Í Mogganum í gær er einsog vanalega á laugardögum kafli um ferðalög. Þar er m.a. viðtal við Gísla, miðaldra Íslending, sem fór til Istanbúl með íslenskum fararstjóra í pakkaferð í haust. Hver nákvæmlega tilgangur þess að ræða við þennan ferðalang er, átta ég mig ekki almennilega á.
Gísli var ekki ánægður með ferðina til Tyrklands og er frekar fúll yfir því að það skuli vera til öðruvísi fólk utan Íslands. Hann segir m.a.
>Á hverju horni biðu menn eftir að snuða mann. Það setur óneitanlega blett á svona ferð sem auðvitað er lagt upp með að sé skemmtiferð.
Hólí krapp! Hann er semsagt fúll yfir því að götusalar í Istanbúl sýni honum ekki þá tillitsemi að haga sér einsog Íslendingar, á meðan að þessi íslenski hópur hafi verið í *skemmtiferð*. Þvílíkt tillitsleysi!
Hann heldur áfram:
>Borgin er skítug og leiðinleg. Maturinn ekkert sérstakur.
Hvernig fær Gísli þetta út nákvæmlega? Hvað átti borgin að gera til að vera skemmtilegri? Prófaði Gísli að tala við innfædda, reyna að kynnast menningunni? Eða var hann bara í pakkaferð og ráfaði um borgina í fylgd fararstjóra?
Er [AyaSofia](http://www.hillmanwonders.com/hagia_sofia/hagia_sofia.htm#_vtop), ein merkasta kirkja í heimi, leiðinleg? Hvað með Bláu Moskuna? Eða [Topkapi höllin](http://www.hillmanwonders.com/topkapi/topkapi_palace.htm#_vtop)? Er þetta ekki nógu skemmtilegt? Hvað með allt mannlífið? Skemtanalífið? Öll menningin? Bosphorous? Hvað þarf til að gera borgina skemmtilega? Golfvöll eða strönd kannski?
Gísli heldur áfram:
>Veðrið var leiðinlegt, rigning og slydda allan tímann
Ef nafnið gaf það ekki nógu vel til kynna, þá er Gísli Íslendingur. Er það ekki býsna hæpið fyrir okkur Íslendinga að gagnrýna veður í öðrum löndum?
Og áfram:
>Það er einsog mönnum sé það bara heilagt þarna að ræna villutrúarmenn eins og þeim finnst við vera.
!!!
Bíddu nú aðeins hægur! Hvað hefur þetta með trúarbrögð að gera? Heldur Gísli virkilega að múslimar reyni að ræna fólk sérstaklega af því að það er kristið? Er ekki líklegra að fátækir Istanbúl-búar reyni að nýta sér fáfræði erlendra túrista, sem sýna landi þeirra og menningu afskaplega lítinn skilning?
Hvernig veit hann að Tyrkirnir í Istanbúl líti á hann sem villutrúarmann? Lenti hann einhvern tímann í samræðum við Tyrki um trúarbrögð, eða tekur hann þetta bara beint uppúr sjónvarpinu? Reyndi hann einhvern tímann að nálgast Tyrkja til að fræðast um viðhorf þeirra?
Gísli tekur tvö dæmi af því af hverju Istanbúl er svona hræðileg. Í fyrsta lagi er hann rukkaður of mikinn pening fyrir kebab á götuhorni! Í öðru lagi var farið í hliðartösku konu hans og tekið seðlaveski. That’s it! Ég endurtek, það var *seðlaveski* tekið úr *hliðartösku*! Þau hefðu alveg eins getað borið skilti, sem á stóð “rænið okkur, við erum túristar”.
Svo endar Gísli þetta á þessu:
>Ég segi ekki að þetta hafi verið hrein hörmung, en þetta var ekki gaman.
Semsagt, vitlaust verð á kebab og seðlaveski úr hliðartösku eyðilagði skemmtiferð þeirra hjóna. Og fyrir það ákveða þau að hafa samband við Moggann og gefa það í skyn að Tyrkir séu þjófóttir, sem geri í því að herja á “villutrúarmenn”.
