Bandaríkjaferð 1: Washington DC

Jæja, þá er ég búinn að eyða nokkrum dögum hér í landi frelsisins. Kom hingað á laugardaginn og er búinn að gista hjá vinum mínum, Genna og Söndru. Þau búa í íbúð, ásamt ímyndunarveikum ketti, fyrir vestan Potomac ána, ekki langt frá Arlington kirkjugarðinum.

Ég er búinn að taka því sæmilega rólega hérna í DC, enda hef ég komið hingað tvisvar áður og séð alla helstu túristastaðina. Ég byrjaði komu mína á að heimsækja [uppáhalds pizzustaðinn](http://www.cpk.com) minn og svo fórum við, Genni og Sandra á djammið ásamt vinum þeirra. Á sunnudaginn kíkti ég svo á [Camden Yards](http://baltimore.orioles.mlb.com/NASApp/mlb/bal/ballpark/bal_ballpark_history.jsp) í Baltimore, þar sem ég sá baseball leik þar sem Baltimore Orioles [töpuðu](http://baltimore.orioles.mlb.com/NASApp/mlb/news/wrapup.jsp?ymd=20040822&content_id=835029&vkey=wrapup2004&fext=.jsp&c_id=mlb). fyrir Toronto Blue Jays.


Einhvern tekst mér alltaf að koma mér í vandræði á ferðalögum mínum. Mánudagurinn var frábært dæmi um það. Ég vaknaði snemma og ætlaði að skokka aðeins um hverfið. Þegar ég var búinn með hringinn áttaði ég mig á því að ég hafði læst vitlausri hurð á íbúðinni og var því læstur úti.

Það var ekkert alltof gott, því ég var ekki með neitt á mér þegar ég fór að skokka nema ipod-inn minn. Ég var ekki með neinn pening, ég var ekki með síma og hafði ekki hugmynd um það hvernig ég átti að ná í Genna eða Söndru til að hleypa mér inn.

Því eyddi ég öllum deginum, frá 9-5 utanhúss. Það var frekar erfitt, þar sem ég var ekki með krónu á mér og gat því ekki keypt mér neitt að borða. Ég reyndi að redda mér pening í banka, en þeir gátu lítið gert og því fékk ég ekkert að borða allan daginn, en tókst þó að sníkja mér vatnsglös á hinum ýmsu skyndibitastöðum 🙂

En það, sem reddaði mér var að á iPod-inum mínum var ég með ævisögu Bill Clinton, sem er 6 klukkutíma löng í audio book útgáfu. Því eyddi ég deginum hlustandi á Bill segja ævisögu sína. Þannig að enn einu sinni bjargaði iPod-inn minn mér.


Þrátt fyrir að ég hafi komið til DC tvisvar áður, þá eru auðvitað fullt af söfnum og stöðum, sem ég hef ekki séð. Eitt af þeim söfnum er Ameríska Helfararsafnið. Þar er rakin saga Helfararinnar og til sýnis eru ýmsir hlutir tengdir Helförinni. Mjög áhugavert safn, sem ég eyddi dágóðum tíma á í gær.

Eftir það kíkti ég svo ásamt Genna og Óla atvinnurekanda hans og kærustu hans í golf. Fórum á golfvöll við Potomac ána, þar sem við spiluðum 18 holur. Ég var enn og aftur óþægilega minntur á hversu hræðilega lélegur ég er í golfi. Auk þess tókst Genna næstum því að henda mér útúr golfbílnum, þar sem hann er einhver sá all svakalegasti golfbílabílstjóri, sem sögur fara af.


Í dag ætla ég að taka smá rúnt um minnismerkin og ef ég hef tíma fara á Air & Space safnið. Svo á morgun held ég til Chicago.

*Skrifað í Washington D.C. klukkan 10.24*

5 thoughts on “Bandaríkjaferð 1: Washington DC”

  1. á iPod-inum mínum var ég með ævisögu Bill Clinton, sem er 6 klukkutíma löng í audio book útgáfu. Því eyddi ég deginum hlustandi á Bill segja ævisögu sína.

    Einsog það sé ekki nógu slæmt að vera læstur úti í átta klukkutíma!

  2. HEY, Ágúst, hættu þessu “Clinton bashing” kjaftæði. Bill er snillingur og Hillary er fín. Bókin er líka skemmtileg, allavegana hljóðbókin. Held að bókin sjálf sé full löng.

    Hún bjargaði deginum algjörlega fyrir mér.

  3. Hvað virkar batteríið á þínum iPod eiginlega lengi ? Mitt endist í rúma tvo tíma, og spilarinn er ekki orðinn eins árs!

  4. Af hverju í ósköpunum skrifar þú ekki undir nafni, iPod fan??

    Allavegana, iPod-inn minn hefur verið að duga svona 5-6 tíma. Hef einmitt klárað batteríið á honum síðustu tvo daga og sýnist hann detta út rétt fyrir 6 tíma. Sem er einmitt ekki 8 tímar einsog lofað var í upphafi.

  5. Clinton bashing or not, það eru mjög fáar bækur þess megnugar að þurfa að brjóta 900-bls múrinn.

    Annars finnst mér það skemmtilegasta við ævisögur að skoða myndirnar 🙂

    Og já, Clinton var ekki sem verstur. En þessi helgiljómi hans í dag er meira GWB að þakka. Og Hillary er… já, best að vitna bara í uppáhaldið þitt, Jón Baldvin, “no comment”.

Comments are closed.