Hérna er [frábært samansafn af skopmyndum](http://www.cagle.com/news/Muhammad/1.asp) þar sem fjallað er um viðbrögðin við skopmyndunum af Múhameð spámanni. Sumar myndanna eru hreint frábærar.
Year: 2006
Teiknimyndasögur
Það er magnað að hugsa til þess að þrátt fyrir milljón fréttir og fréttamyndir af mótmælum múslima um allan heim, þá hefur engin fréttastofa (að því minnsta ekki svo ég hef séð) tekið fyrir af hverju múslimar eru brjálaðir akkúrat núna.
Á Dailykos, sem er bandarískur vinstri-vefur (vinstri, þá á bandaríska vísu – semsagt demókratar), er ágætis [samantekt á því hvernig þessi vitleysa öll byrjaði](http://www.dailykos.com/storyonly/2006/2/5/13149/60748). Þrátt fyrir að [mér hafi fundist asnalegt](https://www.eoe.is/gamalt/2006/01/31/10.13.56/) að leggja til að myndum af Múhameð sé dreift bara til að sýna að við getum gert það, líkt og Egill Helga gerði, þá þýðir það ekki að mér eitthvað vit vera í viðbrögðum múslima. Allavegana að greininni. Upptökin á þessu eru í hinu skemmtilega landi Sádí Arabíu:
Continue reading Teiknimyndasögur
Hit
Getur einhver fróður útskýrt af hverju ég hef fengið 30 heimsóknir [frá þessari síðu](http://forums.worldofwarcraft.com/thread.aspx?fn=wow-off-topic&t=1163787&p=1&tmp=1). Er þetta spam, eða var verið að tala um síðuna mína á World of Warcraft spjallborði? Ég sé ekkert á sjálfri síðunni. Ansi furðulegt.
Superbowl auglýsingar
Á Google Videos [er hægt að nálgast allar auglýsingarnar, sem sýndar voru í Superbowl í gær](http://video.google.com/superbowl.html). Mæli með þessu.
Bestu auglýsingarnar eru án efa Bud Light auglýsingarnar:
[On the roof](http://video.google.com/videoplay?docid=-6674087286140357052)
[Secret Fridge](http://video.google.com/videoplay?docid=8248766101102341416)
[Save Yourself](http://video.google.com/videoplay?docid=-3058013579093292521)
[Hidden Bud Light](http://video.google.com/videoplay?docid=-3010891853586596603)
Á erfitt með að gera upp á milli þeirra, en [Secret Fridge](http://video.google.com/videoplay?docid=8248766101102341416) er að mínu mati fyndnust.
Djammið er dáið!
Ég held að ég hafi komist nálægt því að gefast endanlega uppá íslensku skemmtanalífi í gær þegar ég fór með vini mínum á djammið í miðborg Reykjavíkur. Ég skemmti mér frábærlega, en það var ekki gæðum skemmtistaðanna að þakka, heldur frekar góðum félagsskap. Ég var að enda við að hætta í ör-stuttu sambandi og því fannst mér tilvalið að fara á djammið með vini mínum.
Við reyndum ansi marga skemmtistaði í gærkvöldi í leit að almennilegri blöndu af góðri tónlist, sætum stelpum og góðu andrúmslofti. Sú blanda virðist ekki vera til. Annaðhvort virðist tónlistin vera hryllingur, troðningur alltof mikill eða þá að 90% fólks inná stöðunum var 16-18 ára gamalt.
Þessa staði reyndum við:
Óliver
Byrjuðum á Ólíver. Það er ágætis staður. Flestir inná staðnum voru yfir tvítugt og var reyndar slatti af fólki vel yfir þrítugt. Það virðist vera sem svo að DJ-inn á Ólíver treysti á það að allir þarna inni séu eldri en 35. Allavegana virðist tónlistin vera miðuð við þann aldhurshóp. Á þeim rúmlega klukkutíma, sem við vorum inná Ólíver heyrði ég m.a.: Lag með Boy George, Wake me up before you go-go með Wham, Take on Me með A-Ha og einhver 2-3 Stuðmannalög. Þetta var orðinn svo mikill hryllingur að við gáfumst að lokum upp. Það var þó greinilegt að FULLT af fólki inná staðnum var að fíla tónlistina. Þessu fólki er ekki hægt að bjarga.
