Biðraða-kjaftæði

Ok, nú er nóg komið. Þessari geðveiki verður að linna!

Ég fór ásamt vini mínum og kærustu hans á [Vegamót](http://www.vegamot.is) í gær. Ég og vinur minn vorum bara rólegir, höfðum hangið heima hjá mér um kvöldið og vorum mættir á Vegamót um 1.30.

Þar var biðröð, einsog við var að búast enda er nánast alltaf biðröð fyrir utan Vegamót. Fyrir utan Vegamót, líkt og t.d. [Hverfisbarinn](http://www.hverfisbarinn.is/) eru tvær biðraðir. Önnur vanalega löng, hin stutt. Á Hverfis er þetta kallað “VIP” röð, og ég geri ráð fyrir að svo sé líka á Vegamótum. VIP á ensku stendur fyrir “Very Important Person”. Ég hef ýmislegt á móti þessum “VIP” biðröðum, en fyrst að sögunni.

Allavegana, við förum í biðröðina. Við vorum öll frekar róleg og smám saman færðumst við nær staðnum. Þegar við erum komin uppað hurðinni stoppar biðröðin hins vegar enda staðurinn fullur. Við bíðum í smá tíma. Í hina biðröðina (“VIP” röðina) kemur hins vegar hópur af stelpum. Sennilega ekki mikið eldri en 16 ára (á Vegamótum er 22 ára aldurstakmark). Þær voru 10 saman.

Þær byrja strax að væla í dyravörðunum. Vildu fá að komast inn á staðinn án þess að þurfa að bíða í biðröð. Þær halda áfram að röfla og reyna að daðra við dyravörðinn. Ekkert gengur, en allt í einu opnast hliðið á VIP röðinni og þeim er öllum hleypt inn.

Þannig að eftir 5 mínútna röfl var þeim hleypt inn, *aðeins af því að þær fóru í VIP röðina*. Þær þekktu ENGAN, þær voru ekki frægar, og voru ólíklegar til að eyða einni krónu inná þessum skemmtistað.

Nú skal ég játa það að ein af ástæðum þess að ég sæki Vegamót er sú að þar er alveg með ólíkindum mikið af sætum stelpum. Í hópnum voru vissulega sætar stelpur. En í biðröðinni fyrir aftan okkur var líka heill haugur af sætum stelpum. Þær stelpur ákváðu hins vegar að fara í rétta röð og taka lífininu rólega. Fyrir það var þeim verðlaunað með að þær fengu að hanga 20 mínútum lengur en stelpurnar, sem röfluðu í “VIP” röðinni.

**Er eitthvað vit í þessu?**

Við komumst á endanum inn, um 10 mínútum á eftir gelgjunum. Inná staðnum var mjög fínt. Ótrúlega sætar stelpur einsog vanalega og frábær tónlist. Sá stelpu, sem ég er pínu skotinn í (VÁ hvað hún var sæt!) en þorði ekki að segja neitt. Þetta græðir maður á því að fara nánast bláedrú á djammið. 🙂


Ég hef pirrað mig útí “VIP” biðraðir áður. Basically, þá virðist “VIP” röð vera fyrir þá, sem þekkja annaðhvort eigendur staðanna eða dyraverði. Þannig að ef þú hefur aldrei verslað fyrir krónu á Hverfisbarnum, en Doddi frændi þinn er dyravörður þar, þá kemstu inn á undan öllum hinum.

Yfirlýstur tilgangur “VIP” raðanna er að verðlauna reglulega gesti staðarins. Það er göfugur tilgangur og get ég fullkomlega sætt mig við það. Vandamálið er bara að eigendur staðanna hafa oft litla hugmynd um hverjir þessir föstu gestir eru. Hvernig eiga þeir eiginlega að vita það? Á ég að tala við eigendur Hverfis eða Vegamóta og sýna þeim Debet korta yfrirlitið mitt? Þá myndu þeir sjá að ég hef verslað við þessa staði nær vikulega síðastu 2 ár. Myndi ég þá vera talinn fastagestur?

Þriðji tilgangurinn er væntanlega sá að hleypa “frægu” fólki inn á staðina. En VIP raðirnar þjóna nánast aldrei þeim tilgangi. Ef að Birgitta Haukdal ætlar á Hverfis, þá er henni hleypt beint inn, án þess að bíða í “VIP” röðinni.

