir að skanna töskurnar mínar, þá spurðu þeir mig og gaurinn með skrítna hárið úr Skítamóral hvort við værum með skilríki og hvort við værum að ferðast saman.
Ég spurði hann af hverju hann vildi sjá skilríki og þá varð hann eitthvað fúll og sýndi mér skilríkin sín. Svo tók hann mig afsíðis. Hef það svona á tilfinningunni að hann hafi látið mig fá pappírsprófið vegna þess að hann var fúll yfir viðbrögðum mínum. En ég er bara svo djöfulli pirraður á því að þeir skuli alltaf taka mig. Og svo bætir það ekki málin þegar þetta gerist mjög seint að kvöldi. :confused:
Oj, en hvað þú ert óheppinn! Ég hef einmitt alla tíð verið sérlega heppin í tollinum (ekki það að ég hafi nokkurn tímann smyglað neinu ólöglegu). Einu sinni var ég þó stoppuð í vegabréfseftirlitinu og spurð nokkrum sinnum hvort ég væri nú alveg viss um að ég hefði ekki verið að reykja hass þarna í Köben.
Eftir þetta var ég náttúrulega pottþétt á því að ég yrði stoppuð í tollinum, sérlega þar sem ég var með piercings í andlitinu og leit kannski út fyrir að vera vafasamur karakter. En nei nei, ég flaug í gegn og var meira að segja boðin velkomin til landsins. Og það var sko röð af ungu fólki sem verið var að stoppa!
Bank bank bank og 7 9 13 að þessi heppni megi fylgja mér áfram!
:shock:… hvernig getur þér fundist KILL BILL slæm mynd…..
😯
Strumpakveðjur 🙁
Ok, hún er kannski ekki slæm. En hins vegar varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Það skemmtilegasta við Tarantino myndir var alltaf handritið og samtölin. Hins vegar var nánast ekkert um samtöl í þessari mynd. Bara eintómar bardagasenur.
Svo er það náttúrulega algert kjaftæði að skipta myndinni í tvo hluta. Að mínu mati hefði mátt stytta þessa lokasenu um allavegana hálftíma og svo var líka hægt að klippa af öðrum senum og gera þetta að einni mynd. Það að hafa þetta tvo hluta, fyrir mynd með ekki efnismeira handrit en Kill Bill, er bara peningaplokk
Jeeeee peningaplokk! Tarantino hefur hingað til skilið mig eftir með bros á vör þegar hann rýr mig innað skinni.
Annars hef ég farið loðinn, rakaður, léttur, ölvaður, edrú, snyrtilega klæddur, lufsulega klæddur, hress, fúll, glaður, dapur gegnum tolla í mörgum löndum nokkura heimsálfa, ýmist með eitthvað smygl í farteskinu eða ekki, og bara einusinni verið tekinn í tjékk. Þá var reyndar ágætisblóðtaka á ferð en hver þarf sosem nikótín?
Nákvæmlega Geir, þegar ég var stoppaður í jakkafötunum kom einhver síðhærður, órakaður gaur og hann flaug í gegn. Þá gaf ég eiturlyfjasmygl endanlega uppá bátinn.
Sigga Sif, ég á ekki til orð, hvað kemur tollvörðunum við hvort þú hafir reykt hass í Köben eða ekki!!!!
Getur ekki verið að þú sért á e-um lista Einar? Ég veit um stálheiðarlegan mann sem hefur aldrei verið í eiturlyfjum eða slíku en er ALLTAF tekinn í tollinum því hann á vin sem hefur verið nappaður. Þessi maður er tekinn í endaþarmsskoðun aftur og aftur, þó aldrei hafi fundist nokkuð grunsamlegt!! Hann forðast að fara til útlanda og er alltaf mígandi fullur er hann flýgur til baka.
Úff, ég hef nú sloppið við slíkar skoðanir hingað til 🙂
En ég held að ég eigi nú enga grunsamlega vini. Allavegana hefur enginn vinur minn verið tekinn fyrir neitt. Enda eru þeir allir siðprúðir englar, þessar elskur.
Einar, ef ég þekki þig rétt þá er ekkert slór á kallinum þegar kemur að brottför, ferðast yfirleitt létt og ert semsé með þeim fyrstu sem ferð í gegnum tollinn…þegar þeir hafa allan tíman í heiminum.
Prófaðu að slaka á, lesa innihald rauðvínsflöskunnar sem þú ert að kaupa ca 18 sinnum (eða bara eina bók, þú virðist vera svo snöggur af því hvort sem er) og farðu svo þegar öll þvagan er mætt…
ég var tekinn nokkru sinnum í röð á tímabili, þá fór ég að stunda þetta og það hefur svínvirkað enn sem komið er…7 9 13