Plúsar og mínusar við Ólíver:
+ Mjög sætar stelpur
+ Fólk yfir tvítugt
– Hryllilegasta tónlistin í bænum.
– Troðningur á dansgólfi. Ekki það að ég hafi haft nokkra löngun til að dansa við Wham.
Vegamót
Löbbuðum yfir á Vegamót í vissu um að tónlistin yrði betri. Það reyndist rétt. Vegamót er fínn staður, einsog alltaf…. Eeeeen hins vegar, þá var reyklyktin og myrkrið að fara með mig. Ég sé lítið í svona myrkri og reyk og því get ég varla greint hvernig fólkið á næsta borði lítur út. Það er ekki gott. Nenni ekki að vera með gleraugu á djamminu. Einnig komu nokkur fáránlega asnaleg lög. Aldurs-samsetningin var ein sú besta á stöðunum, allavegana einsog ég vil hafa hana.
+ Skárri tónlist en á Ólíver
+ Fólk yfir tvítugt
– Myrkur og reykur
– Troðningur (reyndar ekki í gær)
Prikið
Við ákváðum eftir Vegamót að reyna að fara á staði, sem við förum nær aldrei á. Fórum því á Prikið. Prikið er staður, sem ég hef aldrei skilið. Gærkvöldið breytti því ekki. Troðningurinn á Prikinu var nánast óbærilegur og svo var aldursamsetningin svipuð og á 3. bekkjarkvöldi í Verzló. Ég held að ég og vinur minn höfum verið svona 10 árum eldri en næst elstu einstaklingarnir þarna inni.
Prikið bauð hins vegar uppá langbestu tónlistina. Old skúl hip hop. Krakkarnir þarna inni voru sennilega enn í leikskóla þegar Doggystyle kom út. Það er magnað.
+ Frábær tónlist
– Viðbjóðslegur troðningur
– Að undanskildum okkur og barþjónunum var enginn þarna inni eldri en 18.
– Troðningur
– “Karlaklósettið” – það kann að vera að einhverjum finnist gaman af því að láta fólk horfa á sig pissa. Ég er ekki einn af þeim.
– Troðningur
Sirkus
Já, Sirkus. Við ákváðum að prófa að fara á Sirkus. Sú tilraun misheppnaðist hrapallega. Beisiklí, þá biðum við í óskipulögðustu biðröð á Íslandi í sirka 30-40 mínútur. Biðröð er í raun rangnefni, því þetta var biðhrúga. Ekkert skipulag. Þeir frekustu komust áfram. Dyravörðurinn var stelpa, sem er athyglisverð tilbreyting. Mér heyrðist tónlistin vera ágæt, en ég heyrði hana bara rétt þegar hurðin opnaðist á sirka fimm mínútna fresti.
Við gáfumst upp eftir 40 mínútur í rigningunni. Get ekki ímyndað mér að staðurinn sé virði lengri biðar.
+ Held að þarna sé góð tónlist
+ Myndavélar eru bannaðar á staðnum. Það er frábær regla.
– Biðhrúgan
– Komumst actually ekki inn. Það var ókostur.
Hverfisbarinn
Á þessum punkti höfðum við fáar hugmyndir. Það var búið að loka Ólíver og við ætluðum að fara á 11, en þar voru hins vegar 50 manns í biðröð. Af hverju veit ég ekki. Við fórum því yfir á Hverfisbarinn, enda var enginn í biðröð þar. Þar inni eyddum við heilum 10 mínútur. Heyrðum allavegana eitt leiðinlegt lag.
