Nýtt líf, dagur 1

Í gær hætti ég í vinnunni. Ég sagði upp í desember, en vegna ýmissa mála ákvað ég að vinna svona lengi. Í gær pakkaði ég loksins saman dótinu á skrifborðinu mínu og labbaði út eftir rúm 3 ár í fullu starfi og fjöldamörg ár í hlutastarfi. Þetta var verulega skrýtin tilfinning.

Í dag byrjaði því nýr kafli í mínu lífi og það var skemmtileg tilviljun að það skyldi gerast á besta degi sumarsins. Í fyrsta sinn í langan tíma finnst mér einsog ég viti hvað ég vil og hvert mig langar. Núna get ég því byrjað að taka þau skref, sem eiga að koma mér á þann stað. Það mun taka einhvern tíma, en núna finnst mér ég ekki lengur vera fastur og get horft jákvætt á framhaldið.

Ef að hlutir í mínu einkalífi væru ekki svona skrýtnir og asnalegir, þá gæti ég sagt að ég væri verulega hamingjusamur – en ég á ennþá eftir að ná því saman að vera hamingjusamur í vinnu og einkalífi á sama tíma. Vonandi gerist það einhvern tíma á næstunni. En það breytir ekki öllu, því mér líður vel með þessa byrjun.

Ég ætla að nýta næstu vikur í að klára ýmis mál, sem hafa setið á hakanum síðustu vikur og mánuði og svo fer ég út í frí.


En mikið var dagurinn í dag æðislegur. Ég æfði útí í ræktinni, lá svo í sólbaði á svölunum og las pappíra sem höfðu legið inná skrifstofu lengi. Ég fór svo og hitti vin minn niðrá Austurvelli þar sem við fengum okkur mat og bjór í hreint stórkostlegu veðri. Það er ekki annað hægt en að vera hamingjusamur á svona góðviðriðsdögum þegar að milljón manns eru í miðbænum, stelpurnar léttklæddar og sætar og allir í góðu skapi. Reykjavík verður 100 sinnum meira heillandi borg fyrir vikið.

Helgin var líka algjört æði, eða réttara sagt laugardagur og sunnudagur. Ég var með vinum mínum að steggja æskuvin minn, sem var æði. Eftir paintball og eitthvað fleira í bænum fórum við svo á Grundarfjörð þar sem við vorum með sumarbústað, en í bænum var hátíð sem ég var líka á í fyrra. Við duttum í það í bústaðinum og fórum svo á eitthvað bryggjuball þar sem félagsmálaráðherra var að syngja fyrir öfurölva fólk á öllum aldri. Enduðum svo á einum barnum þar sem einhver hljómsveit var að spila. Þar var fín stemning með tilheyrandi slagsmálum og látum.

Helgin kláraðist svo á Sigur Rósar tónleikunum á Klambratúni. Þeir voru auðvitað frábærir. Sigur Rós er algjörlega ótrúleg hljómsveit og eftir tónleikana er ég enn vissari í trú minni um að það sé ekki hægt að ljúka tónleikum á flottara lagi en Popplaginu. Ég hef hlustað á það nokkrum sinnum á tónleikum en þessi útgáfa hlýtur að teljast vera sú al magnaðasta.

Ótrúleg hljómsveit!

5 thoughts on “Nýtt líf, dagur 1”

  1. Gangi þér alveg rosalega vel með nýja lífið þitt, þetta lítur allaveganna vel út hjá þér

  2. Þurfti bara aðeins að tjá mig smávegis, Sigur Rós voru stöðvaðir af lögreglu við Kárahnúka í dag þar sem þeir teljast jafn hættulegir og Falun Gong. Skyldi það fá umfjöllun í leiðara Morgunblaðsins eins og tónleikarnir á Klambratúni?

Comments are closed.