Ég hef áður gagnrýnt Sunnudagsþáttinn á þessari síðu. Hugmyndin að þættinum er ágæt, það er að fá menn með mjög ákveðnar skoðanir til að stjórna spjallþætti. Þetta form hefur verið vinsælt í Bandaríkjunum, en þar hafa menn farið alltof langt í þessu og er skemmst að minnast þess að Crossfire var tekinn af dagskrá CNN, þar sem sá þáttur fór að snúast meira um kynnana og þeirra skoðanir heldur en það að reyna að ná fram vitrænni umræðu um málefnin.
Sunnudagsþátturinn er langt frá því að vera á sama lága planinu og Crossfire, en á stundum kemst hann ansi nálægt því. Þar finnst mér Illugi Gunnarsson vera hvað verstur.
Fyrir það fyrsta, er það við hæfi að aðstoðarmaður valdamesta manns á Íslandi stjórni pólitískum spjallþætti?
Í öðru lagi þá er hrokinn í Illuga og vanvirðing við viðmælendur, sem og aðra stjórnmálaflokka (aðallega þá Samfylkinguna) með hreinustu ólíkindum. Fyrir stuttu horfði ég á [þátt, þar sem Illugi tók viðtal við Björgvin Sigurðsson í Samfylkingunni](http://media.gagna.net/uskefniSKJAR1/clips/2005_01/77/Sun_30_01_2005.wmv) (viðtalið er í enda þáttarins). Illugi á afskaplega erfitt með að hemja sig og fela fyrirlitningu sína á Samfylkinguna. Því var hann einstaklega dónalegur og hrokafullur í misvitrum kommentum sínum við Björgvin.
Til dæmis (ég reyni að umorða samtalið, svo að megin innihald náist:
>**Illugi**: Fyrsta spurning: Nú eruð þið að fara í gegnum gríðarlega harkalegar formannskorsningar. Haldiði að flokkurinn standi þetta af sér.
>**Björgvin**: já já…
>**Illugi**: Já, ég átti von á því að þú myndir segja þetta. he he heheheh
Í fyrsta lagi, þá er Illugi ekki fyndinn og það væri til góðs fyrir þáttinn ef hann áttaði sig á því. Í öðru lagi, ef menn vita svarið fyrirfram, þá geta þeir sleppt því að spyrja. Ef viðkomandi vill hinsvegar spyrja, þá er við hæfi að leyfa viðmælendanum að svara án þess að gera strax grín að svari hans.
Áfram:
>**Illugi**: Já já, flokkurinn [Samfylkingin] á nú ekki að vera svo hár, ætti að vera í svona 20- 25% fylgi .
Já, akkúrat. Hvað veit Illugi um það? Er fólkið, sem kaus Samfylkinguna í síðustu kosningum á einhverjum villgötum? Merkti það við vitlausan flokk í kjörklefanum? Hvernig er hægt að segja að flokkur, sem fékk yfir 30% fylgi í kosningum og er stöðugt yfir þeim mörkum í skoðanakönnunum eigi í raun að vera með 20-25% fylgi?
Einnig:
>**Illugi**: Ég ætla nú að sleppa því að segja að mér finnst þetta vera algjör klysja.
Nei, Illugi, þú slepptir því ekki að segja að þetta væri klisja. Þú sagðir akkúrat að þetta væri klisja. Ef ég myndi segja: “Ég ætla að sleppa því að segja að mér finnst Natalie Portman vera sæt”, sleppti ég í raun að segja það? Hverslags bull tal er þetta?
Og enn heldur Illugi áfram
>**Illugi**: [Glottandi] Ég ætla nú að sitja á mér og segja ekki hvað mér finnst um málefnin ykkar sko.
Illugi má alveg sitja á sér fyrir mér, en hins vegar væri gaman að sjá hvað honum finnst svona hræðilegt við stefnu Samfylkingarinnar. Sjálfstæðismenn eiga nefnilega afskaplega bágt með að gagnrýna stefnu flokksins, heldur kjósa þeir heldur að gaspra um “stefnuleysi” eða einhverja ámóta lélega frasa til að gera lítið úr þessum stjórnmálaflokki, sökum eigin rökþrota.
