Í morgun vaknaði ég svona rétt sæmilega hress, klæddi mig í íþróttagalla og hljóp niðrá Rauðarástíg þar sem ég sótti bílinn minn, sem ég hafði skilið þar eftir í gærkvöldi þar sem starfsfólkið á Serrano var að skemmta sér.
Allan þennan tíma, sem ég var að hlaupa, gerði ég mér enga grein fyrir því að samkvæmt einhverjum í þjóðfélaginu, þá upphófst stórkostleg hnignun í íslensku samfélagi í gær.
Jú, sjáið til – Hafnfirðingar ákváðu að leyfa ekki gríðarlega aukningu á stóriðju í sínu bæjarfélagi. Þeir ákváðu að þeir hefðu það ágætt og að ekki væri endalaust hægt að fórna náttúru landsins og öðrum lífgsæðum fyrir peninga. Þeir ákváðu að það væru aðrir hlutir sem þyrftu að huga að, þegar að stórar ákvarðanir eru teknar, fyrir utan fjármagn, hagvöxt og hag erlendra stórfyrirtækja.
Ég er ekki endilega að segja að ég sé sammála Hafnfirðingum. Ég frekar andvígur fleiri álverum, en þó hefur mér fundist þessi stækkun í Hafnarfirði vera einna skynsamlegust af þessum fjölmörgu álkostum, sem hafa verið í umræðunni, þar sem að í Hafnarfirði er um að ræða fyrirtæki sem hefur starfað hér lengi og væntanlega hagstæðara að hafa færri og stærri álver.
En Hafnfirðingar sögðu nei og ég skil það að mörgu leyti. Þeim var sagt að bærinn fengi 500 milljónir – um 300.000 á hvern íbúa – en þeir sögðu nei takk. Þeir ákváðu að það væri annað, sem væri mikilvægara. Þetta virðast sumir ekki geta skilið – þeir geta ekki skilið af hverju fólk ætti að kjósa útaf einhverju öðru en buddunni.
* * *
Svo virðist vera sem að fylgismenn ríkisstjórnarflokkanna séu alveg bandbrjálaðir útaf þessari höfnun. Ég veit ekki hvort að margir þeirra hafi verið að drekkja sorgum sínum í Campari í gærkvöldi, en ummælin á [moggablogginu](http://www.blog.is) eru mörg hver hreint mögnuð. Ég tók saman nokkur komment (feitletranir mínar).
* Já nú getur hnigunin hafist. Það verður aldrei neitt “alræði öreiganna” nema auka fátækt almennilega.
* En það góða er að nú geta Hafnfirðingar einbeitt sér að grænni framtíð í formi prjónaskapar og álíka iðnaði
* Stjórnmálamenn eru kosnir til þess að stjórna. Þegar þeirra nýtur ekki lengur við tekur múgur götunar að sér stjórnina.
* Nú hefur **lýðurinn** takið afstöðu og meirihlutinn vill ekki samþykkja stækkun álversins í Straumsvík. Mikið slys, líklega bara umhverfisslys.
* Sá hópurinn sem helst barðist **gegn** stækkuninni, sér heiminn rétt eins og félagi Davíðs fyrir westan. Sá heitir George Dobbljú Bush
* **þetta er svartasti dagur Íslandssögunar.**
* Jæja þá er það nú loksins staðfest að rétt rúmlega helmingur Hafnfirðinga eru Hálfvitar ef marka má þessa niðurstöðu úr álverskorsningunum.
* Að mínu mati er þetta mjög svo svartur dagur fyrir Hafnfirðinga því að þetta hefur ekki bara áhrif á álverið heldur MÖRG önnur fyrirtæki í HFJ sem að fara líklega á hausinn og **þetta gæti orðið til þess að Hafnarfjörður verði draugabær…**
* Þetta náttúrlulega gekk ekki lengur. Endalaus velmegun, vöxtur og hagsæld öllum til handa. Atvinnuleysistölur langt undir ?eðlilegum? mörkum. Það varð bara að koma böndum á framþróunina og það tókst. Til hamingju Hafnfirðingar!
* Álverið tapaði – fólkið í landinu tapaði.
Þetta er magnað. Ólíkt því sem hefur verið haldið fram á mörgum bloggsíðum, þá var ekki kosið um “framfarir” í gær. Það var kosið um **stækkun á álverksmiðju**. Fjölmargar aðrar þjóðir hafa búið við “framfarir” án þess að hafa til þess möguleika á að selja rafmagn á lágmarksverði. Þetta fólk hefur stuðlað að framförum með því að mennta íbúana og með því að búa svo í haginn í efnahagslífinu að heillandi sé fyrir einstaklinga að stofna fyrirtæki.
