Suð-Austur Asíuferð 3: Mótorhjól og valdarán

Hvurslags eiginlega er þetta?

Akkúrat sama dag og ég fer frá Bangkok, þá fremur tælenski herinn [valdarán](http://news.bbc.co.uk/2/hi/asia-pacific/5362698.stm)!!! Ég er orðinn nokkuð vanur þessu mynstri. Tveim dögum eftir að ég fór frá El Salvador í fyrra byrjaði eldfjall að gjósa þar, aurskriður skóku Gvatemala eftir brottför mína og þegar ég flaug frá Cancun var byrjuð rigning, sem var upphafið af fellibylnum, sem eyðilagði Cancun.

En valdarán! Vá! Ég hélt að svoleiðis gerðist bara í gamla daga. Það var reyndar augljóst öllum að Thaksim var verulega óvinsæll í Tælandi og að kóngurinn var manna vinsælastur. Kóngurinn er að fagna 60 ára valdaafmæli þessa dagana og því gekk annarhvor borgarbúi um í gulum bol, sem átti að sýna stuðning við hann. Í fréttum hefur verið talað um að kóngurinn sé ekkert sérstaklega mikið á móti þessu valdaráni, en hann á ennþá eftir að tjá sig um málið.

En þetta er allt saman mjög magnað.

Og mamma, ég er semsagt heill á húfi í öðru landi.

Ég kom semsagt til Kambódíu (*by the way, mér finnst Kampútsea vera fallegra nafn en Kambódía! – skil ekki alveg lógíkina á bakvið að breyta þessum hluta nafnsins þegar að Alþýðulýðveldis-titillinn var fjarlægður*) í gær. Fór snemma um morguninn með rútu frá Bangkok til landamærabæjarins Aryana Prathet. Þar rölti ég yfir landamærin og hitti strax par frá Quebec, sem ég deildi svo með 4 klukkutíma taxa frá landamærunum til borgarinnar Siem Reap (nafnið þýðir “Siam sigrað!” – skemmtilegt nafn fyrir borg svo nálægt landamærunum við Tæland), þar sem ég er núna.

Breytingin frá Tælandi yfir í Kambódíu var nokkuð mögnuð. Ekki ósvipuð því að færa sig frá Suður-Ameríkulandi til Mið-Ameríkulands. Um leið og við fórum yfir landamærin hríðversnuðu göturnar, skíturinn jókst og fátæktin var augljóslega meiri. Hérna í Kambódíu eru um 95% íbúanna Khmerar, sem eru dekkri á hörund en íbúar nágrannaríkjanna. Þeir tala tungumálið Khmer, sem mér sýnist allavegana svona fyrir heimskan túrista einsog mig, virka aðeins auðveldara en tælenska (ég get allavegana sagt “takk” á khmer-máli).

Fáar þjóðir hafa verið jafn einstaklega óheppnar með leiðtoga einsog Kambódíu…(*hvað segir maður eiginlega? Maður gat notað Kampútsear, en hvað notar maður um fólk frá Kambódíu? Kambódar? Kambódíumenn?*). Svona af fyrstu dögunum að marka er þetta einstaklega gott fólk. Hérna tala talsvert fleiri ensku en á Tælandi (sem kom mér talsvert á óvart) og fólk tekur vel á móti gestum. Ég er allavegana heillaður eftir þessa tvo fyrstu daga.

Síðasti dagurinn minn á Tælandi var frábær. Ég hitti Friðrik og Thelmu, sem eru í brúðkaupsferðinni sinni, og eyddum við deginum saman. Við byrjuðum á því að skoða Wat Arum hofið og löbbuðum svo aðeins um það hverfi. Síðan fórum við uppá Khao San, þar sem við eyddum kvöldinu saman á veitingastað. Ljómandi fínt alveg hreint.

Ef að rassinn á mér gæti talað þá myndi hann eflaust þakka mér (með kaldhæðnislegum tón) fyrir mótorhjólaferðina, sem ég fór með honum í dag.

Ég er semsagt í Siem Reap til að skoða [Angkor fornleifarnar](http://www.hillmanwonders.com/angkor_wat/angkor_wat.htm#_vtop), sem eru með merkustu fornleifum í heimi. Ég ætla að taka mér 3 daga í það að skoða þær. Lonely Planet mælir með heilli viku en þeir, sem skrifa þær bækur, eru hálf tregir og taka sér alltaf alltof mikinn tíma á söfnum og við fornleifar.

Til að sjá ekki allt þetta flottasta og stærsta fyrst, ákvað ég að leigja mér mótorhjól með dræver og keyra að fjarlægustu rústunum, Kbal Spean, Banteay Srei og [Beng Mealea](http://www.cambodianonline.net/angkorwat530.htm). Við byrjuðum á því að hossast á lítilli vespu í ausandi rigningu og drullu í sirka 90 mínútur og komum þá að Banteay Srei. Ekki var ég fyrr búinn að moka mestu moldina framan úr andlitinu á mér þegar að uppað mér keyrði loftæld rúta full af japönum, sem smeygðu sér á undan mér inní musterið (ég er ekki að skálda þetta!).