Já, en Illugi átti spil uppí erminni. Ingibjörg Sólrún sagði nefnilega eitthvað slæmt um samkeppni fyrir 20 árum. Það breytir engu fyrir Sjálfstæðismenn að hún hafi skipt um skoðun, nei, aðalmálið er að einu sinni var ISG meira vinstra sinnuð en hún er í dag.
Ég er svo sem vanur því að Sjálfstæðismenn séu fastir í fortíðinni og kjósi að líta á alla, sem skilgreina sig vinstra megin við þá, sem komma. Ég hélt að þetta væri fast við einhverja framhaldsskóla lógík, en þetta virðist vera alveg jafn áberandi hjá eldri mönnum.
Sennilega er þetta vegna þess að það er auðveldara fyrir Sjálfstæðismenn að gagnrýna kommúnisma heldur en skoðanir okkar í dag. Það er svo yndislegt að geta bara sagt: “Já, en vinstri stefnan virkar ekki. Þegar vinstri menn réðu árið 82 þá var sko brjáluð verðbólga.” Og “vinstri menn kunna ekki að fara með peninga”.
Þetta er náttúrulega tóm þvæla og á ekkert við stjórnmálamenn í dag. Hvað með það þótt Ingibjörg hafi einu sinni verið herstöðvarandstæðingur og hafi fyrir 20 árum sagt einhver misgáfuleg komment um samkeppni? Ég fílaði einu sinni New Kids on The Block og studdi Sjálfstæðisflokkinn. Það segir hins vegar ansi lítið um mig í dag.
Af hverju megum við ekki bara dæma fólk af þeim skoðunum, sem það hefur í dag. Sjálfstæðismenn hafa allir skipt um skoðanir síðustu 20 ár. Allir! Hver einn og einasti. Hjá þeim er það nokkurs konar eðlileg þróun að þeir breytast úr frjálshyggjumönnum yfir í íhaldsmenn eftir því sem þeir eldast og fitna. Ég dæmi þá þó af þeim skoðunum, sem þeir halda uppi í dag, en ekki af því, sem þeir sögðu fyrir 20 árum. Er það til of mikils ætlast að þeir haldi uppi svipuðum standard fyrir vinstri menn?
Þetta verður langt, sorrý fyrirfram og allt það, en mig hefur bara alltaf langað til að vita skoðun þína á þessu Einar.
Áður en ég varpa fram næstu setningu er mikilvægt að það komi fram að ég er eins hlutlaus og óbundinn íslenskum stjórnmálaflokkum og hægt er að vera. Ég hef jafn lítið álit á þeim öllum, eða þvísemnæst. Að því sögðu:
Má ekki alveg eins heimfæra gagnrýni þína í þessari færslu yfir á Samfylkinguna? Þeir hafa t.d. verið nánast óþolandi í pontu á Alþingi síðustu misseri: það er nánast algjörlega sama hvað er verið að ræða um á Alþingi nú til dags, alltaf skal einhver frá Samfylkingunni eða Vinstri Grænum grípa tækifærið og kenna samsæri Davíðs & Dóra um allt sem aflaga hefur farið í íslensku samfélagi í dag.
Ekki misskilja mig, ég er sammála stjórnarandstöðunni í því að það er vissulega ámælisvert hvernig þeir höguðu sér í Íraksmálinu, fjölmiðlafrumvarpinu og þó nokkrum fleiri en minni málum. En það er samt ekki allt Dabba & Dóra að kenna, hlutirnir geta ekki verið svona einfaldir.