En á Íslandi virðast margir hægri menn telja að eina leiðin áfram sé með álbræðslu. Eina leiðin til “framfara” er sú að ríkið búi til einhverjar stórar hugmyndir um hvernig eigi að leysa öll vandamálin með pennastriki. Umræðin er orðinn einsog einhvers konar “bizarro world” þar sem upp er niður og hægri menn berjast fyrir stalinískum stóriðju”lausnum” á meðan að vinstri menn reyna að stoppa þá.
Þetta kemur líka að einhverju leyti fram hjá ungu fólki í dag. Það vilja allir vinna í bönkum, allir hjá stórfyrirtækjum. Ólíkt því sem er í Bandaríkjunum þar sem allir vilja sjálfstætt og “small business owner” er kóngur, þá er stórfyrirtækjum hampað á Íslandi. Það er hálfpartinn hallærislegt að vinna að einhverju litlu, og orðið athafnamaður hefur í margra huga frekar neikvæðar merkingar.
* * *
Það allra furðulegasta við þetta er þó sú krafa frá mörgum Sjálfstæðismönnum að aðrir flokkar skýri það út **hvað** eigi að koma í staðinn fyrir álver. Það er einsog að þetta fólk geri sér ekki grein fyrir því að það er ekki hlutverk stjórnmálaflokka í markaðshagkerfi, að finna upp atvinnugreinar til að skapa atvinnu útum allt land. Það er hlutverk ríkisvaldsins að skapa bestu hugsanlegu aðstæður til þess að einka-aðilar geti stofnað fyrirtæki og skapað atvinnu á landinu, en ríkið á ekki að búa til fyrirtækin og atvinnuna.
Það sem þetta fólk gleymir líka er að skýra út er hvað eigi að gera á eftir Húsavík. Ok, reddum Húsvíkingum með álveri. Þá erum við búin að redda tveim sveitarfélögum með álverum. En hvað eigum við svo að gera? Hvernig verksmiðjur eigum við að reisa þegar það koma upp vandamál á Ísafirði og á Höfn? Loðdýrarækt kannski?
Staðreyndin er auðvitað sú að það að nota nánast alla virkjanlega raforku á Íslandi í aðgerðir til að bjarga litlum sveitarfélögum útá landi er stórkostlega skammsýnt – og það að vera á móti því er ekki það sama og að vera á móti “framförum”. Nei, ég er ekki með neinar patent lausnir á þessum málum, enda hefur það enginn einn maður. Lausnin er að skapa hérna aðstæður til að fólkið geti bjargað sér sjálft. Að skapa hér aðstæður til þess að **einstaklingurinn** geti blómstrað. þar sem að lítil fyrirtæki geti tekið lán á **eðlilegum vöxtum** til þess að þeir geti komið hugmyndum sínum í framkvæmd. Meira að segja Davíð Oddson áttar sig á því að ef við viljum halda þessari þensluhvetjandi stóriðjustefnu áfram, þá mun það bitna á annarri uppbyggingu í landinu.
Nei, hugmyndir Ómars um eldfjallagarð eða einhver prjónastofa í Hafnarfirði, eða lítið fyrirtæki í ferðaþjónustu á Höfn, munu ekki koma í stað fyrir álver ein og sér. En ef að ríkið skapar aðstæður fyrir þessu fyrirtæki til að vaxa og dafna, þá getum við skapað hér fjölbreytt og áhugavert atvinnulíf, sem við getum verið stolt af. Atvinnulíf þar sem við getum ekki bara skilað hagsæld til næstu kynslóða, heldur líka stórum hluta af ósnertri náttúru landsins. Það væru svo sannarlega framfarir, sem við gætum öll verið stolt af.
Gæti ekki verið meira sammála, samt hef ég alltaf litið á mig sem hægri mann. Ég held það fari alveg saman að vera hægra megin við miðju og vera lítið spenntur fyrir frekari álvæðingu. Eða er ég kannski að misskilja eitthvað?
Nú er verður hins vegar spennandi að fylgjast með hvort kjörnir fulltrúar Hafnarfjarðar hafi bein í nefinu til að standa við þessa ákvörðun. Einnig hef ég enga trú á að málinu sé lokið að hálfu Alcan.
rosalega er ég hjartanlega sammála hverju einasta orði hjá þér..
Af biturri reynslu vitum við Austfirðingar, og fólk í öðrum landshlutum, alveg að “lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu” hafa ekki fúnkerað sérlega vel, enda ekki beint líf í ferðaþjónustu á Íslandi nema í rúma 2 mánuði á ári.
