*Þessi grein birtist einnig á [pólitík.is](http://www.politik.is//?id=1550)*
Í tíma um sögu Sovétríkjanna, sem ég sótti við Northwestern háskóla í Bandaríkjunum, sagði prófessorinn okkur litla sögu. Við lok valdatíma Stalíns í Sovétríkjunum heimsótti hann fjölskyldu þar í landi. Einsog von var á í Rússlandi fékk hann höfðinglegar móttökur. Hluti af þeim var að gestgjafinn sýndi honum fjölda mynda af fólki. Fólki á öllum aldri, við leik og störf. Þegar myndasýningunni lauk sagði gestgjafinn einfaldlega: “Allir á myndunum eru dánir”, annaðhvort dó fólkið í stríðum, úr hungri, eða voru myrt á annan hátt af stjórnvöldum. Fólkið á myndunum var ekki lengur til.
* * *
Ég verð að viðurkenna það núna að ég hef verið hálf sofandi undanfarin ár. Meðan ég bjó í Bandaríkjunum þá fylgdist ég reglulega með íslenskum fréttum og ekki hefur fréttaþorsti minn minnkað eftir að ég flutti heim. Ég horfi á fréttir á hverjum degi, hlusta sennilega á 3-4 útvarpsfréttatíma á dag og les tvö íslensk blöð. Samt, þrátt fyrir þetta allt, gat ég aldrei gert mér upp mikinn áhuga á álvers-málum okkar Íslendinga. Kannski voru fréttirnar bara of margar og kannski byrjaði heilinn í mér ósjálfrátt að blokka þær út.
Við lestur á Draumalandinu eftir Andra Snæ Magnason rifjuðust upp fyrir mér ósköpin öll af fyrirtækja- og staðanöfnum og ég áttaði mig á að ég var búinn að gleyma fyrir hvað þau stóðu. Norsk Hydro, Rio Tinto, Þjórsárver, Norðlingaölduveita, Impregilo og svo framvegis og framvegis. Ég var búinn að heyra þessi nöfn milljón sinnum, en hafði enga sérstaka skoðun á þeim. Ég var orðinn svo ruglaður að ég vissi ekki einu sinni hver staðan var. Var búið að sökkva Þjórsárverum, eða var framkvæmdin stöðvuð? Á að virkja þessa á, eða er bara búið að tala um það? Virkjanaæðið og fréttirnar af því höfðu gert það að verkum að ég var orðinn ruglaður, hafði ekki hugmynd um hver staða mála væri. Vissi bara að menn vildu virkja.
Ég var ekkert voðalega reiður yfir Kárahnjúkum þegar ég heyrði fyrst um þá virkjun. Sá að það voru aðallega Vinstri-Grænir, sem mótmæltu. En þar sem ég er alls ekki alltaf sammála þeim, þá fóru mótmælin að mestu framhjá mér. Ég hlustaði líka á einhverja sérfræðinga segja að þetta væri svo gott fyrir hagkerfið, en nennti ekkert að hugsa útí það frekar. Ég hafði einfaldlega nóg annað til að hafa áhyggjur af, hafði meiri áhyggjur af stelpum en álverum. Þess vegna fór þetta framhjá mér. Ég var partur af stóra meirihlutanum á Íslandi, sem mótmælti ekki. Ekki endilega af því að ég var svo fylgjandi álverunum, heldur var mér eiginlega nokk sama. Apathy er sennilega rétt orð, en vitlaust tungumál.
* * *
Við lestur á Draumalandinu leið mér á tíðum hálf einkennilega. Á einhverjum tímapunkti breyttist hún í spennusögu um framkvæmdir og virkjanir. Andri Snær gerði mig svo bjartsýnan á framtak landsmanna að ég sannfærðist fljótlega við lesturinn um að ég væri á móti frekari virkjunum. En ég var búinn að gleyma hvort það væri búið að sökkva Þjórsárverum. Var ég of seinn? Kannski væri þetta einsog í heimboðinu, að ég myndi lesa alla þessa góðu hluti um íslenska náttúru og svo fá þær fréttir að það væru allir dánir, að það væri búið að eyðileggja landið. En sem betur fer, þá las ég að framkvæmdunum var frestað og ég á því ennþá sjens á að gera eitthvað.
* * *
Bók Andra Snæs mun sennilega ekki breyta skoðunum þeirra, sem hafa sterkustu skoðanirnar í virkjanamálum. Valgerður Sverrisdóttir mun ekki sjá að sér og bókin gerir eflaust ekki mikið í að styrkja skoðanir þeirra, sem mótmæltu virkjunum mest. Þetta fólk hefur of sterka sannfæringu fyrir þessu máli.
Það, sem bókin getur gert og hefur gert í mínu tilfelli, er að vekja okkur hin. Okkur, sem höfum látið þetta yfir okkur ganga og samþykkt þetta með þögninni. Hún dregur saman staðreyndirnar í málinu og fær okkur til að hugsa. Er þetta landið, sem við viljum byggja? Þurfum við á þessu að halda? Erum við ekki fátækari en áður, þrátt fyrir að hagvöxtur hafi aukist?
Ég segi allavegana að nú er mál að linni. Samfylkingin hefur ýtt undir álverin með því að taka ekki afdráttarlausa afstöðu gegn þeim, heldur hefur hún verið of hrædd við að styggja kjósendur. Næstu Alþingiskosningar hljóta að snúast að miklu leyti um áframhald álversstefnu íhalds- og framsóknarmanna. Með hverjum ætlum við þá að standa? Það hlýtur að vera takmark okkar jafnaðarmanna að fella núverandi ríkisstjórn og binda endi á þetta álæði. Þótt fyrr hefði verið.
