*(Þessi færsla birtist líka á [Kratablogginu](http://nykratar.blog.is/blog/kratabloggid/))*
Við Íslendingar njótum þeirra “forréttinda” (kaldhæðni að hætti Davíðs) að hafa sennilega pólitískasta Seðlabankastjóra í heimi. Í flestum öðrum löndum er embætti Seðlabankastjóra virðingarstaða þar sem menn sitja sem njóta virðingar innan fjármálaheimsins, sem og meðal almennings. Oftast reyna menn að ráða í þetta starf menn sem eru yfir dægurþras hafnir og geti því gefið Seðlabanka landsins trausta ímynd.
Á Íslandi er þetta embætti hins vegar notað til að koma gömlum stjórnmálamönnum í þægilegar stöður. Gallinn við það fyrirkomulag er sá að seðlabankastjóri verður aldrei yfir dægurþras hafinn og traust almennings á bankanum verður minna. Nú er það til að mynda svo að núverandi Seðlabankastjóri getur lítið gagnrýnt hagstjórn einsog slíkir stjórar ættu að gera, án þess að gagnrýna um leið þá stefnu sem hann skapaði.
Davíð Oddson er líka enn stjórnmálamaður og sýna [afskaplega barnaleg ummæli hans í kvöldfréttum í gær](http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338035/3) það greinilega. Davíð segir:
>Það er nú bara þannig að sumir hafa verið að segja að við verðum að taka upp evru, annars verði hagvöxtur minni – ég hef heyrt suma snillingana segja það.
Þetta er alveg afskaplega hallærislegt. Fyrir þá sem heyrðu ekki viðtalið og geta ekki lesið kaldhæðnina útúr textanum, þá var það augljóst að með “snillingum” þá átti Davíð við að þarna væru vitleysingar að tala. Gleymum því hversu kjánalegt það er að Seðlabankastjóri skuli láta svona útúr sér og einbeitum okkur fyrst að því sem hann segir “snillingana” hafa sagt. Það er, að upptaka evru sé til að auka hagvöxt.
Nú hef ég fylgst ansi vel með umræðunni, en ég man hreinlega ekki hvar það er minnst á það að upptaka evru geti aukið hagvöxt.
Getur einhver bent mér á það hvaða “snillingur” sagði það og við hvaða tilefni?
Það er ekkert mál að vinna rökræður ef menn gera andstæðingum sínum upp skoðanir. Hagfræðingar hafa bent á ótal rök fyrir upptöku evru – og Davíð ætti frekar að eyða tíma sínum í að andmæla þeim í stað þess að gera þeim upp nýjar skoðanir.