Ég vil alls, alls ekki gera lítið úr þeim sem styðja ekki stóriðju, en það er líka voðalega auðvelt fyrir Vinstri-Græna eða hverja sem er að segja “það verður að finna eitthvað annað að gera”, en ég held að ég hafi ekki enn heyrt eina hugmynd um hvað þetta “eitthvað annað” á að vera. Við vitum að hagfræðilega séð er hagstæðast að við séum öll fyrir sunnan, en fyrir okkur sem viljum vera í sveitinni, þá er frekar erfitt að lifa bara af loftinu og á því að selja hvort öðru pylsu og kók 🙂
Án stóriðju hefðum við t.d. ekki Bónus í fjórðungnum, sem þýddi að Samkaup væri eina verslunin, sem þýddi þrisvar sinnum hærra verð á nauðsynjavörum. Þess vegna væri ofsalega gott að vita (af því að við erum greinilega ekki nógu hugmyndarík) hvernig væri hægt að fara öðruvísi að þessu, en þannig að álíka þensla í atvinnu- og efnahagslífinu yrði á landsbyggðinni.
P.s. Ég er alls ekki að biðja þig um hugmyndir, bara að reyna að útskýra mitt sjónarmið 🙂
Bylgja: Ég held að þú horfir fram hjá því sem Einar er að segja. Þetta er ekki spurning um einhverja “lausn” handa ykkur fyrir austan (eða hverjum sem þarf næst). Heldur er það á ábyrgð okkar allra, með aðstoð þingmanna, að skapa aðstæður í þjóðfélaginu þar sem þið getið bjargað ykkur um nauðsynjar án þess að það þurfi að koma til “aðgerða”.
Þú svarar reyndar spurningu þinni sjálf. Það mætti spyrja svona: Hví datt engum í hug að opna verslun með ódýrum nauðsynjavörum? Fyrst þetta á annað borð skorti?
Einar: Mér sýnist þú heldur betur hafa náð þér út úr blogg krísunni þinni. Þetta er heldur betur hressandi lesning.
“Þetta kemur líka að einhverju leyti fram hjá ungu fólki í dag. Það vilja allir vinna í bönkum, allir hjá stórfyrirtækjum.”
það er líka svo seif! ég myndi ekki vilja vinna hjá litlu fyrirtæki og vera eitthvað í vafa hvort ég fengi borgað hver mánaðarmót..
slatti af fólki til í að taka þannig áhættu,.. en ég er amk ekki ein þeirra
Ég skil fyllilega að það á ekki að koma með lausnir handa okkur, enda er ég ekki að biðja um það, en þegar aðstæður bjóða hreinlega ekki upp á það, hvernig eigum við þá að geta bjargað okkur með þessu “einhverju öðru”?
Og í sambandi við verslanir, trúðu mér elsku kallinn minn, þetta hefur oft verið reynt, en hingað til hefur ekki verið hægt að halda úti slíkri verslun eða mörgum öðrum. Mikil fólksfjölgun síðustu misseri býður hins vegar upp á það. Þessi mikla fólksfjölgun er tilkomin vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi.
Ég vil svo sannarlega ekki fara að rífast um virkjanir og umhverfisvernd, enda hef ég svosem enga sérstaka skoðun á þeim hlutum. Það sem ég hins vegar sé er hvernig bærinn minn og nágrannasveitarfélög hafa blómstrað gríðarlega núna nýlega, og fyrir það er ég virkilega þakklát þeim sem ruddu þessari virkjun í gegnum kerfið 🙂
Þið eruð svo öll velkomin á Hérað í sumar, ég skal persónulega fara með ykkur í frækilegan túr um svæðið allt.
Afar vel mælt Einar. Þessi patentlausna/stóriðjufíkn okkar svokölluðu hægrimanna er úr sér gengin og ótrúleg. Það verður forvitnilegt að heyra hvað þessir svartsýnismenn hafa að segja um Hafnarfjörð eftir 10 ár eða 15. Þeir láta eins og það sé bara annað hvort Álver eða ekki neitt í heiminum. Það er bara hreinlega feykinóg af tækifærum. Svona hugsunarháttur var ríkjandi meðal þeirra sem vildu ekki afnema þrælahald í Suðurríkjunum á sínum tíma, vegna þess að ef engir þrælar myndu vinna vinnuna, þá væri bara einfaldlega ekki hægt að lifa. En fólkið lifir enn…
Þetta svartagallstal er allavegana ekki til þess fallið að bæta ástandið hér á landi eða skapa tækifæri. Svartsýnismenn sem þessir skapa sína eigin ógæfu með svona tali og svona hugarfari.
Góður pistill Einar.
Bestu kveðjur,
Svavar
Bylgja segir:
>Af biturri reynslu vitum við Austfirðingar, og fólk í öðrum landshlutum, alveg að “lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu” hafa ekki fúnkerað sérlega vel, enda ekki beint líf í ferðaþjónustu á Íslandi nema í rúma 2 mánuði á ári.
