Bátur á Halong Bay

.flickr-photo { border: solid 1px #000000; }
.flickr-yourcomment { }
.flickr-frame { text-align: left; padding: 3px; }
.flickr-caption { font-size: 0.8em; margin-top: 0px; }


Fleiri myndir frá [Laos og Víetnam eru komnar inná Flickr](http://flickr.com/photos/einarorn/sets/72157594336652935/)

Suð-Austur Asíuferð 13: Punktar frá Laos

* Með því að vera kominn til Laos er ég búinn að afreka nokkuð, sem hefði fyrir um 20 árum þótt ansi merkilegt afrek. Það er, ég er núna búinn að heimsækja meirihluta allra kommúnistaríkja í heiminum: *Kúbu, Laos og Víetnam*. Ég á því bara tvö eftir: *Kína* og *Norður-Kóreu*.
* Síðan ég kom hingað til Laos hefur veðrið hérna í höfuðborginni Vientiane verið eins, 29 stiga hiti og glampandi sólskin. Ég á umtalsvert auðvelt með að venjast svona veðri.
* Laoskar stelpur eru ÆÐI
* Laoskum karlmönnum finnst EKKERT í þessum heimi jafnfyndið og að sjá mig sitja aftan á mótorhjóli, sem er stýrt af stelpum. Þetta hefur gerst oftar en einu sinni hérna í Vientiane og alltaf virðist þetta vekja jafn mikla kátínu. Það sem mér finnst æðislegt finnst þeim vera merki um skort minn á karlmennsku.
* Vientiane hlýtur að vera afslappaðasta höfuðborg í heimi. Að koma frá geðveikinni í Hanoi hingað til Vientiane er stórkostleg afslöppun. Ég fíla þessa borg…
* …sem gerir það að verkum að ég ætla að dveljast hérna framá sunnudag, sem er talsvert lengra en upphaflega var planað. Samblanda af næturlífi, skemmtilegu fólki á gistiheimilinu og fleiru gerir það að verkum að ég ætla ekki upp til Luang Prabang fyrr en á sunnudag.
* Af hverju í fokking ósköpunum eru Íslendingar byrjaðir að veiða hval aftur? Þegar ég er sammála bæði leiðara Morgunblaðsins og [Birni Inga](http://bingi.blog.is/blog/bingi/entry/46882/), þá er eitthvað verulega skrýtið í gangi. Þetta er svo slæm ákvörðun að það er ekki fyndið.
* Á flugvellinum í Vientiane þegar ég var að sækja bakpokann minn þá heyrði ég í kallkerfinu: “*Mr. Kristinsson, Kjartan*” Ég er 100% viss um að nafnið var Kristinsson og mér heyrðist fyrra nafnið vera Kjartan. Ef svo er, þá þykir mér það ansi mögnuð tilviljun að vera með öðrum Íslendingi á sama tíma á flugvelli í *Laos*.
* Gistiheimilið mitt heitir hvorki meira né minna en *Ministry of Education*. Á þeim ágæta stað er ansi skrautlegt samansafn af skemmtilegum karakterum. Einn þeirra hefur verið í Vientiane í þrjá mánuði án þess að hafa skoðað helsta túristastaðinn í borginni. Hann er ekki með vinnu hérna í Vientiane. Fróðir menn geta giskað á ástæður þessarar löngu dvalar.
* Eftir tvö kvöld í röð á stærsta næturklúbb Vientine þá veit ég núna hvernig frægum rokkstjörnum líður þegar þeir eru á næturklúbbum. Ég hélt að ég væri [ýmsu vanur](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/19/17.40.31) varðandi athygli frá kvenþjóðinni eftir ferðalög í Suður-Ameríku, en ekkert gat undirbúið mig undir Laos. Ekkert Það mun taka einhverjar vikur að ná sjálfstraustinu aftur niður á jörðina eftir þessa dvöl.

*Skrifað í Vientiane, Laos klukkan 15.09*

Suð-Austur Asíuferð 12: Voff voff og bíp bíp

Jiiii hvað síðustu dagar hafa verið ótrúlega skemmtilegir. Alveg æði! Hvort að skemmtilegir dagar samsvari sér í skemmtilegri ferðasögu verður að koma í ljós. Held samt ekki.

Ég var fyrir tveim tímum að koma aftur til Hanoi eftir æðislega þriggja daga ferð um Halong bay. Halong er samansafn af nærri því tvö þúsund eyjum í Tomkin flóa rétt hjá landamærum Kína. Eyjarnar eru af hinum ýmsu stærðum og eru dreifðar á um 1.500 ferkílómetra svæði og því eru þær mjög þéttar.

Ég fór í skipulagða þriggja daga ferð um svæðið. Keyrðum fyrst með 15 manna hópi frá Hanoi til Halong borgar þaðan sem við tókum bát útá flóann. Við vorum á flóanum í þrjá daga. Sigldum á milli eyjanna og virtum fyrir okkur útsýnið. Gistum á bátnum aðra nóttina og á hóteli á Cat Ba eyju hina nóttina. Löbbuðum um Cat Ba eyju í þjóðgarði þar og lékum okkur á ströndinni á milli þess sem við sigldum á milli eyjanna og stukkum framaf bátnum til að synda í sjónum.

Þessi ferð var hápunktur ferðarinnar minnar hingað til. Ekki bara er Halong bay ótrúlega fallegt svæði, sem er best lýst með myndum, heldur var hópurinn líka frábær. Ég hékk með fjórum strákum, tveim frá Englandi og tveim (snillingum) frá Norður-Írlandi. Við duttum í það bæði kvöldin, fyrra kvöldið oná þaki á bátnum á miðjum flóanum og seinna kvöldið á bar á Cat Ba eyju. Þetta var algjörlega ógleymanlegt og ég er ennþá brosandi yfir öllum sögunum, sem ég er búinn að heyra síðustu daga.

