Einhvern tímann þarf einhver fróður einstaklingur að útskýra fyrir mér hvernig fólk, sem reykir ekki, getur lifað af inná Ölstofunni í meira en klukkutíma. Eflaust er ég frekar viðkvæmur fyrir sígarettureyk. Aldrei hefði mér dottið það í hug að það að koma inná Vegamót væri frískandi, en ég upplifði það í gær.
Ég var í útgáfupartíi hjá UJ í gær. Vegna [brunans](http://mbl.is/frimg/4/26/426440A.jpg) var partíið fært af Hressó yfir í Landsímahúsið, þar sem Samfylkingin er með kosningaskrifstofu. Þar var ég í bjór með góðu fólki til klukkan 2, þegar við fórum 3 saman uppá Ölstofuna. Þar þraukaði ég í næstum því 2 tíma áður en við fórum yfir á Vegamót. Hitti fulltaf skemmtilegu fólki og þar á meðal vinkonu mína sem ég hef ekki hitt svo hressa á djamminu í mörg ár.
Var samt ekki fullur, enda hefur bjór frekar sljóvgandi áhrif á mig en örvandi. Jú, og ég hafði ekki kjark í mér til að tala við dökkhærðu stelpuna sem ég hef séð þarna í nokkur skipti og mér finnst svo ótrúlega sæt. Furðulegt hvernig sumt fólk hefur áhrif á mann.
Labbaði svo heim, enda var ég nógu skynsamur að vera í þykku úlpunni minni með ipod í vasanum. Það var æðislegt að labba meðfram tjörninni í morgunbirtunni með Postal Service í eyrunum á fyrsta degi sumars. Stundum er Reykjavík einfaldlega yndisleg.
* * *
Í morgun var ég svo vakinn af Emil vini mínum og Serrano meðeiganda (sem finnur það á sér þegar ég er þunnur og hringir umsvifalaust í mig) og svo hálftíma seinna af heilli lúðrasveit, sem var að marsera hérna í Vesturbænum. Ég vildi að ég gæti sagt að það hafi verið hressandi.
Ég er svo heppinn að búa við hliðiná einni vinsælustu ísbúð landsins. Það hljómar ótrúlega spennandi, en er það varla. Það er svo fáránlega mikið að gera í búðinni að ég gefst oftast uppá biðinni. Mér finnst eitthvað stjarnfræðilega vitlaust við það að bíða í biðröð **úti** í frosti eftir því að komast inn og fá ís. En ég fékk mér samt ís í dag, enda er betra þynnkumeðal vandfundið.
Þetta er lítil, skrýtin eyja.
Nú vaknar upp sú spurning hvort þú sért lítill skrýtinn karl.
Af hverju vaknar upp sú spurning?
Ég hef nákvæmlega pælt í þessu með Ölstofuna líka. Ég þoli ekki sígarettureyk en einhvern veginn get ég verið endalaust þarna inni, eða svona nánast. Það bregst þó ekki að alltaf þegar ég fer á Ölstofuna þá hittir maður ótrúlega skemmtilegt fólk, oftar en ekki UJ-ara. Samræðurnar sem maður á inná þessari Reykstofu eru því afar skemmtilegar og mun skemmtilegri en það að hanga á stað þar sem tónlistin kemur í veg fyrir það að maður geti átt samræður við fólk. Maður lætur sig því hafa það að eftir klukkutíma eða tvo hættir maður að sjá viðkomandi og eftir þrjá tíma er maður farinn að tárast…
Ætli maður verði ánægðari þegar Ölstofan verður orðin reyklaus?
Já, auðvitað er það félagsskapurinn sem skapar staðinn. En ég bara höndla ekki þennan reyk.
Get frekar hugsað mér að fara þangað eftir 1.júní.
Jú, svo mættu vera fleiri sætar stelpur þarna inni. There, I said it. Þið megið núna byrja að hneykslast.
Þá er nú skiljanlegt að þú farir á Vegamót… er það ekki aðaltúttupleisið? 😉
Mér finnst nú yfirleitt alveg þokkalegt úrval af fallegum karlmönnum þarna inni, kannski af því að UJ sækir svona mikið í staðinn… en það er líka fjandanum nóg af gömlum perrum og einhleypum sem gera manni stundum lífið leitt.
Jú, það er meira af fallegu kvenfólki á Vegamótum.