Einnig er hugsanlegaur sá tilgangur að hleypa sætum stelpum inná staðinn, því þær trekkja að stráka, sem eyða meiri pening inná stöðunum. Þetta er hins vegar aldrei gert, þar sem það eru oftast fleiri sætar stelpur í venjulegu röðinni og þeim er ekki hleypt á undan öðrum ómyndarlegri stelpum eða strákum.


Þessar “VIP” raðir virðast hins vegar einna helst vera samkomustaður fyrir frekt fólk, sem telur sig vera merkilegra en annað fólk á djamminu. Fólk, sem er sannfært að það geti rökrætt við dyraverðina um að það og þeirra vinir eigi það meira skilið að komast inn á staðinn.

Ég sætti mig alveg við að bíða í biðröð til að komast inná skemmtistaði. Oftast ganga þessar biðraðir ágætlega og maður er kominn inn á góðum tíma. Það sem hins vegar oftast tefur þessar raðir er að aðeins fólki úr “VIP” röðinni er hleypt inn á löngum tímum. Þannig gengur ein röðin hratt, en hin ekki neitt.

Það besta, sem staðirnir gætu gert fyrir fastagesti einsog t.d. mig 🙂 væri annaðhvort að finna út góða leið til að meta það hverjir eru fastagestir og verðlauna þá fyrir viðskiptin (á skyndibitastöðum fær fólk t.a.m. kort, þar sem því er verðlaunað fyrir að koma oft á sama staðinn), eða þá leggja þessar “VIP” raðir algjörlega niður. )

Þrátt fyrir að maður sé dyggur viðskiptavinur þessara staða, þá getur maður ekki endalaust látið vaða yfir sig. Eigendur skemmtistaða ættu að muna að þrátt fyrir að það sé biðröð hjá þeim í dag og þeir séu vinsælir staðir í dag, þá getur það breyst á einni nóttu. Til að fresta því að það gerist sem allra lengst, þá væri skynsamlegt af þeim að þeir myndu hugsa betur um góða viðskiptavini sína.

(p.s. [Bjarni segir svipaða sögu](http://bre.klaki.net/dagbok/faerslur/1091971016.shtml) af Sirkus, þar sem hann er fastagestur. Ég tek þó fram að dyraverðirnir á Vegamótum voru mjög almennilegir. Það er einungis áhersla þeirra á “VIP” röðina, sem fór í taugarnar á mér.)

23 thoughts on “Biðraða-kjaftæði”

  1. Ég fór allt í einu að spá þegar ég las þetta í VIP kortunum. Bæði Hús málarans og Hverfisbarinn afhentu þau man ég og sjálfsagt fleiri staðir, en nú hef ég ekki séð svoleiðis kort langalengi. Eru þau horfin með öllu eða er ég kannski bara að stunda vitlausa staði?

  2. Svo sammála þér. Þetta er með öllu óþolandi og Vegamót og Hverfis eru akkúrat verstu dæmin um þessar blessuðu raðir.

    Ég var með VIP kort á Hverfis hér um árið sem ég fékk ekki í gegnum neina klíku heldur af því að ég stundaði staðinn grimmt og eyddi þar pening. Kortið reddaði mér fljótt inn + 1 og svo fékk maður einn stórann bjór aðeins ódýrari. Eftir helgina núna var mér svo lofað svona korti af rekstaraðilum Vegamóta enda hef ég stundað þann stað nær eingöngu núna uppá helgi í ca eitt og hálft ár ásamt því að taka nokkur virk kvöld. Það meikar sens að verðlaun fasta gesti með svona kortum en vandamálið er finnst mér þó alltaf það sama og það eru blessuðu dyraverðirnir.

    Ég veit ekki hversu oft sætar stelpur kjafta sig inn og einhverjir plebbar veifa seðlum í átt að dyravörðunum til að komast inn. Mér persónulega eins og þér finnst fínt að vera í röð, það er oft góð stemmning í þeim og maður er oftast með skemmtulegu fólki hvort eð er og þarna myndast oft tóm til að klára bjórinn sinn og svona. … og já.

  3. Það er þó allavegana jákvætt einsog þú bendir á, Gummi, að góðir kúnnar geti fengið “VIP” kort hjá þessum stöðum án þess að það komi í gegnum klíku. En það verður þá að koma einhverju skynsömu skipulagi á þessar raðir þarna fyrir utan.