Síðustu dagarnir í Hanoi voru líka skemmtilegir. Ég eyddi fyrri parti laugardagsins í að skoða hluti tengda Ho Chi Minh. Ho frændi, einsog hann er kallaður hérna í Víetnam, er dýrkaður og dáður í þessu landi. Andlit hans er á *öllum peningaseðlunum* (ég hef ekki séð það nema í Venezuela þar sem Simon Bolivar er á öllum seðlunum) og styttur af honum eru útum allt. Auðvitað má benda á það að kommúnistar eru enn við völd og svona persónudýrkun því að vissu leyti skiljanleg, en það verður þó að teljast líklegt að aðdáun Víetnama á Ho Chi Minh muni endast lengur en kommúnistaflokkurinn. Ho er nefnilega aðallega minnst sem frelsishetju (frekar en kommúnistaleiðtoga), sem að á stærsta heiðurinn á sjálfstæði Víetnama frá Frökkum og Kínverjum.

Ho Chi Minh á það sameiginlegt með Lenín (sem ég [heimsótti](https://www.eoe.is/gamalt/2003/09/04/9.33.02) fyrir nokkrum árum) að lík hans er til sýnis almenningi. Því miður þá gat ég ekki heimsótt Ho frænda þar sem að hann þarf að fara til Moskvu í tvo mánuði á hverju ári til að láta smyrja sig uppá nýtt. Því varð ég að láta mér duga túr um Ho Chi Minh safnið (sem var ömurlegt) og að skoða húsið, sem hann dvaldi í meðan hann var forseti Víetnam.

Þegar ég kom heim á hótel og sá að bróðir minn var að [mana mig í að smakka hundakjöt](https://www.eoe.is/gamalt/2006/10/13/12.07.56/#c36525) þá ákvað ég að ég yrði að kýla á það, fór út og fann mér mótorhjól og driver til að keyra mig í hundakjötshverfið.

Leiðin var sæmilega löng og á meðan henni stóð ákvað ég að framkvæma tilraun, sem ég var búinn að velta fyrir mér í smá tíma. Það er að mæla hversu langur tími líður á milli þess sem maður heyrir í bíla- eða mótorhjólaflautu í Hanoi. Það er nefnilega varla hægt að lýsa þeim stanslausu látum, sem eru af völdum flautna hérna í Víetnam (og Kambódíu reyndar líka). Fólk hérna notar flautuna í ansi marga hluti. Fólk flautar þegar það ætlar að taka framúr, það flautar þegar það er við hliðiná þér, það flautar þegar það er á móti þér, það flautar þegar það ætlar að beygja, það flautar þegar það einhver fyrir þeim og svo framvegis og framvegis.

Ég ákvað að telja tímann á milli flautna í um fimm mínútur. Á þeim tíma var mesti tíminn, sem leið á milli flautna, **4 sekúndur**. Semsagt, á götu í Hanoi þá geturðu ekki fengið frið frá flautum í meira en fjórar sekúndur. Oftast náði ég ekki að telja uppá tvo á milli flautna.

Hundakjötsveitingastaðahverfið er í um 15 kílómetra fjarlægð frá miðbæ Hanoi. Þegar ég kom þangað öskraði allt við hverfið á mig að ég ætti að láta þetta vera. En ég var kominn of langt til að snúa við og vippaði mér inná stað, sem leit ágætlega út. Staðurinn var reyndar algerlega tómur, en það voru líka aðrir staðir þar sem ég var þarna á skrýtnum tíma (um 5 leytið). Staðurinn var rekinn af fjölskyldu, sem benti mér strax á að setjast á mottu á gólfinu og komu svo með matinn.

Maturinn samanstóð af þrem tegundum af grænmeti, tveim sósum og tveim tegundum af hundakjöti. Önnur tegundin af kjötinu var köld, en hin var heit. Víetnamar hafa það (skynsama) viðhorf gagnvart mat að ef að maturinn er næringar-ríkur og góður, þá geti þeir borðað hann. Þeir hundsa því vestræn rök einsog að það megi ekki borða dýr, sem eru sæt og skemmtileg, heldur helst bara dýr sem eru alin uppí verksmiðjum. Hundakjöt er næringarríkt og hundar eru ekki í útrýmingarhættu og því sjá Víetnamar alls ekkert athyglisvert við það að borða þá. Þetta hefur ekkert með fávisku eða skort á þróun að gera.

Fjölskyldufaðirinn kom með bjór handa mér og undirbjó matinn. Hann tók tvö lauf, setti kjötið á milli laufanna og dýfði þeim svo í sterka sósu og borðaði. Þetta endurtók ég. Sósan var svo sterk að hún deyfði bragðið af kjötinu, en það var alls ekki slæmt. Heiti kjötrétturinn var borðaður einn og sér og var hann sæmilegur. Þetta er ekki beint kjöt, sem ég myndi leggja í vana minn að borða.

Ég bara gat ekki farið frá Víetnam án þess að prófa.

Á morgun á ég svo flug til Vientiane í Laos, þar sem ég ætla að eyða næstu tveim vikum ferðarinnar. Það er vonandi að Laos standi undir þeim mögnuðu sögum, sem ég hef heyrt af landinu síðustu daga.

*Skrifað í Hanoi, Víetnam klukkan 18.51*

Tu Doc

Ég hjá grafhýsi Tu Doc nálægt Hué í Víetnam (smellið á mynd til að sjá hana í réttri stærð).

Ég er búinn að setja inn [fleiri myndir frá Víetnam og Kambódíu á FLickr](http://flickr.com/photos/einarorn/sets/72157594326242587/).

