Bensínstöðvar og Bakkakenningin Mikla

Ég get ekki lengur farið á bensínstöð á Íslandi án þess að fá samviskubit.
Þetta er orðið frekar slæmt mál. Þannig er að mér finnst óþægilegt að fá afgreiðslu á bensínstöðvunum. Finnst einhver veginn vera hálf aumingjalegt af mér að láta gamlan mann dæla bensín á bílinn minn í stormi á meðan ég les DV inná hlýrri bensínstöðinni.

Hins vegar ef ég dæli sjálfur, þá rek ég alltaf auga á sama afgreiðslumanninn, þar sem hann situr við bensínstöðina og þá hugsa ég með mér að ég sé í raun að eyðileggja starfið hans, sem hann hefur unnið við í mörg ár.


Kannski örlítið svipað þessu er “bakkakenningin mín”.

Þetta er hagfræðikenning, sem ég setti fyrst fram á einhverjum bar í Argentínu fyrir nokkrum árum. Efa ég það ekki að ég verði frægur einhvern daginn fyrir þessa merku kenningu.

Ég fann nefnilega upp aðferð til að stjórna þenslu og samdrætti í þjóðfélaginu og jafna út neikvæð öfgaáhrif þessara stiga. Aðferðin er einföld.

Allir, sem hafa borðað á McDonald’s eða ámóta stöðum vita að þeir fá alltaf bakka undir matinn. Til að spara pening, þá eru slíkir staðir með ruslafötu, þar sem gefið er í skyn að viðskiptavinurinn eigi sjálfur að henda ruslinu. Margir gera það, en þó eru sumir sem sleppa því alltaf og því þarf staðurinn að hafa fólk í vinnu við að henda bökkum fólks. Starfsmannafjöldi á staðnum fer því að hluta eftir því hversu duglegir viðskiptavinirnir eru við að henda bökkunum sínum.

Kenning mín felst sem sagt í því að hægt er að koma í veg fyrir þenslu og samdrátt í þjóðfélaginu bara með því að hugsa aðeins áður en maður hendir bakkanum sínum í ruslið.

Ef það er mikill samdráttur og atvinnuleysi í þjóðfélaginu, þá er réttast að henda bakkanum ekki. Þá þarf McDonald’s að ráða fleiri starfsfólk, þannig að samdráttur og atvinnuleysi minnkar. Ef það er hins vegar þensla í þjóðfélaginu þá er réttast að henda bakkanum sjálfur, vegna þess að ef McDonald’s þyrftu að ráða fleira fólk þá þyrftu þeir að hækka verðin hjá sér vegna hækkandi launa. Það myndi svo auka enn frekar þensluna í hagkerfinu.

Ég hef notast við þessa kenningu á skyndibitastöðum um allan heim. Til dæmis í Suður-Ameríku þá henti ég aldrei bakkanum mínum og helst reyndi ég að rusla sem mest til á borðinu. Hellti út tómatsósu og missti óvart gosið í gólfið. Með því hef ég án efa skapað einhver störf fyrir krakka, sem væru annars á götunni.

Hins vegar þegar ég var í námi í Bandaríkjunum rétt áður en að .com bólan sprakk þá passaði ég mig alltaf á að henda öllum matnum mínum samviskusamlega í ruslið. Ef ég var í stuði, þá þreif ég líka eftir vini mína, bara til þess að bandaríska hagkerfið héldist í jafnvægi.


En semsagt, þá er þessi kenning mín semsagt orðin opinber og mun hún vonandi gagnast til að halda efnahagslífi heimsins í góðu og stöðugu jafnvægi næstu árin.

Nóbelsverðlaun í hagfræði eru kannski ekki svo fjarlægur draumur.

© Einar Örn Einarsson – 1999

5 thoughts on “Bensínstöðvar og Bakkakenningin Mikla”

  1. Þetta er náttúrulega hrein snilld og efa ég það ekki að aðalhagfræðingur Seðlabankans mun nýta sér þetta hagstjórnartæki í náinni framtíð!

    Nú er það næsta skref fyrir þig að finna leið til að vinna á framboðsskorti af einhleypum kvennmönnum á Íslandi!?

  2. Við bekkjarbræðurnir í VÍ fórum eftir svipuðu lögmáli þegar við borðuðum á skyndibitastöðunum í Kringlunni, skildum bakkana eftir hingað og þangað beinlínis til þess að vera atvinnuskapandi fyrir starfsfólkið þar……..allir verða að hafa eitthvað að gera

  3. Hvurslags diss er þetta Ágúst? Ég er viss um að margir reyndir bankahagfræðingar hafa lifað heilu ævirnar án þess að koma með svona stórkostlega frumlega hugmynd til að leysa sveifluvandamál í hagkerfum heimsins :biggrin2:

Comments are closed.