Heyr! Heyr!
Þetta er aftur ámóti ánægulegt að lesa 😉
Þessi bók breytti a.m.k. sýn minni á þessi mál töluvert. Við erum ekki þeir einu miðað við þau viðbrögð sem ég hef fengið í mínum vina og kunningjahóp.
Strumpakveðjur 🙂
Það gleður mig að eitthvað skuli hafa vakið fólk, jafn mikið og það hryggir mig hversu langt er um liðið. Ég eyddi mikilli orku á sínum tíma í að rökræða þetta virkjanaæði (einkum Kárahnjúka), en gafst upp vegna áhugaleysis fólks á málefninu. Fannst ég vera að öskra á bólakafi í vatni. Áhugamenn um Kárahnjúkavirkjun voru stimplaðir sem öfgafullir náttúruverndarsinnar, jafnvel þó rökin gegn virkjuninni féllu bara að hluta til að náttúruvernd. Efnahagsleg og stjórnmálaleg rök hníga einnig, og jafnvel mun sterkar, gegn virkjuninni. Þau heyrir hinsvegar enginn.
Flestir muldruðu bara eitthvað í þá áttina að þeir væru ekki búnir að kynna sér þetta, en enginn nennti svo að kynna sér það, nema vinstri grænir rebellar og útlenskir atvinnumótmælendur. Fróðasta fólkið um þetta alltsaman (tvímælalaust mun fróðara en þeir sem öllu ráða til dæmis, ráðherrar okkar og ríkisstjórn) eru mótmælendurnir sem tjalda á fjöllum og hlekkja sig við vinnuvélar.
Sæll,
datt inn á síðuna þína af liverpool-blogginu. Hef reyndar ekki lesið þessa umræddu bók þannig að ég get ekki tjáð mig um hana.
En… að sama skapi og þú segir í pistlinum hér að neðan að allir hægri menn séu ekki valdir að dauða þessara íraka þá eru allir framsóknar- og íhaldsmenn ekki stuðningsmenn álvera. Það er aldrei gott þegar ríkið þarf að skaffa fólki atvinnu, núna er bæjarstjóri Akureyringa búinn að segja að röðin sé kominn að þeim! Það er eins og öll sjálfbjargarviðleitni hverfi þegar ríkið fer af stað.
Hins vegar viljum við halda byggð í landinu en spurningin er hvað eigi að gera. Er Andri Snær með einhverjar lausnir í þessari bók sinni?
Annað… það er sagt að náttúrufegurð aukist með fjarlægð frá Reykjavík. Það er ekki í lagi að sökkva Kárahnjúkum en aftur á móti má taka heilu fjöllin á Hellisheiði og leggja raflínur og pípur um allt. Og hvernig lítur Ingólfsfjall út núna?
>Er Andri Snær með einhverjar lausnir í þessari bók sinni?
Já, lestu bókina.
>þá eru allir framsóknar- og íhaldsmenn ekki stuðningsmenn álvera.
Nei, ég geri mér grein fyrir því. Og vonandi að þeim fækki. En þetta er samt stefna flokkanna og litlar líkur á að hún sé að breytast.
>Og hvernig lítur Ingólfsfjall út núna?
Hræðilega! Með því að fókusa gagnrýnina á álverin, þá erum við ekki að gefa grænt ljós á náttúruspjöll annars staðar á landinu.
Það er alveg ónauðsynlegt að byggja þessar virkjanir:
http://www.cheniere.org/foreward.htm
http://www.cheniere.org/books/efv/toc.htm
http://www.cheniere.org
http://www.megaupload.com/?d=6Q36HI39
http://www.opensourceenergy.com/_layouts/apps/dp/index.asp
http://www.opensourceenergy.org
http://www.free-energy.cc
http://www.infinite-energy.com
Hef ekki enn komist í þessa bók, en er verulega spenntur fyrir henni. Hún er á leiðinni með næstu heimsókn.
En mætti ég mæla með Confessions of an economic hit man fyrir herrann? Álíka uppvekjandi bók, mundi ég halda, nema þar er komið inn á bandarísk stórfyrirtæki og þróunarlöndin.
Áhugaverð lesning, fékk mig allavega til að pæla.
Góður pistill, gjörsamlega sammála þessu. Ég var hvorki með né sérstaklega á móti þessu virkjannabrölti. Taldi að það væri nú í í lagi að henda niður eini virkjun og einu álveri þarna fyrir austan, það væri hvort sem er nóg af virkjanlegu vatnsafli (líklega uppfullur af röngum upplýsingum eftir vísindaferð í landsvirkun fyrir einhverjum árum :).
En svo virðist sem að eitthvert álæði hafi gripið um sig í ríkistjórninni og þeir virðast ekki ætla að hætta fyrr en allt er komið á kaf.
Þessi bók setur þessa hlutina svo sannarlega í rétt samhengi og er erfitt að sjá að nokkur heilvita maður geti verið hlyntur þungaiðnaðarstefnu ríkistjórnarinnar eftir þessa lesningu. Nú er bara spurning hvað við við sem vorum að vakna af vondum virkjannadraumi getum núna gert til að snúa þessari þróun við?