Suð-Austur Asíuferð 11: Hundakjöt, læti, prútt og bardagar

Það eru sennilega tvær leiðir til að upplifa stórborgir í Suð-Austur Asíu. Önnur er pirraða leiðin, sem ég upplifði aðallega í veikindunum í Phnom Penh – það er að finnast öll lætin, allt böggið, öll umferðin, öll endalausu flautin, allt fólkið hrópandi á þig og grípandi í hendurnar á þér, allir sölumenninrnir og allir mótorhjóla-ökumenninrnir vera alveg einstaklega óþolandi. Að geta ekki gengið niður götu í friði í 1 mínútu án stöðugs áreitis frá matarlykt, mótorhjólum sem þú þarft að hoppa undan, eða sölumönnum sem þú þarft að forðast. Það er gríðarlega auðvelt að verða geðveikur í stórborg í Suð-Austur Asíu.

Því það kann að hljóma einsog klisja, en ég er alltaf hissa þegar ég kem í nýja borg á þessum slóðum. Ekkert undirbjó mig undir geðveikina í Bangkok. En samt var áreitið miklu meira í Phnom Penh. Svo komst ég að því að umferðin var ennþá brjálaðari í Saigon. Og núna hef ég komist að því að Hanoi er einhvers konar undarleg blanda af þessu öllu, þar sem smá hlutar af geðveiki hinna borganna er samankominn á einum stað.

En einsog er með mig, þá þarf ég ekki nema bara fá bros frá sætri víetnamskri stelpu eða bros frá krökkum, sem veifa mann einsog óðir – bara til að fá svona furðulegan útlending til að veifa sér tilbaka, og þá er ég alveg fallinn fyrir þessum borgum aftur. Það er eitthvað stórkostlega heillandi við allt lífið í þessum borgum. Allir virðast borða hádegismatinn sinn útá götu og maður sér í hádeginu fulltaf köllum að spila saman. Svo sér maður alla þessa stórkostlegu umferð og dáist að því hvernig hún getur komist áfram. Og maður verður uppnuminn og finnst æðislegt að vera ferðamaður í svona skemmtilegu landi einsog Víetnam er.


Einhvers staðar las ég að munurinn á Kambódíu og Víetnam væri að í Kambódíu vissi maður aldrei hvenær væri verið að svindla á manni, en Víetnam væri þetta betra því þar vissi maður að það væri alltaf verið að svindla á manni. Einsog mér þykir leiðinlegt að prútta, þá verð ég hreinlega alltaf að gera það hérna. Ekki það að mér þyki það sérstaklega merkilegt að borga 10.000 dong fyrir vatnsflösku (um 50 krónur), en ef maður veit að eitt skref aftúrábak þýðir að verðið breytist skyndilega í 5.000 dong, þá venst maður því á endanum að taka aldrei fyrsta verði. Gleraugun sem ég keypti mér voru í fyrstu verðlögð á 150.000 dong (700 kall), en ég endaði á að borga 45.000 dong (210 kall) og svo framvegis og framvegis. Víetnam á það þó sameiginlegt með Kambódíu að verðlagið er eiginlega djók.

Hvernig er til dæmis hægt að bjóða uppá bjór á 2.000 dong, sem er um 10 íslenskar krónur?! Fyrir verð á einum bjór á Vegamótum gæti ég keypt mér 70 bjóra á barnum, sem ég var á í gær. Ég hefði allavegana getað keypt mér miklar vinsældir meðal innfæddra.


Ég er núna búinn að vera í Hanoi, höfuðborg Víetnam, í 2 daga og kann gríðarlega vel við mig í borginni. Ég gisti á hóteli í gamla hlutanum, sem er heillandi hverfi, fulltaf þröngum götum, börum, veitingastöðum og mörkuðum. Ég hef aðallega eytt tíma mínum á labbi um þessar þröngu götur, á milli þess sem ég hef setið á börum, horft á mannlífið og drukkið bjór. Ég gæti gert þetta lengi.

Ég var þó smá menningarlegur í dag og skoðaði tvö söfn. Annarsvegar Safn um víetnamska sögu, sem er nokkurs konar þjóðmynjasafn með fornmunum frá ýmsum stöðum í Víetnam. Svo skoðaði ég Víetnamska Byltingarsafnið. Það var sæmilega áhugavert safn, þar sem farið er yfir sögu byltingarinnar. Aðallega var safnið skemmtilegt því það var álíka hlutlaust og leikskýrslurnar á Liverpool blogginu. Við allar myndirnar voru hermenn annaðhvort skýrðir frelsishetjur eða leikbrúður Bandaríkjamanna. Það gaf safninu eiginlega skemmtilegt yfirbragð að það skyldi vera svona litað.


Síðasta daginn minn í Hué skoðaði ég de-militarized zone (DMZ) svæðið, sem átti að heita herlaust svæði í kringum landamæri Suður og Norður Víetnams í Víetnamstríðinu. En þetta svæði var, þrátt fyrir fögur fyrirheit, vettvangur margra hörðustu orrustanna í stríðinu. Bandaríkjamenn voru sannfærðir um að grundvöllur fyrir sigri í stríðinu væri að stoppa flutning manna og hergagna niður Ho Chi Minh slóðina frá Norður til Suður Víetnam og töldu að það væri auðvelt að gera það í miðju landinu, þar sem Víetnam er tiltölulega mjótt. Þetta tókst þeim þó aldrei. Ho Chi Minh slóðin hélt allt stríðið vegna aðstoðar frá bændum og þorpsbúum, sem bjuggu í námunda við slóðann, alveg sama hversu mörgum napalm sprengjum Bandaríkjamenn vörpuðu

Á þessu svæði skoðuðum við nokkra staði. Fyrst voru það Vinh Moc göngin en þau voru byggð af þorpsbúum til að verjast gengdarlausum loftárásum Bandaríkjamanna. Hundruðir þorpsbúa bjuggu löngum tímum í göngunum.

