Þegar ég ferðast nú til dags er fyrsta reglan mín sú að kaupa mér Lonely Planet bók um áfangastaðinn og lesa mér til um sögu og helstu hápunkta við viðkomandi stað. Þetta hjálpar manni að meta betur staðinn og gerir ferðina skemmtilegri.
Einnig getur verið gaman að lesa bókmenntir viðkomandi lands. Það er til dæmis dálítið gaman að lesa [Dostojevsky í St. Pétursborg](https://www.eoe.is/gamalt/2003/08/29/08.19.10) og Garcia Marques í Cartagena.
Þegar ég var í Prag kláraði ég tvær af þeim þrem tékknesku bókum, sem ég átti. Af einhverjum ástæðum hafði ég gefist uppá þeim öllum á mismunandi stöðum. Ég tók mig hins vegar á og kláraði [The Metamorphosis](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/1593080298/qid=1108324112/sr=2-3/ref=sr_2_3_3/026-4856344-3829242) eftir Kafka, sem er góð.
Einnig kláraði ég [Óbærilegan léttleika tilverunnar](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0571224385/qid=1108324193/sr=2-1/ref=sr_2_11_1/026-4856344-3829242) eftir Milan Kundera. Sú bók er frábær. Ég hafði byrjað á henni þegar ég var í Bandaríkjunum en eitthvað við ástandið þar gerði það að verkum að ég hætti að lesa hana. Prag ferðin var svo ágætis ástæða fyrir að klára bókina. Bókin er frábær ástarsaga, sem fær mann til að hugsa um ýmis málefni varðandi lífið. Mæli með henni fyrir alla. Ég tók mig til og pantaði mér bíómyndina á Amazon. Það verður fróðlegt að sjá hvernig bíómynd tekur á þessum málefnum.
Þriðja tékkneska bókin, og sú sem ég hef ekki enn klárað er Góði Dátinn Sveijk. Ég ætla að taka ráð hans Ágústs Flyg. og finna mér hana á hljóðbók í lestri Gísla Halldórssonar. Veit einhver hvar ég nálgast þá upptöku?
Ég var líka mikill Lonely Planet maður en hef núna alfarið skipt yfir í Rough Guides; þegar ég hef skoðað þær báðar líst mér alltaf betur á RG.
Hljóðbókin er til í Eymundsson á Austurstræti. Á enn eftir að fjárfesta í henni sjálfur samt. 🙂
Það er ökonómískt séð hagstæðara að nýta sér Borgarbókasafnið en að kaupa hljóðbókina. Hljóðbækur eru frekar dýrar af skiljanlegum ástæðum.
Þegar ég hlustaði talsvert á hljóðbækur, fyrir einum 5-6 árum þegar ég var mestmegnis einn að sinna mínu starfi þar sem ég var að vinna, hafði ég yfirleitt þann háttinn á að hlusta tvisvar á allar hljóðbækur. Þannig nær maður sögunni mun betur, annars er alltaf eitthvað sem maður fer á mis.
Þótt ég sé óttarlegur “skrópagemlingur” í skáldsagnalestri hef ég tekið mig töluvert undanfarið misseri (sem er aðallega Þóri Strump að þakka þar sem hann lánar mér reglulega nógu stuttar bækur að ég endist til að lesa þær). Las t.d. þrílógíu Erics Emmanuels Schmitt núna í janúar. Tveir hlutar af þremur eru alveg gullfallegar sögur. Heimspekilegar en algjörlega tilgerðarlausar. Nema þriðja og síðasta bókin, mér fannst hún beinlínis óáhugaverð. Bjartur gaf þær út á síðasta ári.
Ég var hrifin af óbærilegum léttleika tilverunnar en ekki eins hrifin af myndinni, fannst hún tilgerðarleg og náði ekki andrúmsloftinu sem að var í bókinni.
Þetta er samt mynd sem að ég man eftir mjög vel þannig að eitthvað hlýtur að vera varið í hana, bókin er bara svo frábær að það að gera sömu kröfur til myndar er hreinlega ekki hægt.