Af hverju í ósköpunum er ferðahluti Moggans að birta svona vitleysu? Veit fólk ekki að það eru þjófar í stórborgum í útlöndum? Þarf einhver að segja svona? Af hverju er í frásögn um Istanbúl ekki minnst einu orði á allt hið góða við borgina, en öllu púðri eytt að segja frá óheiðarlegum kebab sala?
Af hverju er ekki frekar talað við fólk, sem hefur farið til Istanbúl einsog alvöru ferðalangar og reynt að kynnast landinu og menningunni? Fólk, sem er víðsýnt og gerir sér grein fyrir að það sé skítur og fátækt í löndum utan Íslands?
Fyrir utan það að það er náttúrulega ekki hægt að gagnrýna borgina, þar sem [merkasti íþróttaviðburður þessarar aldar](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/06/04/ferasaga_istanbl) fór fram 🙂
Þessi Gísli er greinilega mikill snillingur. Hvernig átti hann að vita þetta allt saman. Hann ætlaði eflaust í rólegheitaferð á strönd og golfvöll og fær svo þetta í staðinn. Ekki skrítið að blessaður maðurinn sé ekki sáttur. Ég myndi krefjast endurgreiðslu enda hefur ferðaskrifstofan vafalítið verið með óhreint mjöl í pokahorninu, nú ef þeir hafa hreinlega ekki bent kebabsalanum á Gísla og frú svo við tölum nú ekki um vasaþjófinn. Áfam Gísli, gott hjá þér að vara okkur hin við þessu hornskítandi múslima pakki.
Það verður að taka þessari grein sem gríni, manninum getur ekki verið alvara. Ég tel Tyrki t.d. hafa lagt mikið til dansks samfélags með Kebab og Durum og hið besta fólk.
Verð líka að taka það fram að eftir að hafa verið 3 mánuði í Ghana á svæði sem er að nánast öllu leiti íslamskt (90%) þá ber ég ómælda virðingu fyrir múslimum og tel þá hið besta fólk og það heiðarlegast sem ég hef kynnst í mínum ferðalögum.
Þú ert yndislegur bloggari þegar þú ert reiður, Einar. 🙂
Og já, ég er sammála þér með þennan Gísla, og í raun með pakkaferðar-túristana almennt. Ég hef farið í pakkaferð út í heim og kom heim nánast engu vísari um land og þjóð þá sem ég hafði heimsótt – en nokkrum fylleríum með félögunum ríkari. Hefði alveg eins getað farið niðrí miðbæ þrjú kvöld í röð, hefði kostað minna.
Eina leiðin til að ferðast er að gera eitthvað óvænt, eitthvað sem er ekki planað. Þú virðist hafa rétta hugmynd um þetta, og ekki er langt síðan þú komst til Istanbúl (eins og við Púllarar vitum vel), hvers vegna skrifarðu ekki Mogganum svargrein við rugli þessa Gísla? Mér þykir ærin ástæða til.
Þú ert allt of æstur. Bara anda djúpt og rækilega öllu ferska loftinu. Og telja svo upp að tíu. Þetta er ótrúlega fyndin grein. Þú verður bara að hafa húmor fyrir henni. Fjölmargir frábærir punktar. Þú verður að sjá fegurðina í þessu.
Svo þarftu nú ekkert að dissa greyið Gísla fyrir að skoða ekki Sofia eða bláu moskuna eða finnast þetta fúlt. Hann er einmitt sammála þér og segir “það er auðvitað virkilega skemmtilegt að sjá þetta”.
Ég skil samt ekkert í þér að minnast ekki á mestu vonbrigðin hjá Gísla. Tvöfaldur gin í tónik kostar 2000 kall. Það er rán!
Í Mogganum þennan í gær er grein sem höfðar betur til þín (á bls. 31) Þar fjallar Sigríður Víðis Jónsdóttir sem er hrikalega góður penni og skrifar oft góðar greinar á mörkum mannfræðirannsókna og ferðalaga. Þær ættu að höfða betur til þín (sumar af gömlu greinunum hennar, eða bútar úr þeim amk, eru á blogginu hennar http://siggavidis.blogspot.com/)
Er Mogginn ekki bara að standa sig vel. Bæði með grein um hefðbundna pakkaferð sem þú ert alveg hrikalega fúll yfir að fólk fari í. Er ekki bara fínt að fólk geri það sem því langar til – ef það langar í pakkafarð – bara bravó. Það höfðar örugglega til stórs hóps lesenda.