Við skoðuðum einnig nokkrar herstöðvar og þar á meðal Khe Sanh, en þar fór fram ein allra blóðugasta orrusta stríðsins þegar að Viet Cong réðust á herstöðina til að draga athygli Bandaríkjamanna frá Tet sókninni. Þarna í dag eru leifar af hergögnum Bandaríkjamanna auk minnismerkis um orrustuna og lítils safns um hana. Inná safninu var m.a. gestabók þar sem margir bandarískir og víetnamskir hermenn höfðu kvittað fyrir komu sína áratugum eftir að stríðinu lauk. Ég gat auðvitað ekki lesið skilaboð þeirra víetnömsku, en skilaboð þeirra bandarísku voru oft á tíðum mögnuð.


Eftir ferðina tók ég svo 16 tíma lest frá Hué hingað upp til Hanoi.

Ég er orðinn mjög hress og hef ekki fundið fyrir magaverkjum í marga daga, sem hefur heldur betur lífgað uppá ferðalagið. Ég er farinn að borða furðulegasta mat hérna á götunum. Þrátt fyrir það hefur mér ekki tekist að berja í mig kjarki til þess að fara á götu hérna norður af hótelinu, sem að sérhæfir sig í sölu á hundakjöti. Mig dauðlangar að smakka hundakjöt, en ég veit ekki hvort ég geti gert maga mínum það í kjölfar endurtekinna mótmæla síðustu daga.

Á sunnudaginn fer ég svo í þriggja daga ferð um Halong flóa.

Skrifað í Hanoi, Víetnam klukkan 19.07

Smá útúrdúr um íslenska pólitík

Ekki bara ein, heldur þrjár góðar fréttir úr íslenskri pólitík.

  1. Ríkisstjórnin lækkar vörugjöld og vsk á matvælum. Ég hefði aldrei búist við þessu, en það er við hæfi að hrósa íhaldsstjórninni fyrir þetta! Húrra fyrir farmsókn og íhaldinu!
  2. Kristrún Heimis er á leiðinni í framboð fyrir Samfylkinguna. Það er frábært. Ég kynntist Kristrúnu aðeins þegar ég vann með henni í framtíðarhópi Samfylkingarinnar og hef mikið álit á henni eftir þá vinnu. Hún er snillingur og á fullt erindi inná þing!
  3. Jens vinur minn er líka að fara í farmboð fyrir Samfylkinguna. Jens er líka snillingur og ég mun eflaust skrifa lengri lofgrein þegar ég kem heim.

Allavegana, gott mál.

Suð-Austur Asíuferð 10: Feitir rassar og brennandi munkar

Ja hérna, ekki er ég fyrr búinn að setja fram þá kenningu að allar tölvurnar hérna í Hué hafi verið skildar eftir af bandaríska hernum í lok Víetnams-stríðsins, en að ég ramba inná þetta ljómandi fína netkaffihús, sem býður meira að segja uppá Windows XP í stað Windows 98, sem ég þurfti að notast við á síðasta kaffihúsi. Ég var í raun alveg við það að tapa geðheilsunni minni í morgun og hefði rokið út hefði sænska stelpan við hliðiná mér ekki verið svona æðislega sæt og skemmtileg þegar hún var að dásama það hvaða hægri menn væru orðnir ráðherrar í nýju ríkisstjórninni í Svíþjóð. Þessi tölva, sem ég er að nota núna er hins vegar svo æðisleg að ég er dauðhræddur um að eitthvað hræðilegt komi fyrir hana á meðan eg skrifa þetta. Þetta er eiginlega of gott til að vera satt!

Dagurinn í dag er búinn að vera dagur afslöppunar, enda hefur dagskráin undanfarna daga verið ansi þétt og dagskrá næstu daga verður það líka.


Ég kom hingað til Hué með lestinni frá Nha Trang í gærmorgun. Ég skráði mig inná hótel, skellti mér í sturtu og fór svo strax út. Ég fékk mér guide til að keyra mig á mótorhjóli um nágrenni borgarinnar, en þar eru nokkrir merkilegir hlutir. Við keyrðum meðfram Ilmvatnsánni og skoðuðum nokkur grafhýsi og búddista hof.

Hué var nefnilega einu sinni höfuðborg Víetnam þegar að landinu var stjórnað af Nguyen ættinni. Þess vegna er í sjálfri borginni mikið borgarvirki með höllum innaní og utanvið borgina eru svo grafhýsi dauðra konunga. Við byrjuðum á því að fara í virkt búddistahof, þar sem við fylgdumst með nokkrum munkum biðja hádegisbænirnar, síðan keyrðum við um sveitirnar og að grafhýsi Tu Duc, fjórða keisara Nguyen ættarinnar. Spennandi, ha? Grafhýsið er allavegana í alveg æðislegu umhverfi, umkringt síkjum og fallegum gróðri.

Síðasta stoppið var svo Thien Mu hofið, sem er eitt merkasta hofið í Víetnam. Þetta hof komst í alheimsfréttirnar árið 1963. Þá hafði stjórn Ngo Dinh Diem (sem var kaþólikki) staðið í nokkrum aðgerðum, sem takmörkuðu réttindi búddista í Suður-Víetnam. Þegar að þeim var bannað að halda uppá hátíðsdaga sinna, þá greip einn munkurinn, Thic Quang Duc til mótmælaaðgerða, sem vöktu mikla athygli. Hann keyrði á bílnum sínum (sem er til sýnis í Thien Mu hofinu) til Saigon þar sem hann settist niður á fjölfarinn gatnamót og kveikti í sér. Myndin var birt á forsíðum dagblaða um allan heim, en fólk af minni kynslóð þekkir myndina sennilega betur sem myndina utaná umslagi fyrstu plötu Rage against the Machine.

