Móðgum múslima!

[Þetta](http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060130/SKODANIR0201/60130076/1080) hlýtur að vera asnalegasti pistill, sem Egill Helgason hefur skrifað á Vísi.is: [Birtum fleiri skopmyndir](http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060130/SKODANIR0201/60130076/1080). Egill fjallar þarna um viðbrögð múslima við því að danskt blað hafi birt skopmynd af Múhameð spámanni.

Egill, sem hefur verið iðinn við að verja kristna íhaldsmenn, en bölvast útí múslimska íhaldsmenn að undanförnu, er ósáttur við viðbrögð múslima við skopmyndinni. Viðbrögðin eru að mörgu leyti öfgakennd, en þó að einhverju leyti skiljanleg, þar sem það þykir ekki til siðs í íslam að reyna að búa til myndir af Múhameð spámanni. Því er skiljanlegt að múslimar móðgist þegar að skopmynd birtist af honum. Ólíkt kristnum mönnum, sem birta kristmyndir útum allt, þá er það bannað í íslam að birta myndir af Múhameð.

Skopteikningar af Múhameð eru því asnalegar og sanna ekki neitt. Þær virðast vera birtar einungis til að móðga múslima og særa. Okkur kann að finnast það bjánalegt að þeir móðgist við slíkt, en svona er það samt. Því er tillaga Egils í lok pistilsins afskaplega skrýtin:

>Það má alls ekki beygja sig fyrir þessu, heldur er eina andsvarið að birta fleiri svona myndir – ofbeldismönnunum mun vaxa í augum að þurfa að ofsækja þúsundir blaðamanna, ritstjóra og netverja. Þið gætuð til dæmis kópíerað myndirnar sem birtist með þessari grein og sett þær sem víðast.

Þarna er Egill væntanlega að gefa í skyn að ofbeldismenn séu þeir einu, sem móðgist við slíkar myndbirtingar. Það er náttúrulega tóm tjara. Fullt af góðu fólki móðgast um leið þegar að trú þeirra er vanvirt. Það kann að vera að okkur finnist þessi trú skrýtin, en það gefur okkur samt ekki leyfi til að gera lítið úr henni. Og það að virtur fjölmiðlamaður leggi til að við reynum að gera sem mest í að móðga múslima er afskaplega kjánalegt.

8 thoughts on “Móðgum múslima!”

  1. >Það kann að vera að okkur finnist þessi trú skrýtin, en það gefur okkur samt ekki leyfi til að gera lítið úr henni.

    Af hverju ekki?

    Hvað ef fjöldi fólks er farinn að ota þessari trú að okkur og börnunum okkar? Hvað ef fjöldi fólks réttlætir voðaverk með þessari trú?

    Má þá ekki gera lítið úr henni?

    Af hverju gildir eitthvað annað um trúarskoðanir en t.d. skoðanir á stjórnmálum? Myndir þú einhverntíman segja þetta sama um t.d. landbúnaðarstefnu Framsóknarflokksins (“Það kann að vera að okkur finnist þessi stefna skrýtin, en það gefur okkur samt ekki leyfi til að gera lítið úr henni.” )?

  2. Ég verð eiginlega að taka undir með Matta hérna. Það er fyllilega réttur hvers manns að gera lítið úr, já og jafnvel gera grín að, skoðun einhvers annars – hvort sem um er að ræða Múhameð eða Framsóknarflokkinn.

    Hins vegar hafa múslimar alveg jafn mikinn rétt á að móðgast og kjósa að gagnrýna blaðið eða sniðganga það. Það er þeirra réttur, þeirra skoðun.

    Hins vegar finnst mér Egill Helgason kasta steinum úr glerhúsi með þessum pistli, því ef við megum gera lítið úr skoðunum múslima eigum við að fá að gera lítið úr skoðunum kristinna líka. Það virkar frekar tvískinnungslegt hjá honum að verja kristna kirkju í hvarvetna – ekkert illt virðist mega segja um hana – en svo snýr hann um hæl og hvetur fólk til að gera grín að Múhameð.

