Síðustu dagar hafa verið góðir. Í raun hefur þetta skipst í tvennt: Hryllilegar rútuferðir og svo 6 æðislegir dagar á Bay Islands, rétt fyrir utan strönd Hondúras.
Hondúras er náttúrulega hið upprunalega bananalýðveldi. Á síðustu öld réðu 3 bandarísk banafyrirtæki nánast öllu hér í landi. Fyrirtækin áttu allar bananaekrurnar og svo studdu þau öll sinn stjórnmálaflokkinn og réðu í gegnum þá flestöllu í landinu. Í dag er landið gríðarlega fátækt.
Síðast þegar ég skrifaði af alvöru var ég staddur í Marcala í Hondúras. Það er lítið þorp við landamæri El Salvador. Upphaflega ætlaði ég til Tegucigalpa, höfuðborgar Hondúras, en ég ákvað á síðustu stundu að fara frekar beint til Bay eyjanna, sem eru rétt fyrir utan Hondúras í Karabíska hafinu.
Til þess þurfti ég að vakna klukkan 4 um morgun síðasta föstudag. Þar sem ég er ekki með vekjaraklukku, þá þurfti ég að treysta á vekjaraklukkuna í hausnum á mér. Hún var ítrekað slegin útaf laginu af hana, sem galaði alla helvítis nóttina. Mér tókst þó að vakna um kl 4.30 og í einhverju móki ákvað ég að stökkva út og leita að rútustöðinni. Fattaði þegar ég var kominn út að ég hafði ekki hugmynd um það hvar hún væri, en rambaði einhvern veginn inná eitthvað torg, þar sem rútur biðu. Við tóku svo 11 tímar í rútu í frekar slæmum skilyrðum. Fyrst til San Pedro Sula. Rútan þangað fór af stað klukkan 5 um morgun, en það hindraði ekki bílstjórana frá því að blasta mexíkósku kántríi á fullum styrk.
Í San Pedro Sula, sem er víst sú borg í Ameríku þar sem flestir eru með alnæmi, vildi ég ekki stoppa lengi og tók því rútu beint til La Ceiba, sem er við strönd karabíska hafsins. Þar tók ég svo strax ferju yfir til Bay eyjanna.
Ég ákvað að halda mig við Roatan, sem er stærst eyjanna. Þar búa um 90.000 manns, en ég tók ekki eftir mörgum íbúanna. Ég hélt mig við West End, sem er lítið þorp, þar sem flestir bakpokaferðalangarnir halda sig. Á ferjunni hitti ég tvær stelpur frá Englandi og ákváðum við að reyna að finna saman hótelherbergi. Eftir smá leit enduðum við þó á ódýrasta gistiheimilinu í bænum. Þar var fyrir fullt af skemmtilegu fólki og myndaðist þarna frábær hópur, sem hélt sig mikið saman dagana á eyjunni. Flestir þarna voru reyndir ferðalangar og nokkrir voru algjörlega ógleymanlegir. Á svona gistiheimilium, þar sem fólk hittist skapast oft góð stemning og það varð raunin þarna.
West End er pínkulítill bær, eftir honum liggur ein moldargata, þar sem eru nokkrir veitingastaðir, barir og svo köfunarþjónustur. Flestir koma til Roatan til að læra að kafa, auk þess að slappa af. Stemningin í bænum var æðisleg. Allt mjög afslappað og ekki of túristalegt. Flestir, sem voru þarna voru bakpokafólk, en eldra fólk í pakkaferðum heldur sig á öðrum hluta eyjarinnar.
