Suð-Austur Asíuferð 5: Rauðu Khmerarnir

Það er varla hægt að lýsa þeim hörmungum, sem hafa dunið yfir kambódísku þjóðina síðustu 50 árin. Bæði hafa utanaðkomandi og heimatilbúnar ástæður fært ólýsanlegar hörmungar yfir þessa litlu þjóð.

Borgarastríð geisaði í Kambódíu frá árinu 1967 á milli hægrisinnaðrar ríkisstjórnar Lon Nol og Rauðu Khmeranna. Á sama tíma hafði Kambódía flækst inní Víetnamstríðið þar sem Víetnamar höfðu haft aðsetur í Kambódíu. Bandaríkjamenn dældu því ógurlegu magni af sprengjum á þorp í Austur-Kambódíu. Þessar sprengjuárásir og ótrúlegt ofbeldi beggja aðila í borgarastríðinu varð til þess að milljónir manna úr sveitum flúðu til borganna og þá aðallega Phnom Penh.

17.apríl 1975 marseruðu svo Rauðu Khmerarnir inní Phnom Penh, höfuðborg þessa lands. Fólkið fagnaði þeim upphaflega og sá fram á að borgarastríðinu og öllum sprengingunum myndi ljúka. En stuttu seinna þennan sama dag byrjuðu þeir að skipa fólki að fara útúr borginni. Yfirskinið var að Bandaríkjamenn ætluðu að varpa sprengjum á borgina og því þyrfti fólk bara að taka eigur fyrir þrjá daga. Raunveruleg ástæða brottflutningsins var að Rauðu Khmerarnir ætluðu að flytja alla borgarbúa útí sveitir landsins, þar sem gera átti alla jafna. Þegar fólk byrjaði að labba í átt að sveitunum voru eigur þeirra smám saman teknar af þeim þangað til að allir voru jafnir; allir áttu ekki neitt.

Við tóku þrjú ár þar sem öll þjóðin var gerð að þrælum Rauðu Khmeranna. Pol Pot lýstu því yfir að nú hefðust nýjir tímar, árið var 0 og vinnuvikan samanstóð af 10 dögum með einum frídegi (sem var reyndar sjaldan gefinn). Aðeins allra fátækustu landlausu bændurnir voru taldir hreinir og fullkomnir, en allir sem áttu einhverjar eigur voru taldir óæðri verur, sem þurfti annaðhvort að hreinsa eða útrýma. Fólkið var sent aftur í sveitirnar og Phnom Penh, sem taldi 2,5 milljónir íbúa varð á stuttum tíma að eyðiborg þar sem aðeins nokkrir verksmiðju verkamenn og kommúnistastjórnin fengu að búa. Restin af þjóðinni átti að vinna allan daginn á akrinum. Fjölskyldur voru splundraðar og allt var gert til að gera alla eins. Vélar voru litnar hornauga og fólk því látið vinna við eins frumstæðar aðstæður og hægt er að hugsa sér. Fjölskyldur fengu ekki að borða saman, heldur þurftu að fá matarskammta í stórum eldhúsum. Fólk fékk ekki að giftast þeim sem það vildi, heldur var fólki stýrt saman af Rauðu Khmerunum í risavöxnum fjöldabrúðkaupum.

Talið er að allt að fjórðungur kambódísku þjóðarinnar (allt að 3 milljónir manna) hafi dáið í borgarastríðinu og af völdum stjórnar Rauðu Khmeranna. Eftir að hafa þolað stanslausar sprengjuárásir Bandaríkjamanna þurfti þjóðin nú að þola þrældóm þar sem þeir, sem þóknuðust ekki Rauðu Khmerunum, voru drepnir. Ólýsanlegar pyntingaraðferðir Rauðu Khmeranna og grimmd þeirra er flestum óskiljanleg.