Það sem ég er að reyna að segja er það að eftir að hafa verið í stjórnarandstöðu allt sitt pólitíska líf sem flokkur, þá á Samfylkingin eiginlega of auðvelt með að sitja á þingi og einfaldlega vera á móti öllu sem Sjálfstæðisflokkurinn gerir, hvort sem það er gott eða slæmt. Öllu skal snúið upp í samsæri gegn almúganum. Það er allt annað mál að segjast ætla að gera betur – en það er einmitt það sem mér finnst oft vanta hjá stjórnarandstöðunni. Í stað þess að hrópa “úlfur! úlfur!” við hvert fótspor ríkisstjórnarinnar mætti stjórnarandstaðan oft vera málefnalegri og stinga upp á lausnum, í stað þess að skella sér alltaf beint í orðaskakið.
Að lokum: fyrir utan málefni síðustu nokkurra ára, þá hef ég alltaf átt erfitt með eitt varðandi Samfylkinguna. Hvernig er hægt að kjósa flokk sem samanstendur af fólki sem kom sér saman um að fórna ákveðið mikið af sínum skoðunum og stefnumálum til þess eins að geta sameinast í eitt afl – ekki til þess að málefnin sem þetta fólk trúði/trúir á nái í gegn, heldur til þess eins að Sjálfstæðisflokkurinn nái ekki meirihluta.
Að mínu mati er það óverjandi. Stjórnmál eiga að snúast um skoðanir, ekki valdatafl … en því miður er raunveruleikinn allt annar í dag.
Endilega, ef þú telur þig geta rökstutt þá ákvörðun hinna fjölmörgu flokka að sameinast undir nafni Samfylkingarinnar, láttu mig þá heyra það. Ef ég heyri sannfærandi rök skal ég taka því. En stór hluti af mér hefur alltaf virt Steingrím Joð miklu meira en Össur & co. eftir að Samfylkingin varð til, einfaldlega af því að hann setti skoðanir sínar og hugsjónir ofar valdafýsn og stofnaði bara sinn eigin flokk … ef hann hefði verið jafn gráðugur og hinir leiðtogarnir væri Samfylkingin sennilega komin í ríkisstjórn fyrir tveimur kosningum síðan.
Það að þú hafir stutt Sjálfstæðisflokkin og hlustað á New Kids on the Block segir auðvitað mikið um hvaða maður þú ert í dag.
Hvernig þá, Einar Bragi? Hvað segir tónlistarsmekkur minn þegar ég var 10 ára og stjórnmálaskoðanir mínar þegar ég var 15 ára um það hvaða maður ég er núna 27 ára. Þú þekkir mig svo vel, þú hlýtur að vita þetta.
Kristján, ég skal svara þessu aðeins seinna 🙂
Ekki málið. Tekur örugglega smá tíma… :tongue:
Ég held að það sé ekki rétt að það sé eitthvað sérstakt markmið Samfylkingarinnar að vera ósammála Íhaldinu. Það vekur hins vegar nánast aldrei athygli í fjölmiðlum að stjórnarandstaðan setji fram hugmyndir, nema að þær séu bein gagnrýni á yfirvöld. Ég held að þú sért dálítið litaður af því, sem þú sérð í fréttum. Í fréttum sjást fyrst og fremst umdeildari kommentin frá stjórnarandstöðunni, sem er oft í ósamræmi við heildarstefnu viðkomandi flokka og það góða starf, sem þar fer fram.
Ég er líka ósammála því að Samfylkingin sé til fyrst og fremst til þess að koma Íhaldinu frá. Það var vissulega tilgangur R-listans, en ég er ekki sammála því með Samfylkinguna. Að mínu mati kom hún til vegna þess að fullt af fólki nálægt miðjunni í Alþýðubandalaginu og Alþýðuflokknum sá að það var sammála um fleiri málefni en það var ósammála. Það leit á að það væri sammála um ákveðin grunngildi jafnaðarstefnunnar og að hægt væri að útkljá ýmis útfærsluatrið í sameiningu í stórum flokki.
