Eldhúsinnréttingin, eða allavegana stærsti hluti hennar er farin. Það komu hingað hjón áðan og kipptu henni niður. Ofninn og hellurnar farnar og vaskurinn stendur einn eftir, en hann mun fara um helgina.
Núna hef ég fullkomlega lögmæta afsökun fyrir því að elda ekki, víst að eldavélin er farin. Því er öllum vinum og vandamönnum velkomið að bjóða mér í mat á næstu dögum 😉 Nýja eldhúsinnréttingin kemur víst ekki fyrr en eftir tvær vikur. Því mega staðir einsog Eldsmiðjan, Austurlandahraðlestin og fleiri eiga von á auknum viðskiptum næstu daga.
Annars, þá þótti mér mjög gaman að ummælunum um “[edrú færsluna mína](https://www.eoe.is/gamalt/2004/09/27/23.23.21/)”. Þau bæta talsverðu við færsluna. Mig langar talsvert að djamma (edrú eður ei) um helgina, en tilraunir til að skipuleggja starfsmannapartí og matarboð hafa farið útum þúfur. Það er ekki gott.
Ég er hálf þunglyndur í kvöld eftir að hafa horft og hlustað á baseball tímabilið hjá uppáhaldsliðinu mínu [fara niðrí ræsið](http://chicagosports.chicagotribune.com/sports/baseball/cubs/cs-040930cubsgamer,1,2177858.story?coll=cs-home-headlines). Það er búin að vera hrein martröð að fylgjast með liðinu síðan á laugardag. Það þyrfti kraftaverk á næstu 3 dögum til að bjarga þessu blessaða tímabili.
Ég veit ekki hvort þetta er merki um geðveiki, en ég er búinn að vera með algjört kántrí æði eftir að ég sá [Willie Nelson á tónleikum](https://www.eoe.is/gamalt/2004/09/07/05.42.00/). Auðvitað er mestallt kántrí algjör vibbi, en það er þó inn á milli mikil snilld. Svo sem einsog Johnny Cash, fulltaf Dylan lögum, sum Beck lög, Willie Nelson og platan, sem ég er að hlusta á núna: [Harvest](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/B000002KD1/qid=1096587111/sr=8-2/ref=pd_csp_2/103-5958813-3507831?v=glance&s=music&n=507846) með Neil Young. Hún er án efa ein af mínum uppáhaldsplötum.
Var að hluta á nýju plötuna hans Willie Nelson í gegnum Windows Media þar sem hún er ókeypis allavega í dag. Hún er vel áhlýðileg.
Enda er Neil Young ekkert nema snillingur, bendi hér á lag sem að hefur heyrst mikið á rás tvö undanfarið heitir Helpless er Neil Young lag sungið af K.D Lang