    Jafnt skal ganga yfir alla. Annað hvort megum við gagnrýna og gera lítið úr öllum, eða engum.

  3. Ég var sjálfur að linka á þessar myndir um daginn, án þess þó að það væri liður í herferð eins og sú sem Egill leggur til. Heldur meira til að benda á e-ð athyglisvert, eins og maður gerir stundum. (http://acl.gudmus.klaki.net/dagbok/entry/1138551009.html)

    Hins vegar birti ég myndirnar ekki sjálfur, heldur vísaði á þær. Er ég þá samt að gera lítið úr þeim? Eigum við líka að gæta þess hvað við vísum á netinu?

  4. Hjartanlega sammála þér Einar.
    😡
    Við höfum ekki siðferðislegan rétt á að gera lítið úr lífsviðhorfum annarra, hvort sem það er trúarbrögð, stjórnmálaskoðanir eða bara kvikmyndasmekkur.
    Við erum öll manneskjur sem þurfum að búa saman í þessum síminnkandi heimi og okkur ber að taka tillit til hvors annars.

    Flestir eldri en 12 ára vita að það er ekki góðir mannasiðir að segja: mamma þín er feit hóra, eða: aðeins hálfvitum finnst gaman af StarWars.

    Því miður fara færri eftir því en það þýðir ekki að það sé orðið réttlætanlegt að móðga fólk og traðka á tilfinningum þeirra og skoðunum. Við verðum að halda í góðu gildin ekki bara sleppa okkur lausum í villimennskunni ! 😡

  5. Ókei, að birta myndir af, eða hvað þá ímynda sér að teikna myndir af Múhameð er trúarleg synd.

    Gott og vel, ber virðingu fyrir hvaða reglum þeir hafa sett sér og vilja fylgja.

    En! Þeir sömu múslimar og eru hvað reiðastir yfir Jyllandspóstinum eru að endurbirta þessar nákvæmlega sömu myndir og senda þær út í fjölfölduðum dreifiritum, og eru þá væntanlega að fremja sömu synd? Eða hvað?

    http://bibelen.blogspot.com/2006/01/drawings-of-mohammed.html

    Samkvæmt þessum óáreiðanlegu heimildum eru “þeir” víst að dreifa mun fleiri myndum en birtust í Jyllandspóstinum tilað byrja með, og viðbótarmyndirnar mun svæsnari.

    Aftur: ég vil bera virðingu fyrir annarra manna skoðunum, þangað til þær ganga nærri mínu lífi. Myndbirtingar af Múhameð spámanni hafa hingað til ekki verið ofarlega á forgangslistanum í mínu lífi, eftir því sem ég best veit náði það konsept aldrei inná listann, enda hálf tilgangslaust finnst mér.

    Þó svo að “okkur” leyfist það stundum, þá get ég ímyndað mér að kristnir meirihlutar í löndum nær og fjær myndu hoppa hæð sína af bræði ef múslimar teiknuðu skopmyndir af Jesúsi. A.m.k. myndu bloggarar tala um fáfræði og hryðjuverk og allt þar á milli.

  6. Íslendingar geta líka brugðist (of)harkalega við þegar einhver er að gera grín að trúarbrögðum. Var spaugstofan ekki kærð fyrir guðlast þegar þeir gerðu grín a jesú í einhverjum páskaþætti? Mér finnst viðbrögðin hjá þessum heittrúuðu múslimum vera öfgakennd, en mér finnst virðingaleysið gagnvart trú múslima líka vera af skornum skammti í vestrænum samfélögum. Umburðarlyndi og tillitsemi er hegðun sem allir ættu að tileinka sér og lifa eftir. pís

  7. Það er alveg ferlegt að skrifa grein um heitt málefni, fá góðar umræður um málið í kommentum og meira að segja email um sama málefni. En hafa hins vegar strax eftir skrif greinarinnar tapað áhuga á málefninu.

    Ég er búinn að vera svo upptekinn af öðru í mínu lífi að ég hef algjörlega misst áhuga á þessu máli. Þetta er ástæðan fyrir því að ég er ekki í stjórnmálum!

Comments are closed.