Persónulega álít ég að það sé ágætt að vera í flokki, þar sem ekki allir eru sammála um öll mál. Ég álít svo að allir í Samfylkingunni séu jafnaðarmenn, sem eru sammála um nokkur grunngildi í stjórnmálum, en að mörgu leyti ósammála um útfærslur. Það er auðvitað svo að ég er mun hægri sinnaðari en margir í fylkingunni, en það þýðir ekki að maður geti ekki unnið með þessu fólki.
Stjórnmál snúast að mörgu leyti um völd. Völd tákna ekki bara að menn geti gert það, sem þeim sýnist og að fólk komist í ákveðin embætti. Völdin snúast fyrst og fremst um að fólk geti komið til framkvæmdar sínum stefnumálum, sem það telji vera þjóðfélaginu til hagsbóta. Þess vegna er mikilvægt að komast til valda. Mér finnst ekkert athugavert við það.
Kristján, þó fólk fylgi sameiginlegri stefnu þarf það ekki að hafa sömu skoðanir á öllum málefnum. Og það þarf að þora að segja skoðanir sínar þó þær stangist á við skoðanir leiðtoga síns( eins og það að vera ósammála en sitja samt hjá) Fíla engan veginn hjarðarstefnu Sjálfstæðisflokksins, Davíð segir sína skoðun og fólkið hans fylgir bara með. Ég kaus líka einu sinni Sjálfstæðiflokkinn, en það var áður en ég fór að fylgjast með stjórnmálum, það sem gerði endanlegt útslag var hroki og lélegar röksemdarfærslur. Einar svoooo sammála þér varðandi Illuga, þetta er bara fyndið. Svo á hann líka til að mála voða fína mynd af sjálfum sér, hvað hann sé vel lesinn og jarí jarí, mætti einu sinni með einhverja tuðru í settið til að staðfesta það. Er reyndar sammála Kristjáni í sambandi við Steingrím J. mér finnst hann mest traustvekjandi maðurinn á þingi í dag.. Já og Guðlaugur hann er natural born nöldrari.
Ég var nú kannski ekki að halda því fram að það segði allt, en eitthvað hlýtur það að hafa að segja um þig. Veit ekki betur en þú fílir svipaða tónlist að hluta til í dag (Timberlake og Brittney). Til dæmis hataði ég New Kids on the Block þegar ég var 10 ára og allt mitt líf haft óbeit á Sjálfstæðisflokknum. Það segir líka heilmikið um fólk í hvaða skóla það gekk, hvaða íþróttir það stundaði, hvaða vini það átti o.s.frv. Það þýðir ekki að afneita fortíð sinni. Þó ekki sé hún alltaf jafn glæst og fólk hefði viljað.HA?
Nei nei, ég er ekki að afneita fortíð minni, enda skammast ég mín lítið fyrir að hafa haft lélegan tónlistarsmekk þá. 🙂
En það er annars athyglisvert hvers konar hugmyndir fólk, sem þekkir mig í dag bara af skrifum mínum á þessa síðu, fær um mig eða minn smekk.
Ætli ég hafi ekki hlustað á 50-60 diska á síðasta ári og aðeins einn af þeim var með Justin Timberlake. Mér fannst þó ekkert athyglisvert við að fíla alla rokkdiskana, en mér fannst það að ég fílaði Justin vera tilefni til skrifa á síðunni. Enda hefði færsla um það að ég fílaði nýja diskinn með Strokes varla verið áhugaverð færsla. Eins minnir mig að ég hafi minnst á að ég hafi fílað eitt lag með Britney.
Alls ekki það að ég skammist mín fyrir að fílal þau tvö, *langt* því frá, en það er samt athyglisvert að velta því fyrir sér hverslags mynd maður dregur upp af sjálfum sér í þessum skrifum. Maður skrifar einungis um það, sem er óvenjulegt eða athyglisvert, en ekki um þá hluti sem maður gerir á hverjum degi eða allt það venjulega, sem maður hlustar og horfir á og eru í raun meira lýsandi á því hver maður er í dag.
Skilur einhver hvað ég er að fara? 🙂