Svo eru iðulegar sniðugar greinar um exótískari ferðalög og staðir a la Sigga Víðis. Það ætti að höfða til þín.
Mogginn – bæði pakkar og bakpokar 🙂
Svona menn eiga ekkert að vera að fara til útlanda nema til að sækja sól og stærri golfvelli. Heimildarmyndir um menningu annarra þjóða eru gerðar fyrir svona fólk. Hann Gísli myndi án efa læra meira um Tyrki af einni slíkri.
Ég tek undir lokaorð Kristjáns hér að ofan. Svona saga á lítið erindi í ferðasögudálk í sæmilega virtu dagblaði. Það væri frekar að umræddur Gísli skoðaði þá hugmynd að byrja að blogga.
Sko, björgvin. Ég er ekki að segja að fólk megi ekki fara í pakkaferð og ég er ekki að gagnrýna hann einungis fyrir það.
Það, sem fer hins vegar í taugarnar er þetta attitúd gagnvart Tyrkjunum að þeir geri sér ekki grein fyrir að maðurinn sé í skemmtiferð. Honum finnst virkilega einsog þeir eigi bara að haga sér einsog honum henti og hann er greinilega fullur af fordómum, sem hann byggir eflaust á einhverju úr sjónvarpi frekar en af tali við Tyrkja. Efast t.d. um að einhver Tyrki hafi kallað hann “villutrúarmann”.
Og ég veit að hann fór í Ayasofia og allt það, en það var samt greinilega ekki nóg til að gera borgina spennó.
Og auðvitað er þetta mjög fyndin grein. En hún er líka grátleg því að gaurinn er alls ekki að grínast. Hann heldur að það sé verið að bögga hann vegna þess að hann sé Kristinn og svo framvegis.
Annars segir Kristján að ég sé yndislegur bloggari þegar ég sé reiður, en Björgvin segir mér að róa mig niður. Hvern á ég að hlusta á. :confused:
Og einsog Arndís og Kristján, þá skil ég hreinlega ekki hvaða erindi þetta á í ferðasögur í Mogganum.
Ég er sammála þér, það er leiðinda attitúd í þessum Gísla. Greinin er illaþefjandi af fordómum.
Ekki róa þig áður en þú bloggar, róaðu þig með því að blogga.. það er miklu skemmtilegra fyrir lesandann 🙂
Jónas Kristjánsson er jafnvel enn sorglegri í viðtali í Blaðinu á laugardaginn. Segist hafa ferðast til Feneyja, Indlands, S-Afríku, Marokkó og Japans – en sannar samt ennþá á hverjum degi að hann er heimóttalegri en nokkur Gísli.
Hvaða diss er þetta á golfvelli?
Gísli hefði nú geta tekið hring og kynnst þannig innfæddum -nú eða 3 öðrum Gíslum eða gíslum?
Össs!
Vá, þessa sögu þarf ég að segja vinum mínum í “Íslendingafélaginu” sem ég er að fara að hitta á eftir.
Formaður félagsins er einmitt Tyrki frá Istanbúl. Allir Tyrkir eru velkomnir í Íslendingafélagið og Íslendingar geta gengið í Tyrkneska félagið. Það var einfaldara heldur en að tala alltaf um “The Non-EU European Society” sem var starfandi á tímabili.
Annars fannst mér einmitt Istanbúl með ólíkindum “evrópsk” þegar ég kom þangað.
Og varðandi trúarofsa “Istanbúllara” þá eru þeir alræmdir (og jafnvel litið niður á þá af öðrum) fyrir trúleysi og “secularisma” á borð við drykkju og óvígt kynlíf.
Ég tek undir með Bjögga, þetta er frábær grein. Gísli er greinilega maður sem veit hvað hann vill og fer sjálfsagt næst til Lanzarote.
Iceland Express auglýsir tóma tjöru, það geta ekkert allir orðið heimsborgarar.