Laugardagksvöld fyrir jól

michigan-lights.jpg
Hvað gerir ungur piparsveinn á laugardagskvöldi?

Jú, í mínu tilfelli þá hef ég eytt síðustu 5 klukkutímunum inní eldhúsi á Serrano, skerandi kjúkling og búandi til sósur. Það var hressandi

Einhvern veginn varð þetta síðasta laugardagksvöld fyrir jól ekki alveg einsog ég hafði gert mér vonir um. Það var svo sem blanda af nokkrum atburðum. Dagurinn í dag var sá stærsti í sögu Serrano. Við höfum aldrei selt jafnmikið og bættum fyrra met, sem sett var 22.desember í fyrra, um rúmlega 10%.

Um klukkan 6 fékk ég skilaboð um að stelpan í eldshúsinu hefði skorið sig illa og þá vissi ég að ég myndi ekki gera merkilega hluti í kvöld og dreif mig því uppá veitingastað og kláraði vaktina hennar. Ég veit ekki hvað það er, en ég hef alltaf lúmskt gaman af því að vera uppá stað þegar svona brjálað er að gera. Ég fyllist einhverri orku við það allt saman.


Annars hef ég fengið fullt af fólki í heimsókn í dag til að sækja dót, sem það hafði boðið í á uppboðinu. Held að ég hafi fengið um 15 manns í heimsókn, sem er nokkuð góður árangur.

Í dag birtist svo viðtal við mig í Mogganum. Þá eru búin að birtast við mig viðtöl bæði í DV og í Mogganum útaf þessu uppboði, auk viðtalsins sem ég fór í á NFS síðasta miðvikudag. Það er nokkuð magnað.


Ég þarf að fara að koma mér inní eitthvað jólastressskap til að ég klári hlutina. Núna þarf ég að senda hluta af gjöfunum mínum til útlanda, þar sem að báðar systur mínar dvelja erlendis og því get ég ekki haldið uppi gamla siðnum mínum að versla allt á Þorláksmessu. Nei, núna þarf ég að hugsa viku fram í tímann, sem ég er nánast ófær um að gera þegar kemur að jóla undirbúning.

Þarf að fara að koma mér í hátíðarskap. Samt veit ég að það gerist í raun aldrei nema fyrr en á Aðfangadag uppí kirkjugarði. Þá fyrst finnst mér jólin vera komin. Ég held að ég hafi ekki almennilega fundið fyrir sérstakri jólastemningu fyrir jól síðustu ár. Síðasta skipti, sem ég man eftir mér í jólaskapi löngu fyrir jól, var þegar ég bjó í Chicago og fór á Michigan Avenue í jólagjafaleiðangur.

Kannski er þetta vegna þess að það hefur einhvern veginn æxlast þannig að ég hef alltaf verið á lausu yfir jólin þessu þrjú ár, sem ég hef núna búið á Íslandi. Einhvern veginn tengi ég jólasteminguna því að labba einhvers staðar úti með stelpu í leit að jólagjöfum.

Því get ég varla komist í jólaskap einsog jólagjafaleiðangrar mínir eru í dag. Því þeir felast í að hlaupa einn á milli búða, nánast búinn að ákveða allar gjafir fyrirfram. Innkaupin eru einsog skylda, í stað þess að vera skemmtun.

Þó hef ég komist að einu undanfarin ár, sem ég man ekki alveg hvenær breyttist hjá mér. Í dag finnst mér nefnilega miklu skemmtilegra að sjá viðbrögð annarra við mínum gjöfum, heldur en að opna mínar eigin gjafir. Þess vegna finnst mér það dálítið fúlt að ég skuli þurfa að senda gjafir til útlanda í stað þess að sjá viðbrögð frændsistkyna minna á aðfangadagskvöld.

2 thoughts on “Laugardagksvöld fyrir jól”

  1. Þú vilt ekki bara bjóða sjálfan þig upp og sú heppna gæti farið með þér í jólagjafaleiðangur og komið þér í jólaskapið :biggrin:

    Allavegana vona að þú komist í stuðið og frábært framtak hjá þér með uppboðið!

  2. Sammála því að það er miklu skemmtilegra á sjá viðbrögð annarra við jólagjöfunum. Það er að segja, svo lengi sem gjafirnar eru óvæntar – bömmer þegar allir vita hvað þeir fá…

Comments are closed.