[Þessi setning](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1604&gerd=Frettir&arg=6) á Múrnum er bull (feitletrun mín)!
>**Nú eru 36,2% ekki ýkja mikið fylgi. Í ljósi þess að kjörsókn á Bretlandi hefur hrunið á valdatíma Blairs og nær nú tæplega yfir 60% þá er ljóst að Verkamannaflokkurinn nýtur aðeins stuðnings 21-22% atkvæðisbærra kjósenda**. Ljóst er að stór hluti þeirra sem þó kusu flokkinn gerðu það þrátt fyrir forsætisráðherrann en ekki vegna hans.
Það er einfaldlega rangt að segja að Verkamannaflokkurinn njóti aðeins stuðnings 21-22% atkvæðisbærra kjósenda. Vissulega væri rétt að segja að 22% atkvæðisbærra kjósenda hafi mætt og kosið flokkinn, en Sverrir Jakobsson veit hins vegar ekkert um hug þeirra, sem sátu heima. Með þessari setningu gefur hann í skyn að allir, sem hafi setið heima, styðji ekki flokkinn og því sé fylgið einungis 21-22%. Það getur hins vegar varla verið rétt.
Sverrir fellur þarna í sömu gryfju og Sjálfstæðismenn í forsetakosningunum á Íslandi, það er að rembast við að túlka vilja þeirra, sem sátu heima. Það er hins vegar hæpið að reyna slíkt.
Annars er það ekki gaman að þurfa að sitja inni við tölvu í þessu veðri. Vonandi að mér takist loksins að klára vefsíðuna, sem ég er að vinna, um þessa helgi. Er komin með ógeð á þessu.