+ Lang-sætustu stelpurnar af öllum stöðunum.
– Ekkert aldurstakmark. Ef það er aldurstakmark, þá er það sennilega 14 ára.
– Troðningur á dansgólfinu. Hvernig á maður að dansa þegar maður þarf sífellt að vera að ýta fólki frá sér?
– Myndavélar. Ég held að ég hafi lent á einhverjum þrem myndum á staðnum. Það var ekki beint verið að taka mynd af mér, þó að ég haldi að eitt skiptið hafi myndavélinni verið beint að mér. Ég veit ekki hvort það þýðir að myndin lendi í fjölskyldualbúmi í Breiðholtinu eða á netinu. En ég þoli ekki þessar myndavélar á djamminu. Ég lít ekki vel út klukkan 4 á djamminu eftir 10 screw-drævera og hef engan áhuga á að fá myndir af mér birtar.
Kaffi Kúltúr
Æ heitir þetta ekki Kaffi Kúltúr, þarna kaffistaðurinn í Alþjóðahúsinu? Við heyrðum einhverja suðræna tónlist þegar við löbbuðum framhjá og ákváðum að fara inn. Tónlistin versnaði gríðarlega þegar inn var komið og einnig virtist ekki vera mikið af fólki þarna inni.
+ Eh, veit ekki
– Sá engar sætar stelpur
– Tónlistin ekki góð.
* * *
Þannig lauk þessu kvöldi. Niðurstaðan að enginn af þessum skemmtistöðum stóðst væntingar okkar. Ef ég ætti að velja þá væri Vegamót sennilega besti staðurinn. Ég stefni á að halda áfram að prófa nýja staði á næstunni. En ég er farinn að hallast að því að íslenskt skemmtanalíf bjóði ekki uppá staði, sem ég fíla. Ég skil ekki af hverju það er.
Af hverju er ekki hægt að biðja um svona stað:
- Sæmilega stór staður, með flottum innréttingum.
- Fleiri en einn bar
- Aldurstakmark, sem fylgt er eftir. Það er allt í lagi að einhverjir staðir hleypi framhaldsskólafólki inn. En þurfa virkilega allir staðir á landinu að gera það? Stelpa, sem ég var að deita kvartaði yfir því að á Hverfisbarnum væri mikið af krökkum. Og hún er 21 árs! Hugsið ykkur: 21 árs stelpa kvartar yfir því að á skemmtistöðum sé of mikið af krökkum.
- Góð tónlist. Blanda af þeirri tónlist, sem er vinsæl í dag og almennilegu hip-hopi eða danstónlist. Ekkert 80’s crap eða Stuðmenn eða Grýlurnar eða Laddi eða önnur vitleysa.
- Sætar stelpur (uppfært: Að innan sem utan! Já, og skemmtilegt fólk! Og fólk, sem ég þekki!)
- Stórt dansgólf! Dansgólf þar sem maður hefur pláss og þarf ekki að rekast utan í fólk á 10 sekúndna fresti.
- Engar myndavélar! Engar asnalegar fyllerísmyndir birtar á vefsíðum.
- KLÓSETT SEM VIRKA! Og jafnvel fleiri en eitt klósett.
Ég hef farið inná svona staði í nánast öllum stórborgum, sem ég hef djammað í. Af hverju ekki í Reykjavík?
Til hamingju
Ef að Silvía Nótt fer ekki í Evróvisjón, þá tapa ég endanlega trúnni á þetta land.
Og VÁ! Er Spaugstofan ennþá á dagskrá? Ég horfi greinilega ekki nógu oft á sjónvarp á laugardagskvöldum.
Kaupum danskt
Af gefnu tilefni:
[Support Denmark](http://skender.be/supportdenmark/)
[End the boycott](http://buydanish.home.comcast.net/products.htm)
Og mótmæli [múslima í London](http://michellemalkin.com/archives/004448.htm). Ljómandi.
