Gvatemala er nógu stórt land til að rúma ólíka menningarheima. Stærsti hluti landsins eru ladinos, sem eru blanda af afkomendum Spánverja og innfæddra. Innfæddir (K’iche, Kaqchikel og aðrir Maya stofnar) eru svo um 40% þjóðarinnar. Pínkulítill hluti þjóðarinnar tilheyrir svo [Garifuna](http://en.wikipedia.org/wiki/Garifuna).
Garifuna eru svartir afkomendur þræla, sem Spánverjar komu með og settust að á eyjunni St. Vincent. Í dag eru Garífuna fólkið búsett aðallega í Hondúras, Belize og hér í Gvatemala við strendur Karabíska hafsins. Garifúna tala sitt eigið tungumál, sem er stórkostlega skrautleg blanda af ensku, spænsku, frönsku og fleiri tungumálum. Þetta tungumál er gjörsamlega óskiljanlegt jafnvel manni einsog mér, sem þó tala ensku spænsku nokkuð vel.
Ég hef verið síðustu tvo daga hér í Livinston, sem liggur við strönd karabíska hafsins. Gvatemala nær aðeins til Karabíska hafsins á mjög takmörkuðum kafla og er Livingston þekktasti parturinn. Hér í þessum litla bæ býr fólk af Garifuna stofninum. Lífið ber keim af því. Tónlistin, sem Garifuna spila er taktföst og mögnuð og hér má heyra trommuslátt úr öllum áttum á kvöldin.
Anja, þýska stelpan sem ég var að ferðast með, þurfti skyndilega að fara aftur til Hondúras. Stelpa, sem hún ferðaðist áður með, veiktist af dengue og var því föst á sjúkrahúsi í San Pedro Sula. Því ákvað hún að fara og vera með henni í smá tíma. Planið er svo að hún komi hingað til Livingston á mánudag og að við höldum svo áfram ferðalaginu.
Því hef ég þrjá daga til að slappa af hérna í Livingston. Ég held að það sé vart hægt að finna betri stað til að slappa af.
Ég hef þó verið sæmilega aktívur hérna. Gerði reyndar lítið í gær, enda fór rafmagnið af um 8 leytið og ég notaði það sem afsökun til að fara að sofa klukkan 9. Vaknaði snemma í morgun og fór í smá ferð um nágrennið. Labbaði með litlum hóp um bæinn og svo fórum við í kajakferð um eina á hérna nálægt og enduðum á sundi í mjög fallegum fossi. Fullkomin leið til að eyða laugardagseftirmiðdegi.
Planið er svo óljóst. Ætla að kíkja eitthvað á barina og vonandi hlusta á góða tónlist í kvöld og svo ætla ég að taka því rólega í hengirúminu, sem er fyrir utan herbergið mitt og lesa bækurnar mínar í hitanum á morgun og á mánudag. Hljómar sannarlega ekki illa.
Ég er búinn að taka heil ósköp af myndum, en einu myndirnar sem ég get sett inn á síðuna mína eru af fyrsta minniskortinu á litlu vélinni minni – semsagt bara örfáar myndir frá Mexíkóborg og San Salvador. Vonandi get ég sett inn fleiri (og umtalsvert skemmtilegri) myndir seinna. Því miður eru þær ekkert alltof skýrar, sem skýrist af því að myndvinnsluforrit, sem fylgja með Windows eru FOKKING drasl!
Smellið á “lesa meira” til að sjá myndirnar 🙂
Mexíkóborg – séð úr Torre Latinoamerica
Ég á El Zocalo í Mexíkóborg – næst stærsta almenningstorg í heimi (á eftir Rauða Torginu í Moskvu
Götulíf í Mexíkóborg
Ég á aðaltorginu í San Salvador, El Salvador.
*Skrifað í Livingston, Gvatemala klukkan 17.10*
Öfunda þig ekkert smá að hafa verið að kafa í þessari paradís! Annars er komið nafn á litlu vinkonu þína,.. Margrét Eva Borgþórs. Haltu áfram að halda okkur uppfærðum hérna heima. Farðu varlega!
Borgþór
He he, til hamingju með skírnina. Því miður vildi enginn veðja við mig um að hún yrði skírð Margrét, annars hefði ég getað unnið mér inn fínan pening 🙂
Og jamm, ég held áfram að skrifa.