Þetta var flott ferð og gædinn minn var fínn, talsvert betri en sá síðasti, sem að leiðbeindi hópi ferðamanna um Cu Chi göngin. Sá var gjörsamlega heltekinn af því hversu útlendingar væru feitir, og þá sérstaklega hversu erlendar ferðastelpur væru með feita rassa. Endurtók hann þessi ummæli ansi oft fyrir framan hóp af útlendingum, sem innihélt m.a. allmargar stelpur með allfeita rassa. Tilgangurinn með þessu hjá honum var að benda sérstaklega á það hversu þröng Cu Chi göngin voru og hversu erfitt það væri fyrir útlendinga að komast í gegnum þau. Annar tilgangurinn var væntanlega að benda nærstöddum á það hversu grannar víetnamskar stelpur eru.

Og það er nefnilega nokkuð merkilegt, því ég hef ekki séð feita stelpu síðan ég kom hingað til Víetnam (fyrir utan útlenskar stelpur, auðvitað) . Ok, þetta eru kannski ýkjur. Ég hef eflaust séð einhverjar feitar stelpur, en hlutfall þeirra er svo fáránlega lágt að það er varla hægt að minnast á það. Ég myndi segja að svona 95% stelpnanna séu ekki grammi yfir kjörþyngd. Þetta er með hreinum ólíkindum. Kallar virðast eiga það til að hoppa aðeins yfir markið og grunar mig að það sé bjódrykkju um að kenna. En stelpurnar eru alveg ótrúlegar. Ég vil meina að þetta sé Pho að þakka, en Víetnamar borða Pho núðlusúpu í morgunmat. Ef að Vesturlandabúar myndu borða núðlusúpu með grænmeti í morgunmat í staðinn fyrir fokking Cocoa Puffs, þá væru offituvandamál ekki til staðar.

En þetta er svo sem ótengt efninu.


Í dag er semsagt afslöppunardagur, sem er ástæðan fyrir því að ég er í annað skiptið í dag á netkaffihúsi og að ég er að uppfæra þetta blogg annan daginn í röð. Ég svaf út til klukkan 10 (vá!!!), fór á netið og labbaði um hverfið. Endaði inná einhverjum bar, þar sem ég spilaði heillengi púl við víetnamska stelpu, sem ég kynntist þar. Fór svo og labbaði um borgarvirkið hérna í Hué og kíkti á markaðinn og lét innfædda öskra á eftir mér þær þrjár setningar, sem að allir hérna, sem vilja peningana mína, kunna: "Yo, money, yo" (betlarar), "Hey mistah, wanna buy something?" (sölufólk) og "hey, wanna moto/cyclo/marijuana?" (ökumenn).

Núna er planið að fara á morgun í smá ferð um "De-militarized zone", sem er/var herlausa svæðið í kringum fyrrum landamæri Suður- og Norður-Víetnam. Þar er fjöldinn allur af svæðum, sem tengjast Ameríkustríðinu. Um kvöldið er það svo enn ein 12+ tíma lestarferðin en ég á þá miða til Ha Noi, höfuðborgar Víetnam. Í Hanoi og nágrenni ætla ég að eyða um viku og meðal annars skoða Halong Bay. Þann 17. október á ég svo flugmiða frá Hanoi til Vientiane í Laos.

Skrifað í Hué, Víetnam klukkan 20.39

Suð-Austur Asíuferð 9: Saigon til Hué

Það verður nú að segjast að maginn minn er ekki alveg að samþykkja þessa Asíuferð þegjandi og hljóðalaust. Allavegana lætur hann tilfinningar sínar ítrekað í ljós.

Eftir að hafa eytt næstum því heilli viku með niðurgang og eftirköst af því, var ég ágætur í nokkra daga. Það er alveg þangað til á laugardag. Þá borðaði ég nákvæmlega EKKERT óeðlilegt, en veiktist samt og eyddi því öllu laugardagskvöldinu ælandi inná hótelherbergi í Nha Trang. Ég, sem var kominn þangað sérstaklega til að djamma. Og nota bene, ælið tengdist ekki drykkju, enda hafði ég ekki einu sinni byrjað að drekka. Í kjölfarið hafa svo fylgt tveir dagar þar sem maginn er aldrei almennilega sáttur. Ég er alltaf með verk í maganum og hálf svangur – og svo þegar ég borða þá líður mér enn verr. Þetta er fokking óþolandi.

Ég, sem hélt að maginn minn þyldi allt. Ég hef ferðast ansi víða um rómönsku Ameríku og borðað á skrautlegustu veitingastöðum álfunnar. Þegar ég bjó í Venezuela þá kepptumst við vinirnir um að borða hjá sem viðbjóðslegustu götusölunum, því þeir voru oft með besta matinn. Aðeins einu sinni á þeim rúmlega tveim árum, sem ég hef eitt í rómönsku Ameríku, hef ég fengið matareitrun. Það var þegar að ég fékk mér steik í morgunmat í Ekvador (mig minnir að Friðrik eða Borgþór hafi átt hugmyndina að því snilldarbragði).

Ég var búinn að sannfæra mig að ég gæti borðað tacos al pastor hjá ógeðslegustu götusölum í heimi þrátt fyrir að diskarnir væru þvegnir uppúr skólpi. En hérna í Asíu þoli ég bókstaflega ekki neitt og þetta er farið að fara verulega í taugarnar á mér. Drasl magi!


Ég er núna staddur í Hué, sem er nokkurn veginn í miðjunni á Víetnam. Síðustu 7 daga hef ég farið í þrjú 12+ klukkustunda ferðalög (Phnom Penh – Saigon, Saigon – Nha Trang og Nha Trang-Hué) og skiljanlega er ég dálítið þreyttur eftir þetta allt saman. En byrjum á Saigon.

Ég skoðaði allt það helst í Saigon borg. Einhver búddista hof, Sameiningarhöllina, Ho Chi Minh borgar-safnið og Stríðsmynjasafnið. Hofin eru auðvitað svipuð og önnur hof. Það er ofar mínum skilningi hvernig Lonely Planet dettur í hug að telja upp 15 mismunandi hof til að sjá í HCM borg. 1 eða tvö er feykinóg, sérstaklega ef þetta er ekki fyrsta landið manns í Suð-austur Asíu.