Uppboðið – Lokahlutinn
Ýmislegt hefur gert það að verkum að það hefur dregist hjá mér að klára öll mál í tengslum við [uppboðið](https://www.eoe.is/uppbod), sem ég stóð fyrir í desember. Allavegana, núna ætla ég að klára þau mál. Fyrir það fyrsta, þá var mun meiri vinna að koma hlutunum út en ég hafði gert mér grein fyrir. Enn hafa til að mynda nokkrir hlutir ekki verið sóttir, þrátt fyrir að ég hafi sent fjölda tölvupósta á viðkomandi. Einnig hef ég haft mjög mikið að gera undanfarnar vikur og því hefur þetta tafist. En núna ætla ég að klára málin. 🙂
Fyrir það fyrsta ætla ég að opna á frjáls framlög frá fólki. Í öðru lagi er ég búinn að ákveða hvert peningarnir eiga að fara. Og í þriðja lagi, þá ætla ég að bjóða upp nokkra hluti í viðbót.
* * *
Til að byrja með, þá hefur safnast á uppboðinu alls 310.400 krónur. Einhverjir hlutir voru aldrei sóttir, en þetta er peningurinn sem hefur skilað sér inn. Auk þessa, þá hef ég safnað 100.000, sem er bæði mitt eigið framlag, sem og framlög frá fjölskyldu og vinum.
Upphæðin er því alls komin uppí **410.400 krónur** fyrir lokahlutann.
* * *
Ég hef ákveðið eftir talsverða skoðun að peninguinn fari allur til [OXFAM](http://www.oxfamamerica.org). Ég hef skoðað ansi mörg samtök og Oxfam eru samtök, sem nánast allir tala vel um. Samtökin vinna [útum allan heim](http://www.oxfamamerica.org/whatwedo/where_we_work) en framlagið okkar mun þó fara til starfa í [Mið-Ameríku](http://www.oxfamamerica.org/whatwedo/where_we_work/camexca). Þar vinna samtökin að ýmsum málefnum, sem hægt er að lesa um [hér](http://www.oxfamamerica.org/whatwedo/where_we_work/camexca).
* * *
Ef þú vilt leggja inn framlag í þessa söfnun mína, þá getur þú lagt pening inná reikninginn minn: Reikningurinn er 546-26-1708. Kennitalan mín er 170877-3659. Allur peningurinn mun renna til Oxfam í Mið-Ameríku.
* * *
Varðandi það, sem ég á eftir að bjóða upp
Continue reading Uppboðið – Lokahlutinn
Uppboð: Geisladiskar – pakkar 2
Hérna er það seinni hlutinn í geisladiskauppboðinu, það er það, sem seldist ekki fyrir jól. Aðeins er hægt að bjóða í heila pakka. Það er t.d. allan Pink Floyd pakkann, eða allan Brit Pop pakkann.
Uppboðið virkar þannig að þú skrifar tilboðið þitt í ummælin. Auðveldast er að gera það með því að nefna hlutinn og virðið strax fyrir aftan.
Uppboði lýkur á miðnætti á mánudag.
Uppboð: Geisladiskar – pakkar 1
Jæja, best að klára þessi uppboðsmál. Núna ætla ég að bjóða upp restina af geisladiskunum mínum, sem fóru ekki á uppboðinu fyrir jól. Einungis er hægt að bjóða í heilu pakkana. Það er, þú verður að bjóða í alla diskana í Suður-Ameríkupakkanum eða íslenska pakkanum. Ekki er hægt að bjóða í einstaka diska. Fleiri diskapakkar koma inn á morgun.
Uppboðið virkar þannig að þú skrifar tilboðið þitt í ummælin. Auðveldast er að gera það með því að nefna hlutinn og virðið strax fyrir aftan.
Uppboði lýkur á miðnætti á mánudag.