Tveir punktar varðandi þetta:
1. Vandamálið er væntanlega partur af því sem ég var að tala um – það hefur ekki verið skapaður rekstrargrundvöllur fyrir ferðaþjónustu fyrirtæki. Til dæmis hefur rokkið á gengi krónunnar haft slæm áhrif.
2. Ok, en hvað á að gera þegar að næsta bæjarfélag lendir í vandærðum. Núna eru allir með þessa stórkostlegu ál-hugmynd og heimta (ekki þú, ég veit) að fá aðrar tillögur í stað áls. En hvað gerist þegar að xD+xB eru búin að byggja öll álver, sem við getum gert – hvað eigum við þá að gera við næsta byggðarvanda?
Katrín, ég var ekki að tala um vinnu hjá stórfyrirtækjum vs. litlum, heldur vinnu hjá stórfyrirtækjum vs. það að **stofna** lítið fyrirtæki. Þetta var kannski ekki nógu skýrt hjá mér.
Takk, Borgar, Svavar og Elín. 🙂
iss, þá verðum við öll löngu dauð hvort eð er og þetta verður ekkert vandamál 🙂
Neinei, ég veit alveg að það vantar patent lausn á byggðavandann okkar. Það eina sem ég vildi ná fram hér er að það er voðalega auðvelt að vera þingmaður í Reykjavík, pota puttanum á landakortið og segja “neinei, það verður að finna eitthvað annað,” en á meðan bíður fólk og vonar að þetta “eitthvað annað” detti inn. Ég held að flestir reyni nú að bjarga sér og sumir lifa bara mjög góðu lífi með fyrirtækin sín, en ómenntað fólk t.d. á sér ekki viðreisnar von þegar frystihús loka í hrönnum, búðir og bensínstöðvar loka vegna fólksfækkunar o.þ.h. Fleiri, fleiri, fleiri fyrirtæki hafa opnað hér og lokað frá því að ég man eftir mér (og er ég þó ekki nema 27), af því að það ber sig ekkert fyrirtæki með örfáa viðskiptavini.
Í sambandi við ferðaþjónustuna, þá er hún í blússandi gangi í 2 mánuði á ári hérna megin lands. Yfir vetrarmánuðina er auðvitað erfitt að stóla á bæði flugsamgöngur og annað og því verður ansi margt að gerast til að fleiri en x margir geti lifað af henni einni saman.
Þú veist líka að þegar hefur verið reynt að flytja hluta fyrirtækja út á land (118 bæði hingað og á Ísafjörð, ef ég man rétt, o.þ.h.) þá hefur það yfirleitt ekki borgað sig og allt batteríið verið flutt aftur suður eftir stuttan tíma.
Allavega, ég nenni svo sannarlega ekki að standa í einhverju internetrifrildi útaf þessu öllu saman,enda er ég hvorki hagfræðingur né sérstakur spekingur í þessu, vildi bara minna á að það er alvöru fólk hérna í sveitinni, það vill stundum gleymast í öllum hamaganginum 🙂
Takk svo kærlega fyrir að halda úti skemmtilegri síðu, þú ert alveg einn af uppáhalds!
Ég skil þetta sjónarmið mjög vel, Bylgja – eða allavegana tel mig skilja það – hef auðvitað ekki upplifað það að búa í svona litlum bæjarfélögum.
Það er einfaldlega spurning hvort hægt sé yfir höfuð að halda uppi fullri atvinnu í öllum litlu bæjunum útum allt land – getum við haft hagkerfi þar sem allir eru jafn ánægðir, hvort sem þeir eru í 200.000 manna borg eða þá í 500 manna þorpi – en það er umræða, sem enginn stjórnmálamaður þorir í.
En málið er bara að álið leysir bara tímabundið vandamál á einum stað. Svipað einsog loðdýrarækt og laxeldi átti að redda öllu fyrir nokkrum árum. Svo ef að heimsmarkaðsverð á áli lækkar, þá eru heilu byggðarlögin búin að leggja **allt** undir fyrir eina tegund af málmi – og hvað gera menn þá? Hvað gera menn ef þeir þurfa að stækka enn meira og raforkarn er ekki fyrir hendi?
Og hvað gera menn í hinum byggðarlögunum sem hafa ekki raforku til að byggja álver? Hvað gerum við þar? Þetta voru þeir punktar, sem ég vildi velta upp.
Og takk fyrir hrósið. Þetta lít ég ekki á sem rifrildi, enda ert þú að tala um þetta á rólegum og skynsamlegum nótum, ólíkt fólkinu á moggablogginu. 🙂