Pol Pot og Rauðu Khmerarnir gerðu ekkert gott. Þeir færðu þjóð sína aftur á steinöld, drápu stóran hluta hennar og færðu óendanlegar hörmungar yfir restina. Allt fyrir fáránlegar hugmyndir um að allir skyldu vera jafnir (ef að allir eiga ekki neitt, þá eru allir jafnir) og að aðeins þeir fátækustu væru þeim þóknanlegir. Fáránleiki hugmyndanna er magnaður og útfærslan var enn verri.

Það að fjórðungur þjóðarinnar hafi látist í þessum hörmungum er nánast ekki hægt að trúa. Þetta samsvarar því að 75.000 Íslendingar myndu látast af völdum hungurs, pyntinga, sprenginga eða annarra hörmunga af manna völdum á aðeins fjórum árum.

Hérna í Kambódíu hef ég reynt að lesa mig til um sögu landsins. Á bátnum til Phnom Penh kláraði ég [ævisögu Pol Pot](http://www.amazon.com/Pol-Pot-Anatomy-Nightmare-MacRae/dp/B000HOMU4I/sr=8-1/qid=1159091915/ref=sr_1_1/104-3467456-4338305?ie=UTF8&s=books) eftir Philip Short, algjörlega frábæra bók, sem einblínir ekki eingöngu á Pol Pot heldur alla sögu Rauðu Khmeranna og þær aðstæður, sem þeir urðu til við. Bókin er einstaklega spennandi og fræðandi og mæli ég hiklaust með henni fyrir alla! Ég hef einnig lesið nokkrar sögu fórnarlambanna og þeirra best er [First they killed my father eftir Loung Ung](http://www.amazon.com/First-They-Killed-Father-Remembers/dp/0060931388/sr=1-1/qid=1159092291/ref=pd_bbs_1/104-3467456-4338305?ie=UTF8&s=books) sem segir sögu sína, en hún var fimm ára gömul þegar fjölskyldu hennar var skipað útúr Phnom Penh af Rauðu Khmerunum.

Það er líka magnað til þess að hugsa að nánast *allir eldri en 35 ára* hérna í Kambódíu eiga einhverja sögur af hörmungum Rauðu Khmeranna. Bara örfáir voru ekki reknir útúr bæjunum og örfáir þurftu ekki að vinna þrælavinnu. Allir þekkja einhverja, sem voru drepnir. Núna 31 ári eftir að Rauðu Khmerarnir komu inní höfuðborgina hafa enn fæstir þeirra þurft að taka út refsingu fyrir glæpi sína. Pol Pot dó í friði og flestir hinir hafa aldrei þurft að svara fyrir glæpi sína. Sumir sitja enn í áhrifastöðum í Kambódíu. Það eitt og sér er glæpur.

Á bátnum til Phnom Penh kynntist ég Dave, írskum strák, sem deilir með mér fanatískri aðdáun á Liverpool. Við skoðuðum á laugardaginn borgina saman og sátum svo ásamt áhugasömum innfæddum og horfðum á fótbolta um kvöldið, m.a. á glæsilegan [sigur Liverpool](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2006/09/23/13.38.45/) á meðan við drukkum laóskan bjór.

Á sunnudaginn fórum við svo og skoðuðum tvö helstu minnismerki um Rauðu Khmeranna hérna í Phnom Penh. Fyrst skoðuðum við drápsakrana í Choeung Ek. Þar var allskonar andstæðingum (raunverulegum og ímynduðum) Rauðu Khmeranna safnað saman eftir yfirheyrslur í S-21 fangelsinu. Í Choeung Ek var fólkið tekið og drepið um leið og það kom og líkunum hent í fjöldagrafir. Fjöldi fórnarlambanna var stundum svo yfirþyrmandi að böðlarnir höfðu ekki við að drepa alla samdægurs heldur þurfti fólkið að bíða yfir nótt eftir að vera drepið. Á þessum stað hafa alls um 9.000 lík verið grafin upp og í minnismerki á staðnum eru geymdar hundruðir rotnandi hauskúpna af fórnarlömbunum.