Sameiningarhöllin var áhugaverð. Á þeim stað, sem höllin stendur núna, var áður höll, sem hýsti ríkisstjóra Frakka og seinna forsætisráðherra Suður-Víetnama. Í Víetnamstríðinu sprengdu Norður-Víetnamar upp stóran hluta hallarinnar og ákvað því Ngo Dinh Diem (forsætisráðherra S-Víetnam) að það skyldi byggja nýja höll í staðinn. 30. Apríl 1975 réðust svo Norður-Víetnamar inní höllina og náðu þar með endanlega völdum yfir öllu Víetnam. Þeir endurskýrðu höllina "Sameiningarhöllina" og breyttu henni í safn. Í dag er höllin nánast einsog hún var 1975 fyrir utan að nokkrum styttum af Ho Chi Minh hefur verið bætt við, svona rétt til að minna á það hverjir unnu.

Ég skoðaði svo tvö áhugaverð söfn. Annars vegar borgarsafn Ho Chi Minh borgar, sem innihélt bæði formuni og svo muni frá Ameríkustríðinu. Öllu áhugaverðara var Stríðsmynjasafn Saigon. Það ágæta safn hét áður mun beittara nafni, "Safn til minningar um bandaríska og kínverska stríðsglæpi", en því nafni var breytt til að stuða ekki túrista óþarflega mikið.

Þrátt fyrir nafnabreytinguna, þá fjallar safnið aðallega um stríðsglæpi Bandaríkjamanna í Víetnam. Uppbygging safnsins er afskaplega einhliða, en það er í lagi þar sem maður hefur aðallega séð stríðið frá hlið Bandaríkjamanna, og því gott að fá innsýn inní heim þeirra, sem urðu fyrir mestum þjáningum í stríðinu – almennum borgurum í Víetnam.


Eitt áhrifamesta minnismerki, sem ég hef séð, er minnismerki um þá Bandaríkjamenn sem féllu í Víetnam. Ég hef heimsótt það minnismerki í Washington DC allavegana tvisvar og það er með ólíkindum að sjá öll nöfn þeirra, sem létust í stríðinu. 58.183 bandarískur hermaður lést í stríðinu og nöfn þeirra eru öll á minnismerkinu.

En í Víetnam stríðinu dóu líka yfir 3 milljónir Víetnama, þar af 2 milljónir óbreyttra borgara. Ef það ætti að byggja sambærilegt minnismerki fyrir víetnömsk fórnarlömb, þá þyrfti það minnismerki að vera 52 sinnum stærra. Fórnirnar, sem víetnamska þjóðin þurfti að færa í stríðinu, eru með ólíkindum. Ekki bara dó þessi óheyrilegi fjöldi, heldur lögðu Bandaríkin áherslu á að eyðileggja sem mest í Víetnam. Valtað var yfir akra, hús og skóga. Eldsprengjum varpað til að taka skjól af Viet Cong skæruliðum, en um leið var óheyrilegu magni af skóg- og ræktarlandi eytt. Og ekki má gleyma gríðarlegu magni af "Agent Orange" eitri, sem var spreyjað yfir landið og olli því að þúsundir barna fæddust með alvarlega fæðingargalla í kjölfarið. Eitrinu var spreyjað á yfir 24 þúsund ferkílómetra svæði í Víetnam (alls um 45 milljón lítrar af eitri)!

Og allt til einskins. Norður-Víetnamar sigruðu á endanum hvort eð er eftir að Bandaríkjamenn höfðu gefist upp og farið heim. Stríðsmynjasafnið í HCM borg sýnir á nokkuð áhrifaríkan hátt örlítið brot af þeim ótrúlegu hörmungum, sem dundu yfir óbreytta borgara í Víetnam í stríðinu.

(Ekki það að Viet Cong hafi verið eitthvað skárri. Þeir tóku yfir Hué, borgina sem ég er í núna, í nokkrar vikur árið 1968 í Tet sókninni. Einsog kommúnistar víða um heim, þá voru þeir afskaplega viðkvæmir fyrir gagnrýni og gengu því hús úr húsi í leit að rúmlega 3.000 Víetnömum, sem voru þeim ekki þóknanlegir, og drápu þá.)


Á föstudaginn skoðaði ég svo Cu Chi göngin, sem eru við borgarmörk Saigon borgar. Þetta eru göng, sem Viet Cong hermenn bjuggu til til að verjast loftárásum Bandaríkjamanna. Alls eru göngin um 120 kílómetrar á lengd og ná allt að 8 metra niður í jörðina. Við skoðuðum nokkur op á göngunum og fengum svo að skríða í gegnum þau. Flestir í hópnum gáfust upp eftir smá spotta, en ég og einn þýskur gaur náðum að fylgja víetnömskum gæd alveg til enda, þrátt fyrir að hann færi hratt yfir og að við þyrftum að skríða á fjórum fótum stóran hluta leiðarinnar. Það þurfti ekki langan tíma í göngunum til að sannfæra mig ennfrekar um að starf námuverkamanna hlýtur að vera versta starf í heimi.


Á föstudagskvöld tók ég svo lestina frá Saigon upp til Nha Trang, alls um 14 klukkutíma ferð. Í Nha Trang skoðaði ég rústir hindúa musteris, fór á ströndina og eyddi svo kvöldinu faðmandi klósettið á hótelherberginu. Ástæðan fyrir því að ég er að fara nokkuð hratt yfir í norður-átt er aðallega leit mín að sólskini, en núna er rigningartímabil í Suður-Víetnam og Kambódíu og ég hef lítið séð til sólar. Það hefur heldur betur ræst úr því í Nha Trang og hérna í Hué. Seinni daginn í Nha Trang fór ég í bátsferð um eyjar í nágrenni borgarinnar, þar sem ég kafaði, lá á ströndinni og skemmti mér vel. Tók svo 12 tíma lestarferð hingað til Hué í morgun.