Ég lét þetta þó ekki á mig fá og við tóku aðrar 90 mínútur á vespunni, núna á versta vegi sunnan alpafjalla, svo fullum af pollum að við gátum ekki farið á meira en 15 kílómetra hraða. Við stoppuðum stutt hjá Kbal Spean og héldum svo í áttina til Beng Mealea þar sem við vorum komnir (ég og Hong, dræverinn) um 2 leytið. Á þeim tíma höfðum við verið á vespunni meira og minna frá því um 7 um morguninn og ég næstum því hættur að hafa tilfinningu í rassinum.

Hong þóttist vita allt um Beng Mealea musterið og því fylgdi ég honum þangað inn. Ég á varla til orð að lýsa því hversu mikil snilld þetta var. Beng Mealea musterið var byggt í kringum 1150 en er núna nánast algerlega þakið skógi, sem hefur lagt musterið í rúst. Því er þetta samansafn af heilum hlutum og hlutum þar sem að rætur trjáa hafa algerlega splundrað byggingunum og því liggja risa steinar sem hráviði útum allt. Þetta (og fjarlægðin frá Siem Reap) gerir það að verkum að nánast engir túristar koma þangað. Við Hong vorum til að mynda einir nánast allan tímann.

Á tímum leið mér einsog ég væri í Indiana Jones mynd að kanna áður óþekkt musteri. Við þurftum að passa okkur verulega vel að detta ekki á sleipum steinunum þegar að við reyndum að feta okkur á milli rústanna og ég fór langleiðina með að snúa á mér ökklann þegar ég reyndi að hoppa hetjulega á milli sumra steinanna. Það er hálf erfitt að lýsa þessu á spennandi hátt, en myndirnar muna sennilega gera þessu betri skil. Ekki minnkaði það spennuna að Hong villtist inní einhverjum göngum (hann viðurkenndi þá að hafa aðeins komið þarna einu sinni) og reyndi svo að gefa mér hjartaáfall með því að kasta steini í leðurblökur, sem héngu inní einum myrku göngunum. Vá hvað þetta var gaman.

Við enduðum svo í stuttri heimsókn hjá fjölskyldu Hong, þar sem við átum skrýtinn ávöxt og ég gerði í því að hræða yngsta barnið á heimilinu (aðallega með því (að ég held) að vera hvítur, ljóshærður og ókunnugur). Fjölskyldan hans býr einsog flestar fjölskyldur virðast búa hérna í nágrenni Siem Reap, í mikilli fátækt. Húsin eru einfaldir kofar, byggðir ofan á staurum til að lenda ekki undir vatni þegar að það flæðir yfir hrísgrjónaakrana. Flestir virðast hafa nóg að borða, en ekki mikið meira en það. Ólíkt fátækrahverfum til að mynda í Mið-Ameríku, þá er ekki einu sinni rafmagn á húsunum. Það er alveg ljóst að þrátt fyrir miklar umbætur á síðustu árum að Kambódía á enn langt í land með að jafna sig á hörmungunum, sem Rauðu Khmerarnir færðu yfir þetta land.

*Skrifað í Siem Reap, Kambódíu klukkan 21.16*

7 thoughts on “Suð-Austur Asíuferð 3: Mótorhjól og valdarán”

  1. Sé að þú ert að komast inní Asíufílinginn 🙂 ah… *öfund* mig langar mest núna til að stökkva uppí næstu flugvél til Bangkok og heimsækja eitthvað afskekkt fjallaþorp í Laos! :biggrin:

    hahaha… annars finnst mér mest fyndið að Thailendingarnir séu ENNÞÁ í gulu bolunum! Ég var þarna í lok maí / byrjun júní og þá voru hátíðarhöldin að byrja og allir í gulum bolum. Ég vissi ekki að þeir ætluðu að fagna svona lengi!!! :laugh:

  2. Upphafsmálsgreinin minnti mig allsvakalega á lokaatriðið í Unbreakable þegar Samuel L. Jackson sést labba í burtu frá hverju stórslysinu á fætur öðru. Mig er farið að gruna að það verði eitthvað rosalegt tvist í lok þessarar ferðasögu …

  3. Gott að vita að þú ert heill á húfi. Alltaf gaman að fylgjast með ferðasögunum þínum. Bestu kveðjur frá okkur öllum.

  4. Vá hvað þetta hljómar spennandi… endrum og eins dett ég hérna inn til að lesa um öll þau ævintýri sem þú kemur þér í. Og þó að ég þekki þig ekki finnst mér alltaf jafn gaman og spennandi að vita hvað þú tekur uppá næst. Finnst stundum eins og ég fái tækifæri til að ferðast um heiminn með frásögnum þínum, þó að það sé engan vegin í líkingu við að upplifa ævintýrin líkt og þú gerir.
    Hlakka til að heyra meira 🙂

  5. Takk, JBJ – þessi síða er mjög gagnleg!

    Og þið hin, takk fyrir kommentin. Það gefur manni aukinn kraft í að skrifa sögurnar hérna inn þegar maður fær viðbrögð frá þeim, sem eru að lesa. 🙂

Comments are closed.