Ef að drápsakrarnir eru átakanlegir, þá jafnast þeir samt ekki á við S-21 öryggisfangelsið, sem var næsti áfangastaður okkar. Fyrir sigur Rauðu Khmeranna var S-21 barnaskóli, en þeir breyttu skólanum í fangelsi þar sem ímyndaðir óvinir voru teknir inn. Alls fóru um 20.000 manns í gegnum fangelsið á þeim þrem árum sem þeir réðu og talið er að enginn hafi lifað dvölina af. Fólk á öllum aldri var tekið og pyntað þangað til að það hafði viðurkennt að það væri CIA njósnarar (og oft öll fjölskyldan líka) – þá fór fólkið að drápsökrunum þar sem það var drepið. Lítil börn voru tekin af fólkinu um leið og það kom og þau drepin í sjálfu fangelsinu. Fæstir lifðu meira en mánuð í fangelsinu í eins fermetra klefum þar sem fólk var hlekkjað við gólfið, svo það gæti ekki einu sinni staðið upp. Það fékk þrjár skeiðar af hrísgrjónasúpu þrisvar á dag í klefann og þurfti að gera allar sínar þarfir inní sjálfum klefanum.

Í dag er í S-21 safn um þessar hörmungar og ég efa það að nokkur maður geti farið þarna í gegn án þess að verða fyrir miklum áhrifum. Við Dave fengum kambódíska konu til að fylgja okkur eftir þarna og hún sagði okkur sögur fólksins á meðan maður skoðaði myndir af litlum börnum, sem voru teknar nokkrum mínútum áður en þau voru drepin. Grimmdin er óútskýranleg.

Á þeim tíma sem þessar hörmungar stóðu yfir studdu fjöldi landa Kambódíu. Kínverjar og Bandaríkjamenn studdu stjórn Rauðu Khmeranna af þeirri einni ástæðu að þeir voru á móti Víetnömum (sem að steyptu að lokum stjórn Rauðu Khmeranna með innrás sinni). Af þeim löndum, sem voru á móti stjórninni voru flest kommúnistaríki (undir stjórn Sovétríkjanna) sem voru á móti stjórn Rauðu Khmeranna – ekki útaf þeim hörmungum sem hún færði yfir kambódísku þjóðina, heldur eingöngu vegna þess að þessar þjóðir studdu Víetnam. Það er svo ótrúlegt að lesa sig til um þetta – að maður verður oft orðlaus. Það eru fæst lýsingarorð of sterk til að lýsa grimmdinni og mannfyrirlitningunni, sem að Rauðu Khmerarnir sýndu þjóð sinni.

Í dag höfum við Dave eytt tíma okkar á rússneska markaðinum hérna í Phonm Penh, þar sem við skoðuðum alls konar drasl. Planið er að eyða eftirmiðdeginum hérna niðri við ána. Á morgun fer hann til Bangkok, en ég ætla að fara niður til Sihanoukville.

*Skrifað í Phnom Penh, Kambódíu – klukkan 14.00*

4 thoughts on “Suð-Austur Asíuferð 5: Rauðu Khmerarnir”

  1. Vek athygli á þessari grein Sverris Jakobssonar um málið: http://murinn.is/eldra_b.asp?nr=1387&gerd=Frettir&arg=5

    Sjálfur skrifaði ég þessa grein um minningar íslenskra fjölmiðlamanna og Kambódíu fyrir nokkrum misserum: http://murinn.is/eldra_b.asp?nr=1062&gerd=Frettir&arg=4

    Og í þessari grein kemur fram að Bretar voru að styðja við bakið á Khmerunum svo seint sem 1991 – þá var Kalda stríðið búið og sú afsökun úr gildi fallin: http://murinn.is/eldra_b.asp?nr=119&gerd=Frettir&arg=2

  2. Takk, Stefán. Allt góðar greinar og ég tek undir meðmælin. Greinin hans Sverris er ágætis yfirlit yfir þetta og hinar greinarnar koma með punkta, sem ég var ekki meðvitaður um.

Comments are closed.