Viva México, cabrones!

Ó fokking jeh!

Ég er að fara til **Mexíkó** í fríið mitt. Ég er búinn að skipta um skoðun sirka 30 sinnum á síðustu dögum, en valið stóð á [milli Suð-Austur Asíu og Mið-Ameríku](https://www.eoe.is/gamalt/2005/07/26/03.12.23). Vinur minn í Tælandi var aðeins uppteknari en hann hélt og það nægði til að ég ákvað að velja Mexíkó í þetta skiptið. Hef vonandi tækifæri til að fara til Tælands seinna.

Og jedúddamía, ég fékk brjálæðislegan fiðring þegar ég loksins ákvað þetta. Mexíkó er svo yndislega æðislegt land! Ég hef reyndar aðeins skoðað þrjár borgir, en fólkið er æði og nánast allt tengt Mexíkó er allavegana í minningunni frábært.


Ég vann eitt sumar í Mexíkó fyrir 8 (úff!) árum. Það var algjörlega æðislegt sumar. Í fyrsta skipti bjó ég einn og þar varð ég líka í fyrsta skipti ástfanginn. Vinnan var ekkert sérstaklega skemmtileg, en kvöldin og helgarnar voru æðisleg.

Ég kynntist stelpunni, Gabrielu, í gegnum vinnuna. Eftir að hafa hitt hana nokkrum sinnum fann ég loksins kjark til að bjóða henni út á stefnumót. Við byrjuðum saman og eftir nokkurra vikna samband bauð hún mér að flytja heim til sín.

Sem var ekkert smá furðulegt. Ég hafði verið að leigja hjá fólki í úthverfi Mexíkóborgar, stutt frá vinnunni minni. En mér samdi ekkert sérstaklega vel við fólkið, sem ég leigði hjá (enda voru þau geðsjúk, öll!). Þannig að ég ákvað að þiggja boðið, enda bjuggum við Gaby þá í sitthvorum enda borgarinnar. Gaby bjó í pínkulítilli íbúð í frekar fátæku hverfi uppí hlíðum Mexíkóborgar, ásamt mömmu sinni, bróður og systur. Þetta er ein yndislegasta fjölskylda, sem ég hef kynnst. Þau vildu allt fyrir mig gera og tíminn þar var ógleymanlegur. Stóri bróðir Gaby var nokkurs konar pabbi á heimilinu og sá til þess að lesa mér lífsreglurnar áður en við Gaby fórum út saman. Mamman var ótrúlegur kokkur og á hverjum degi var veisla á heimilinu.

Eflaust gerir minningin hlutina enn frábærari en þeir voru, en ég hef alltaf horft aftur til þessa sumars með hlýhug. Án efa eitt af bestu sumrum, sem ég hef upplifað.


Ég elskaði líka Mexíkóborg. Hún er kannski svipuð Caracas í Venezula (þar sem ég bjó í eitt ár þegar ég var 18 ára) að því leyti að fólk sem staldrar stutt við sér bara traffíkina, mengunina og fátæktina. En þeir, sem búa þar lengur, átta sig smám saman á því hversu heillandi borgin er. Utan Mexíkóborgar heimsótti ég einnig Acapulco og Veracruz. Ég get ekki beðið eftir því að skoða meira af Mexíkó, því í minningunni er allt við Mexíkó frábært:

Stelpurnar (óó!), klúbbar með barra libre (eitt gjald og svo eins mikið áfengi og þú vilt), tónlistin, tekíla, bjórinn, stelpurnar, veðrið, traffíkin og allt brjálæðið í Mexíkóborg – og maaturinn. Besti matur í heiiiimi. Get ekki beðið eftir því að droppa inná einhverja taqueria um miðja nótt eftir djamm og fá mér tacos al pastor. Jesús Kristur hvað mig hlakkar til!


Ég er ekki kominn með dagsetninguna 100% á hreint. Á enn eftir að afgreiða smá í vinnunni, en þetta verður vonandi í lok mánaðarins. Upphaflega planið er að fljúga til Mexíkóborgar, eyða tímanum þar og fara svo suður. Sennilega í gegnum Chiapas (Ya Basta!, PR!), svo til Gvatemala, Belís og El Salvador. Ég er ekki búinn að skipuleggja ferðina nógu mikið, þannig að ég veit ekki hversu mörg lönd ég heimsæki. Þannig að tíminn verður að leiða í ljós hvort ég fari til Hondúras, Níkaragva, Kosta Ríka og Panama.


Ég fékk svo mikið nostalgíukast við að skrifa þessa færslu að ég setti Luis Miguel á fóninn. [Por debajo de la Mesa](http://www.singingfool.com/musicvideo.asp?PublishedID=809926), maður! Er hægt að hafa það væmnara? Ég held ekki. En þetta var uppáhaldslag Gaby og því minnir það mig alltaf á Mexíkó. Hún neyddi mig til að hlusta á þetta aftur og aftur og aftur.

Ó vá, ég fæ gæsahúð. Mig langar út á morgun.

8 thoughts on “Viva México, cabrones!”

  1. ahhh Mexíkó 🙂 maður fær bara gæsahúð af nostalgígju – ég fór aftur til Mexíkó í desember eftir 5 ára fjarveru og það var alveg jafn frábært og í minningunni – og Tacos al pastor eru enn betri heldur en í minningunni…… 🙂

  2. ég bjó í Tabasco en ferðaðist hingað og þangað… Mexíkóborg, Mérida, Cancún, Chiapas, Oaxaca, Guanajuato, Monterrey…. 🙂

  3. Jesús Kristur, eru fleiri Íslenskuspekingar en Hildur og BIÓ að lesa þessa síðu? Annars, þá er ég búinn að breyta þessu, takk 🙂

    Inga, er eitthvað sem þú mælir með?

    Og Jens, það er auðvitað tilgangurinn við að fara til Chipas. Tek bara bolinn minn með og þá hlýtur mér að vera tekið sem jafningja. :biggrin2:

  4. Úff, þetta verður fróðlegt hjá þér. Ég þori ekki einu sinni til Bandaríkjanna yfirhöfuð, hvað þá til Oklahoma, af ótta við fyrrverandi kærustuna mína (og Jesú-óðan faðir hennar) … þetta verður fróðlegt hjá þér.

    Þýðir þetta að þú munt ekkert skrifa á Liverpool-bloggið í mánuð eins og í fyrra? Eins gott að við vorum að bæta við þriðja pennanum… 🙂

Comments are closed.