Salsa!

Á meðan Emil félagi minn á Serrano var uppá fæðingardeild þar sem hann og Ella eignuðust litla stelpu (**til hamingju!!!**) var ég í fyrsta tímanum mínum á salsa námskeiði.

Ég er lengi búinn að ætla að fara á námskeið í salsa, en mig hefur alltaf vantað dansfélaga þangað til nú.

Ég lærði að dansa salsa og (aðallega) merengue þegar ég var skiptinemi í Venezuela. Systir mín í Venezuela kenndi mér þessa dansa á stofugólfinu í íbúðinni okkar í miðbæ Caracas. Hún var reyndar ekki mjög formleg í kennslunni, heldur fólst kennslan aðallega í því að kenna mér sveiflur og kalla á mig að hreyfa mjaðmirnar, sem er oftast aðalvandamál okkar hvítra karlmanna þegar við dönsum þessa dansa.

Ég sakna enn þann dag í dag partíanna í Venezula. Partí útí garði þar sem tónlistinn var sett á og allir dönsuðu allt kvöldið. Ég sakna líka ferðanna á klúbbana í Caracas þar sem maður dansaði allt kvöldið við venezúelskar stelpur, sem eru á eftir íslenskum stelpum fallegasti kvennahópur í heimi.

Danstíminn í gær opinberaði það nokkuð greinilega að ég er ekki jafngóður dansari og ég hélt. Ég var góður í því að fylgja eftir reyndum suður-amerískum stelpum, sem rifu mig áfram og stjórnuðu dansinum, enda fyllast þær vorkunnsemi þegar þær sjá ljóshærða stráka einsog mig, sem eiga erfitt með að hreyfa mjaðmirnar.

Núna í gær var ég með íslenskri stelpu, sem var óreynd í salsa og því var þetta miklu erfiðara fyrir mig, auk þess sem ég var ákveðnari í að læra réttu sporin og ruglaðist því miklu oftar en ég gerði á troðnu dansgólfi í Suður-Ameríku, þar sem ég spáði minna í sporunum.

En þetta kemur allt. Námskeiðið er 6 vikur og ég er viss um að við tvö eigum eftir að vera stórkostlegir dansarar þegar þetta er búið. 🙂

7 thoughts on “Salsa!”

  1. hahahah, ja thad er alveg otrulegt hvad manni finnst madur vera otrulega godur salsadansari a godum klubb, i midri sveiflu med godum partner.
    Frabaert hja ther ad fara a namskeid. Eg hef enn sem komid er latid thad naegja ad lata mexikonsku vinina kenna mer.

    En hvert fer madur a Islandi til thess ad dansa salsa a djamminu?

  2. >En hvert fer madur a Islandi til thess ad dansa salsa a djamminu?

    Ég veit það ekki enn. Við höfum áhyggjur af því þegar við erum búin á námskeiðinu. Efast um að það séu margir möguleikar.

  3. það eru einhver salsakvöld í alþjóðahúsinu.. ég veit þetta af því vinnukærastinn minn sem er alltaf að reynað kenna mér að dansa salsa á glerbrúnni og sagði mér þetta;)

  4. Ég er fyrrum Íslandsmeistari í samkvæmisdönsum þannig ég kann að hreyfa mjaðmirnar ágætlega. :biggrin: En salsa… er það ekki dansinn þar sem grunnurinn byggist á því að maður hreyfi fæturnar til hliðanna, til skiptis, og hreyfi mjaðmirnar með? :biggrin2:

  5. Frábær dans. 🙂 Haltu hiklaust áfram! En af hverju ekki að stíga skrefinu lengra og byrja í samkvæmisdönsum? Það er ekkert flottara en að geta tekið dömurnar í smá spinning á miðju dansgólfinu. Þá fyrst bíða dömurnar í röðum. 😀

Comments are closed.