    Vegamót græðir nákvæmlega ekki neitt á því að hleypa fólki inn, sem reynir að kjafta sig inn framhjá röð. Það eina, sem Vegamót fær út úr þessu er fullt af fúlu fólki í hinni röðinni.

  4. Ég get verið algjörlega sammála þér með VIP raðirnar en þú verður nú samt að hafa heimildir á hreinu áður en þú rakkar niður annað fólk…ég tel mig vera vissa um að ég hafi verið í þessum 10 manna hópi sem þú ert að tala um, ég fer aldrei í VIP röðina nema akkúrat þarna þar sem að 3 af stelpunum sem ég var með vinna á Vegamótum. Þetta var ekki e-ð daðr við dyravörð eða röfl. Ekki vera að leggja áherslu að þær þekktu ENGAN, þó að þetta hafi kannski ekki verið ég og mínar vinkonur þá getur þú ekki verið viss um að þessar manneskjur hafi ekki þekkt neinn. Og svo með fallega fólkið….það á nú ekki að skipta máli hvernig fólk lítur út til að komast inn á skemmtistaði, svo er álit fólks mismunandi þannig að hver á að dæma um hver fær að komast inn á staði og hver ekki, ætlar þú að taka það að þér?

  5. Ok, sorrí Tanja. Það má vel ver að þið hafið þekkt einhvern, en það leit ekki þannig út fyrir mér. Auðvitað hleraði ég ekki öll ykkar samtöl.

    Þessi færsla snýst líka ekki um þetta eina atvik, heldur varð það bara til að ég varð fúll og ákvað að létta af mér því, sem hefur pirrað mig varðandi þessar “VIP” raðir í langan tíma. 🙂

    Svo var ég líka ekki að hvetja til þess að “fallegt fólk” fengi frekar að fara inn (Guð hjálpi okkur ef einhver staður ætlaði að taka upp slíka vitleysu). Ég sagðist hins vegar að nokkru leyti skilja staðina ef það væri málið, en tók fram að ég væri nokkuð viss um að svo væri ekki.

  6. Já, og sorrí Tanja, en ég get ekki séð að ég hafi verið að “rakka” einhvern niður. Mér finnst ósanngjarnt að halda því fram. :confused:

    Og eitt í viðbót. Ef að þrjár af ykkur vinna á Vegamótum, þá hef ég nákvæmlega ekki neitt á móti því að þið farið inn á undan. Ég myndi veita starfsfólki mínu sömu fríðindi. Hins vegar þá hefðu dyraverðirnir þá átt að láta okkur hin vita af því. Þegar við spurðum þá af hverju stelpnahópnum hefði verið hleypt inn á undan, þá svöruðu þeir engu.

    En einsog ég sagði, þá snérist færslan ekki bara um þetta eina atvik, heldur þennan “VIP” biðraðakúltúr yfir höfuð. Það væri best ef maður gæti vakið þessa staði til umhugsunar. 🙂

  7. Já það er nú kannski rangt af mér að segja að þú sért að rakka einhvern niður og bið ég afsökunar á því… ég get verið sammála þér í nánast öllu sem þú ert að segja um þessar raðir og styð ég þig algjörlega í þessum málum og hvet skemmtistaðina að taka þetta allt til nánari athugunar.

  8. Það virðist nú vera ýmislegt sem má ef maður rekur skemmtistað.

    Ég varð t.d. vitni að því á dögunum að strákur sem sagði einum rekstraraðila fyrrnefnds staðar að hann væri hálfviti (maðurinn var vissulega vel drukkinn en só what) var tekinn af þessum gæja og vinum hans, pakkað saman, hálfpartinn kyrktur og dreginn út (ekki af dyravörðum nota bene heldur af þessum gaur og félögum hans.)

    Ég talaði við hinn rekstraraðilann því það stórsá á stráknum. Allur marinn, blæðandi og átti erfitt með andardrátt. Tek fram að ég var edrú þarna. Hann vildi ekkert gera í þessu og verð ég að viðurkenna að ég missti nánast allt álit á honum, hafði aðeins þekkt þann mann að góðu fram að þessu.