Skrifað í Hué, Víetnam klukkan 18.32

Inní­ Tuol Sleng fangelsinu


Ég inní Tuol Sleng fangelsinu illræmda í Phnom Penh, Kambódíu (smellið á myndina til að sjá hana í réttri stærð).

Nokkrar fleiri (sæmilegar) myndir frá Víetnam og Kambódíu eru komnar á þessa síðu. Það er ekki búin að vera sól síðustu daga, þannig að allar myndirnar eru frekar þungar og litlausar að mínu mati.

Já, og svo mega fleiri en Katrín kommenta á myndirnar mínar á Flickr (og líka á þessa síðu sko). 🙂

Suð-Austur Asíuferð 8: Nam

Víetnam, maður! Vá!

Ég efast um að það sé nokkur land í þessu heimi (utan Bandaríkjanna og Bretlands) sem ég hef séð jafnmargar kvikmyndir og lesið jafnmargar bækur um og Víetnam. Maður hefur heyrt þetta allt hundrað sinnum: Saigon, Mekong delta, My Lai, Ho Chi Minh, Khe Sanh, Viet Cong og svo framvegis og framvegis. En samt þá er þetta svo ótrúlega framandi, þar sem að langflestar myndirnar og bækurnar fjalla um stutt skeið í sögu þessa lands og þá aðeins með augum utanaðkomandi.

En, Nam! Núna get ég loksins sagt hluti einsog: "Þetta er nú ekkert miðað við það þegar ég var í Nam!

Víetnam er eitt af þessum löndum, sem ég hélt þegar ég var lítill, að ég myndi aldrei komast til. Allt, sem maður hafði lesið um það var að það væri lokað land, endalaus stríð og annað vesen. Þetta var svipað með Sovétríkin og því leið mér svo afskaplega undarlega þegar ég keyrði á taxa inní miðborg Moskvu.

Sama tilfinning kom yfir mig í gær. Ég hafði farið í rútu frá Mekong delta inn til Saigon. Svo á rútustöðinni fékk ég far með litlu mótorhjóli uppað hóteli. Þannig að um miðnætti í gær var ég á fleygiferð, á litlu mótorhjóli í sandölum og stuttbuxum, um breiðstræti Saigon borgar. Og ég fékk þessa æðislegu frelsis-tilfinningu sem ég fæ stundum á ferðalögum. Ég var bara einn og ég var búinn að gleyma öllum áhyggjum og naut þess bara að vera frjáls í algjörlega ókunnri borg. Yndisleg tilfinning.

(Borgin Saigon er í dag kölluð Ho Chi Minh borg, nafn sem a[ Norður-Víetnamar gáfu borginni eftir að hafa sigrað hana. En flestir kalla hana enn Saigon. Ég spurði rútubílsjórann í gær hvort rútan færi alla leið til Ho Chi Minh borgar. Hann sagði nei. Og svo stuttu seinna sagði hann: "en hún fer til Saigon".)


En allavegana, síðast þegar ég skrifaði var ég víst í Kampot í Kambódíu. Ég eyddi laugardagskvöldinu inná hótelherbergi að horfa á enska boltann og lofaði sjálfum mér að þetta yrði síðasta langa inniveran útaf þessum veikindum (sem ég er allavegana núna orðinn hress af). Á sunnudag fór ég svo í túr uppí Bokor þjóðgarðinn. Það var skrautlegt.

Fyrir það fyrsta, þá vissi ég auðvitað að ég ætti ekki að hlusta á blaðrið í sölumanninum, sem sagði eftir að hafa horft á himininn á laugardeginum, að hann ætti ekki von á rigningu daginn eftir. Ég hefði frekar átt að hlusta á skynsama Einar, sem sagði mér að hlusta á veðurfréttamenn, sem voru á sama tíma að segja mér að þessi endalausa rigning í Kambódíu væri útaf fellibyl, sem hafði skollið á strönd Víetnam sama dag og leifar hvers voru að skella á Kambódíu.

Sem þýðir að í túrnum uppí Bokor rigndi stanslaust. Sem væri í lagi ef að.

  1. Við hefðum ekki verið aftan á pallbíl með ekkert þak
  2. Vegurinn hefði ekki verið fullur af sprengigýgum
  3. 90% af sjarmanum við ferðina hefði ekki verið útsýnið, sem skýin gjörsamlega rústuðu.

Við keyrðum á 4 klukkutímum uppá fjall eftir versta vegi, sem ég hef nokkurn tímann keyrt á. Punktur! Í Lonely Planet er talað um vegakerfið í Kambódíu og bókarhöfundum tekst aðeins að finna tvö lönd í heiminum þar sem vegakerfin eru verri: Austur-Kongó og Mósambík. Ég hef ekki upplifað vegakerfin í þeim lönd. En Jedúddamía hvað þau þurfa að vera hræðileg til að toppa Kambódíu.

Vegurinn upp til Bokor er þó í sérklassa. Þegar Víetnamar réðust inní Kambódíu þá héldu Rauðu Khmerarnir sig í Bokor garðinum og komu fyrir sprengjum á veginum, sem ullu því að stór hluti af malbikinu er farinn og í stað þess komnir miklir gýgar á nokkurra metra fresti. Af einhverjum ástæðum hefur ENGUM dottið í hug að laga þetta.

