N.B. – hérna [eru komnar nokkrar myndir úr ferðinni](http://www.flickr.com/photos/einarorn/sets/72157594294825321/)
Jæja, þá er ég búinn að eyða þrem dögum í að skoða Angkor fornleifarnar hérna í nágrenni Siem Reap í Kambódíu.
Angkor er *frekar* mikið mál í hugum Kambódíumanna. Ekki ólíkt og Tikal er fyrir Gvatemalabúa, þá er Angkor uppspretta gríðarlegs stolts. Fátæk þjóð í dag getur bent á mikilfengleika forfeðranna og sagt: “Sjáiði, *við* byggðum þetta”. Rauðu Khmerarnir notuðu Angkor t.a.m. sem dæmi um það hversu langt kambódíska þjóðin kæmist. Angkor er útum allt í Kambódíu. Angkor Wat er á fánanum, mest seldi bjórinn heitir Angkor og annaðhvert hótelnafn inniheldur Angkor.
—
Enda kannski ekki furða því Angkor er ótrúlegt fyrirbæri. Frá árinu 900-1200 var veldi Khmeranna stýrt frá Angkor og á þeim tíma byggðu þeir margar af mögnuðustu byggingum heims. Alls eru á svæðinu um 72 meiriháttar musteri. Eitt slíkt væri nóg til að gera heila þjóð stolta, en ef maður margfaldar það stolt með 72 þá verður auðvelt að skilja mikilvægi Angkor fyrir þessa litlu þjóð.
Umfang Angkor er slíkt að ég stóð sjálfan mig að því að hjóla í rólegheitunum framhjá musterum, sem alls staðar annars staðar í heiminum hefðu verið næg ástæða langrar heimsóknar. Slíkt er umfangið og magnið af stórkostlegum byggingum á svæðinu að það er ekki nokkur leið að gera þeim öllum skil. Alveg einsog maður fær leið á kirkjum í Rússlandi, þá get ég einfaldlega ekki skoðað musteri endalaust.
En þessir þrír dagar hérna hafa verið frábærir. Einsog ég talaði um [áður](https://www.eoe.is/gamalt/2006/09/20/14.16.58/) eyddi ég fyrsta deginum á mótorhjóli um fjarlægustu musterin. Ég var ekki alveg sáttur við að hafa smá tilfinningu í rassinum og ákvað því næst að leigja mér reiðhjól. Til að gera þetta aðeins meria krefjandi ákvað ég (eða hjólaleigan ákvað það reyndar fyrir mig) að leigja lélegasta hjól *í heimi*. Það var eins gíra, 15 ára gamall ryðklumpur. Ég gat ekki beygt stýrið án þess að það gæfi frá sér skerandi ískur. Þó vandist ég þessu nokkuð fljótt enda var ég hjólandi allan daginn og fór sennilega langleiðina með að hjóla einhverja 40 kílómetra (í morgun gat ég varla staðið upp vegna harðsperra í lærum).
Ég byrjaði á [Angkor Thom](http://en.wikipedia.org/wiki/Angkor_Thom) borginni, skoðaði þar [Bayon](http://en.wikipedia.org/wiki/Bayon) musterið og minni musteri í kring. Síðan fikraði ég mig norðar og skoðaði [Preah Kahn](http://en.wikipedia.org/wiki/Preah_Khan) og nágrenni.
Í dag ákvað ég að sjálfspyntingin myndi taka enda og því leigði ég mér túk-túk fyrir daginn. Um 5.30 var ég því mættur til að sjá sólarupprás við stærstu trúarbyggingu í heimi, hið magnaða [Angkor Wat](http://en.wikipedia.org/wiki/Angkor_Wat). Það er býsna erfitt að lýsa mikilfengleika Angkor Wat, en trúið mér – þetta er stórkostleg bygging. Angkor Wat var byggt fyrir Suryavarman II konung og til heiðurs hindúa guðum (en var svo síðar vippað yfir í búddista musteri). Ég eyddi megninu af morgninum inní og við Angkor Wat, klifraði upp turnana, sat og virti fyrir mér útsýnið og reyndi að njóta þess sem best að vera staddur á þessum magnaða stað. Það er einfaldlega ekki hægt að lýsa Angkor Wat. Allavegana er ég ekki nógu góður penni til að gera því góð skil.
—
Eftir þetta fór ég svo yfir í [Ta Prohm](http://en.wikipedia.org/wiki/Ta_Prohm) musterið, sem er einna merkilegast fyrir þær sakir að þar hefur náttúran tekið yfir ótrúlega stóran hluta af musterinu. Risavaxnar (og þá meina ég *risavaxnar* trjárætur hafa þar á sumum stöðum teygt sig yfir stóra hluta af musterinu. Stærðin sést kannski best á [þessari mynd af mér](http://www.flickr.com/photos/einarorn/249656077/) fyrir framan eitt tréið, sem hafði smeygt sér utanum byggingu. (Hin stórkostlega lélega mynd Tomb Raider var að hluta til mynduð inní Ta Prohm).
—
Og það var það. Hérmeð er þá musterahluta þessarar ferðar lokið í bili. Búinn að sjá *Temple of the emerald Buddha* og *Angkor Wat* á innan við viku. Það telst ágætis árangur. Eldsnemma í fyrramálið er planið að fara með báti niður [Tonlé Sap](http://en.wikipedia.org/wiki/Tonle_Sap) niður til höfuðborgarinnar Phnom Penh, þar sem ég ætla að eyða helginni og næstu dögum. Þaðan ætla ég svo að halda á ströndina í [Sihanoukville](http://www.canbypublications.com/sihnoukville/ksbeaches.htm).
(p.s. Já, og bara svo það sé á hreinu: Miðað við vefnotkun mína hérna í Kambódíu undanfarna daga, þá eru eftirfarandi síður bannaðar í Kambódíu:
[Stefán Pálsson](http://kaninka.net/stefan), [Sverrir Jakobss](http://kaninka.net/sverrirj) og [Morgunblaðið](http://www.mbl.is)
Furðuleg blanda.)
*Skrifað í Siem Reap, Kambódíu klukkan 19.47*
Heyrðu, fyrst þú ert að fara til Sihanoukville (eða Snoopyville eins og einn vinur minn kallar þetta alltaf… lol) þá verð ég að mæla með bestasta backpacker gistihúsi sem ég hef komið á lengi: Monkey Republic! :biggrin: Það er rosa góð stemming þarna og fullt af skemmtilegu fólki að hitta… og mjög góður matur líka – hmm amk í fyrra! 🙂 Veit um fólk sem ílengdist í 2 vikur bara útaf því það var svo góð stemming á Monkey!
(og nei… ég fæ ekki prósentur :wink:)
Já… mæli líka með bátsferð með góðum hópi af fólki í einhverjar eyjur þarna í kring… 🙂
Vá glæsileg ferð hjá þér.. og skemtilegt og fróðlegt að lesa… hafðu það gott þarna úti og ég held að ég geti fullirt það að allir þeir sem hitta þig í svona ferð og eiða með þér degi eru mjög hepnir,,, því þú virðist búa yfir miklum fróðleik í kringum það sem þú ert að gera þarna úti…
Kv Kristján R ..
Takk, bæði 🙂
Ég tékka á þessu gistiheimili, Pálína. Verst að það er búið að vera skýjað hérna nánast allan tímann í Kambódíu, þannig að ég er ekki viss um hversu lengi ég tolli í Sihanoukville. Víetnasmak áritunin mín er þó frá 1. október, þannig að ég verð að eyða einhverjum tíma þar í kring.