    Ergó: Ef þú átt skemmtistað á Íslandi máttu lemja fólk ef þig langar til þess. Þrefalt húrra fyrir bananalýðveldinu…

  9. ég er nú alveg sammála þessu með VIP raðir,algerlega útí hött,lenti í þessu á Vegamótum,þar sem fólk var tekið framfyrir,og dyraverðirnir voru bara fúlir ef maður sagði eitthvað,Enda er ég HÆTTUR að fara á þann stað!!! 😡

  10. algjörlega sammála síðasta ræðumanni! Þessar VIP raðir eru bara til að pirra þá sem eru ekki með VIP inn á staðina! :biggrin:

  11. sé það gerast að þú hleypir starfsfólki þínu sem er ekki á vakt fram fyrir í röðinni á serrano;)

  12. Já, ég bý í parís og hér eru ekki VIP raðir nema á alllra dýrustu klúbbum sem eru eiginlega bara ætlaðir einverjum VIP manneskjum. Hérna væri samt þörf á VIP röðum því að bærinn er alltaf fullur um helgar og það tekur heljarins tíma að komast eitthvert inn, og leiðinlegt fyrir einskonar birgittu haukdal Frakka. Ég sé engan tilgang í VIP röðum á Íslandi

  13. ég er vanur að fara frekar í VIP röðina því hún er alltaf mikið styttri, þegar maður er fullur þá hugsar maður um þetta eins og raðir á kassa í bónus.
    Ég var samt ekki eins dónalegur og stelpan sem var í röðinni á undan mér, sem ullaði og hlóg að þeim sem voru í meðalmannaröðinni. Mér finnst að það ætti að leggja þessar helv**** VIP raðir niður, þetta er orðið aðeins of mikið plebbadæmi.

  14. Nenni ekki inn á staði sem maður kemst ekki framfyrir á, fer frekar á kaffihús en að bíða í röð fyrir utan skemmtistað. Ömurlegt að eyða djamminu í biðröð :tongue:

  15. Djöfull er mikið af ummælum um þetta subject. Nota bene, það er EKKI HÆGT að leggja niður VIP raðir. VIP raðir verða til jafnvel þó þær heita ekki VIP. Það er til alveg með ólíkindum frekt fólk í þessum heimi sem heldur að það sé merkilegra en annað fólk, það sem verra er það skyggir á okkur hin sem erum merkilegri en annað fólk 😉

  16. Hvað er málið með að hleypa endalaust sætum stelpum inn til að trekkja að strákana? Hvað með okkur, sætu stelpurnar? Þurfum við ekki að hafa einhverja sæta stráka líka? Það er ekkert gaman að vera innan um hóp af lúðum sem koma á staðinn til að höstla. Það ætti að verðlauna strákum líka fyrir að vera snoppufríðir og hleypa þeim inn á staðinn.

    Eða hvað???

  17. Hunsum staðina þar sem er “VIP” raðir eins og vegamót og Hverfisbarinn, það er fullt af öðrum stöðum til að djamma á og semmta sér. hvað er annars gaman að vera inná stað sem er svo troðinn að maður stendur varla í lappirnar því það er svp fullt þar inni, enda pínulítill staður, þá er ég að tala um vegamót.

  18. Ég er búinn að hafa samband við eigendur Vegamóta og þeir eru tilbúnir að koma til móts við þig. Eina sem þú þarft að gera er að koma fyrir 00:00 um helgar og þá losnarðu við biðröðina.

    Valgeir Ingi Pálsson (V.I.P)

  19. Nei nei, þú hefur alveg misskilið tilganginn við þessa færslu. Ég var ekki að ætlast til að sleppa við biðraðir. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að þær eru eðlilegur hluti af skemmtistöðunum (og oft forðast maður skemmtistaði, þar sem engin biðröð er).

    Pointið er að ef það er VIP röð, þá á hún að þjóna einhverjum ákveðnum tilgangi, til dæmis að hleypa fastakúnnum á undan. Hún á EKKI að vera þarna til að einhverjir, sem nenna ekki að bíða í venjulegu röðinni, geti talað sig inn. Það var allur tilgangurinn með þessum skrifum.

    Vegamót er góður staður, sem ég mun halda áfram að stunda. Málið er bara að staðurinn gæti gert viðskiptavini sína enn ánægðari ef hann væri með skýrari stefnu varðandi þessar VIP raðir. That’s all.

  20. Örugg leið til að leysa þetta:

    Sameiginlegir sturtuklefar í sundlaugum. Þá fer enginn á þessa skemmtistaði lengur!

  21. Það vill nú þannig til að ég var einmitt í röð á Vegamótum þetta sama kvöld. Þegar ég var búinn að bíða í smá stund tók ég eftir því að VIP röðin var orðinn lengri en almenna röðin… Go figure!

Comments are closed.