Við sátum á trébekk aftan á pallbíl og hristumst svo svakalega að í lok dags var ég kominn með tvo marbletti á minn annars álitlega rass, og tvo marbletti á mjóbakið. Ég var algjörlega búinn. Þegar við komum uppá fjallið skoðuðum við yfirgefið franskt þorp, sem átti að vera hluti af pakkanum. Okkur var svo tjáð að vegna rigningar væri vegurinn uppað fossi, sem við áttum að skoða, lokaður (je ræt). Við fórum því aftur niður aðra fjóra klukkutíma í rigningunni. Þegar við komum svo niður tjáði gædinn okkur að skipstjórinn, sem ætlaði að sigla með okkur inní Kampot væri veikur (je rææææt) svo við misstum líka af þeim hluta ferðarinnar og vorum því bara keyrð uppá hótel.

Megi þetta túrfyrirtæki rotna í helvíti.


Ég tók svo daginn eftir rútu aftur til Phnom Penh. Kom þangað um eftirmiðdaginn og tékkaði mig inná sæmilegt hótel meðfram Tonlé Sap ánni. Fór svo á netkaffi þar sem ég fór að velta mér uppúr vandamálum heima fyrir og ákvað svo seinna um kvöldið að þar sem ég gæti ekki gert neitt gott með emailum og msn-um, þá myndi ég hætta að hafa áhyggjur af málum á Íslandi og einbeita mér að ferðalaginu mínu hérna. Það er vonandi að það virki. 🙂

Í gær tók ég svo bát frá Phnom Penh inní Víetnam. Þetta var lítill hraðbátur, sem sigldi niður Mekong ána alveg niður að Mekong Delta svæðinu og inní bæinn Chau Doc í Víetnam. Chau Doc er skrautlegur bær. Fyrir það fyrsta virtist vera kviknað í hálfum bænum þegar við sigldu að höfninni.

Þegar ég kom í land pantaði ég mér strax rútuferð til Ho Chi Minh borgar (Saigon). Til að ég gæti náð rútunni þá kom bíll að sækja mig á hótelið, en eftir 10 mínútur fengum við símtal þar sem bílstjórinn sagðist ekki komast. Þess vegna fór einhver strákur með mér í átt að bílnum. Þar blasti við mér undarleg sjón. Stærsta umferðarteppa, sem ég hef séð, og samt ekki einn einasti bíll í sjónmáli. Þetta voru bara mörg hundruð mótorhjól, reiðhjól og gangandi vegfarendur, sem virtust ætla að sameinast á einu torgi, en enginn komst neitt vegna mannmergðar. Mitt í allri þessari hrúgu var svo bíllinn, sem ætlaði að sækja mig, að reyna að bakka útúr þvögunni. Ég stökk uppí bíl og eftir að hafa næstum því keyrt á allavegana þrjú mótorhjól, þá tókst okkur að komast útúr þvögunni og áleiðis til Saigon.


Víetnam er 14. fjölmennasta þjóð í heimi með um 84 milljón íbúa. Breytingin frá Kambódíu er gríðarlega mikil. Víetnam er auðvitað ennþá að nafninu til sósíalistaríki, en þá eingöngu að nafninu til. Það mátti svo sem búast við því að hvað þróun varðar yrði allt skref upp frá Kambódíu, og það er raunin með Víetnam. Hérna er allt umtalsvert nútímalegra, fólk virðist hafa mun meira pening á milli handanna og hlutir einsog rusl á víðavangi eru ekki nærri því jafn algengir í Víetnam og í Kambódíu. Í raun virðist munurinn á þessum löndum vera miklu meiri en tölur um þjóðarframleiðslu gefa til kynna (þjóðarframleiðsla í Víetnam er 43% hærri en í Kambódíu) en þó ber að hafa í huga að ég hef bara skoðað smá hluta af Suður-Víetnam, sem hefur vanalega verið betur stæður en norður hlutinn.

Það fyrsta, sem ég tók eftir var þó (surprise!) að víetnamskar stelpur eru miklu mun sætari en stelpur í Kambódíu. Miðað við nágrannalönd þá eru Víetnamar og Kambódíumenn mjög ólíkir þar sem Khmerar í Kambódíu eru líkir Indverjum í útliti en Víetnamar líkari Kínverjum. En hvað sem það er, þá hef ég séð alveg heilan helling af sætum stelpum hérna í Víetnam (þjóðbúningur kvenna hérna er líka æði!). Megi þessi ánægjulega þróun halda áfram. Áfram sætar stelpur!


Það er þó varla hægt að tala um sætar stelpur hérna í Víetnam (og Kambódíu) án þess að tala um gamla kalla í sömu andrá. Það er nefnilega alveg ótrúlegt magn af ungum gullfallegum stelpum hérna (sem gætu margar eflaust verið 16 – ég á mjög erfitt með að greina á milli 16 og 25 ára víetnamskra stelpna), sem haldast í hendur með umtalsvert eldri karlmönnum frá Evrópu eða Bandaríkjunum. Í raun má segja að ferðalangar í Kambódíu hafi verið af þrennu tagi. Í fyrsta lagi hópferðalangar í Angkor Wat, en á öðrum stöðum voru það annars vegar ungir bakpokaferðalangar (sem ég hlýt að tilheyra) og hins vegar kallar með ungum og fallegum asískum stelpum.

Nú er mjög erfitt að berja í mig einhverjum femínisma eða brennandi áhuga á mansali, en þegar maður sér þetta svona á hverjum einasta degi þá hættir þetta að vera sniðugt. Kambódía er sérstaklega þekkt sem land þar sem menn geta nælt sér í stelpur allt niður í 13-14 ára gamlar. Það er hreinn viðbjóður.


Úff, þetta er orðið alltof langt. Ég sit hérna inná netkaffi með ískaldan Tiger bjór, sem hleypir þvílíkum krafti í mig. Verð að bíða með að segja frá labbi um Saigon í dag þangað til næst. Ég verð hérna í Saigon allavegana í tvo daga í viðbót.

Skrifað í Ho Chi Minh borg (Saigon), Víetnam klukkan 19.54)