Allavegana, ég var rosalega hrifinn af þessu þorpi og þessari eyju. Ég kom þangað til að læra að kafa og fór ég á 4 daga námskeið, sem kostaði mig 15.000 krónur!!! Hvergi í heiminum er jafn ódýrt að læra að kafa og þarna. Námskeiðið samanstóð af kennslustundum innanhús, kennslu á 2 metra dýpi og 8 metra dýpi. Síðustu tvo dagana köfuðum við svo fjórum sinnum niður á allt að 18 metra dýpi. Rétt fyrir utan Roatan eru kóralrif, sem eru partur af næst stærsta kóralrifi í heimi (á eftir Great Barrier Reef í Ástralíu).
Að kafa þarna er stórkostleg lífsreynsla og ég er sannfærður um að ég eigi eftir að kafa oft í framtíðinni. Kóralrifin eru full af lífi, við sáum endalaust magn af fiskategundum, risaskjaldbökum og fleiru. Algjörlega ógleymanlegt.
Mesti tíminn minn á eyjunni fór því í köfun. Á kvöldin tók ég því svo mis-rólega. Fyrsta kvöldið fór ég á djammið á nokkrum stöðum. Djammið var beisiklí labb á milli nokkura bara á ströndinni, drekkandi romm og bjór, spjallandi við skemmtilegt fólk og dansandi á sumum stöðunum. Á einum staðnum hitti ég m.a.s. stelpu frá Íslandi, sem býr á eyjunum. Einn strákurinn af gistiheimilinu hafði kynnst henni og vildi endilega kynna mig fyrir henni. Hún er að læra að verða köfunarkennari og hefur búið á Bay eyjunum í nokkra mánuði.
Allavegana, næstu kvöld var svo kíkt á barina, labbað um og notið lífsins. Ég kynntist stelpu frá þýskalandi þarna eitt kvöldið og eftir nokkra daga á eyjunni ákváðum við að prófa að ferðast saman. Í gær fórum við því saman tvö til meginlandsins með ferjunni. Tókum svo rútu til San Pedro Sula og þaðan til Puetro Cortes, þar sem við gistum í gær. Í morgun tókum við svo rútu, pickup og svo mini-bus hingað til Puerto Barrios í Gvatemala, þar sem við erum núna.
Við ætlum ekki að stoppa hérna, heldur var planið að borða almennilegan mat (ég borðaði bara kex og snakk í rútunum í gær), fara á netið og svo ætlum við á eftir að taka bát til Livingston. Þaðan ætlum við að fara í siglingu í skóginum og svo ferðast meira um Gvatemala og hugsanlega yfir til Belize.
p.s. Gmail og vinnupósturinn virkar ekki, thannig ad eg get ekki svarad tolvuposti.
Skrifað í Puerto Barrios, Gvatemala kl 13.41
Ekki leiðinlegt það…. en hvernig ætlarðu að sjá leikINN á sunnudaginn eiginlega? Eru þeir með afruglara frá Símanum þarna í Gvatemala? :laugh:
Get rétt séð þig fyrir mér í köfun, hlýtur að hafa verið einstök upplifun! Svo verður það að segjast að þú ert alveg lygilega góður að finna þér kvenfólk til að ferðast með 🙂
Tja, leikurinn er reyndar á einhverju bjána Pay-per-view, þannig að ég er alls ekki viss um að mér takist að sjá hann. Frekar fúlt.
Og já, Kristján, köfun er stórkostleg upplifun. 🙂
Gaman að sitja hérna við tölvu í Barcelona á Spáni og lesa af ferð Íslendings í Mið-Ameríku. Ég er einmitt hérna á spænskunámskeiði sem er liður í að undirbúa ferð sem mig langar einhvern tíma í framtíðinni til að fara í til rómönsku Améríku.
Gaman að heyra, Salvör. Vona að þú látir verða af ferðinni. Einnig er vinsælt að taka spænsku námskeiðið hér í Mið-Ameríku, sérstaklega í bæjum einsog Antigua hér í Gvatemala.
Annars þarf maður ekki að vera neinn spænsku snillingur til að njóta rómönsku Ameríku. Fólkið er það indælt að smá spænsku kunnátta er nóg 🙂