Gærdagurinn

Úff!

Ég trúi ekki að þessi blessaða ríkisstjórn hafi haldið velli. Þessi kosningavaka var eiginlega of mögnuð.

Gærdagurinn var annars frábærlega skemmtilegur. Ég byrjaði um morguninn á því að fara í líkamsrækt. Þegar ég var svo staddur í umferðarteppu í miðbænum útaf því að Risessan var í sturtu, þá fékk ég símtal og var beðinn um að koma í fótbolta líka. Sem ég gerði. Kom heim í 5 mínútur og dreif mig svo útí Hagaskóla þar sem ég kaus Samfylkinguna.

Kíkti svo við uppí kartöflugeymslur þar sem útskriftarsýning LHÍ var í gangi. Þórdís vinkona mín og snillingur var þar með verk á sýningunni. Ákvað síðan að fara uppá Serrano og hjálpaði þar til í nokkra tíma. Kom svo heim þar sem ég var með partí fyrir fólk í stjórn UJR þar sem við horfðum á Eurovision með öðru auganu og ræddum um kosningarnar. Síðan rétt fyrir 10 var farið á kosningavöku Samfylkingarinnar á Grand Hótel og þar var ég til klukkan 4.

Þessi kosningavaka var alveg mögnuð. Ég skemmti mér stórkostlega og spennan var á tímabili óbærileg. Gleðin í upphafi var gríðarleg, en þegar á leið kvöldið varð þetta verra, svo betra, svo verra, svo betra og svo verra aftur. Ég var orðinn hálf ruglaður á að líta reglulega á sjónvarpið og sjá að Gummi Steingríms var inni, svo út, svo inni. Ríkisstjórnin hélt, svo féll hún og svo hélt hún aftur. Um fjögur leytið var ég búinn að fá nóg og dró nokkra með mér niðrí bæ þar sem ég eyddi restinni af kvöldinu á Ölstofunni. Frábærlega skemmtilegt kvöld.

* * *

Hvað varðar árangur okkar jafnaðarmanna, þá er ég auðvitað ekkert sérstaklega sáttur við allt. Ég er stoltur við mín verk í kosningabaráttunni og við þá útgáfu sem ég kom nálægt. Við í UJ rákum málefnalega baráttu. Engar auglýsingar með áróðri gegn mótherjum okkar einsog hjá Framsókn og einnig ekki stanslaus hræðsluáróður, einsog Mogginn og Sjálfstæðismenn stóðu fyrir síðustu dagana. Og það má segja að kosningabaráttan hafi virkað. Í kringum landsfundinn vorum við minni en Vinstri Græn, en endum núna rúmum mánuði seinna sem nærri tvöfalt stærri flokkur. Allt tal um að Samfylkingin sé misheppnuð eða e-ð slíkt er auðvitað bara froða. Við erum næst stærsti flokkur landsins og eini flokkurinn, sem getur ógnað einokum Sjálfstæðismanna.

Þetta var að mörgu leyti erfið barátta og hart sótt að flokknum. Og ekki hjálpar það til þegar að guðfaðir flokksins og fyrrverandi pólitískt átrúnaðargoð mitt og ansi margs fólks í ungliðahreyfingunni var farinn að hvetja fólk til að kjósa Íslandshreyfinguna! Ég er á því að það fylgi þess flokks hafi aðallega komið frá Samfylkingunni, enda var stefnuskráin nánast ljósrit af stefnu Samfylkingarinnar. Munurinn á stefnunni var sá að í Samfylkingunni er líka fólk úti á landi, sem vill stóriðju, en Íslandshreyfingin komst hjá því vandamáli með því að hafa engan stuðning útá landi yfir höfuð.

Í gær leit á tímabili út fyrir að það yrði ekki mynduð ríkisstjórn án Samfylkingar, en þessi lokasprettur Sjálfstæðismanna opnaði á tvo nýja möguleika þar sem að ríkisstjórnin hélt og Sjálfstæðisflokkurinn varð nógu sterkur til þess að ríkisstjórn Sjálfstæðismanna og VG yrði raunhæfur möguleiki.

Enn trúi ég samt ekki öðru en að Samfylkingin verði í ríkisstjórn. Ég neita að trúa því fyrr en ég sé það að ríkisstjórnin ætli að stjórna hérna áfram með minnihluta stuðning þjóðarinnar. Ef við notum svipaðar reiknikúnstir og Sjálfstæðismenn notuðu eftir síðustu forsetakosningar, þá má segja að aðeins 40% þjóðarinnar hafi stutt ríkisstjórnarflokkana. Og einnig trúi ég því varla að VG og xD myndi stjórn. Hver yrði stefna þeirrar stjórnar í einkavæðingarmálum, heilbrigðismálum, utanríkismálum og svo framvegis? Einu raunhæfu kostirnir eru Viðreisn eða R-lista stjórn. Ég vil auðvitað sjá Viðreisn, þar sem hún væri líklegri til að koma í gegn þeim málum sem eru mér hugfangin, en að mörgu leyti tel ég að R-lista stjórn væri betri kostur fyrir flokkinn.

En allavegana einsog ég sagði þá er ég stoltur af því í dag að vera jafnaðarmaður og af því að styðja Samfylkinguna. Það var frábært að standa með þessu fólki í gær og ég er staðráðinn í að gera mitt besta til þess að flokkurinn verði enn sterkari í framtíðinni. Sambland af andlegri og líkamlegri þynnku og spennufalli gærkvöldsins breytir engu þar um.

* * *

p.s. Getur einhver sagt mér af hverju Hannes Hólmsteinn er fenginn í sjónvarpsviðtöl? Í dag endurtók hann í sífellu þvælu um að Norræna velferðarmódelið stuðli að stöðnun í efnahagslífinu og blah blah blah. Þvílík ótrúlegt kjaftæði. Og máli sínu til stuðnings laug hann því að atvinnuleysi í Svíþjóð væri 15%. Það þarf einhver að benda prófessor Hannesi á að atvinnuleysi í Svíþjóð er ekki 15%, heldur 6,7%. Á því er talsverður munur. En Hannes er sennilega ekkert alltof hrifinn af staðreyndum og eina leiðin til að styðja undir auman málstað er að fara með ósatt mál.

4 thoughts on “Gærdagurinn”

  1. Frábær pistill…
    Magnað hvernig sjallar tala um stórkostlegan sigur, þegar þeir ná rétt rúmlega því sama og fyrir fjórum árum – sem var einmitt hrikalegur árangur. Merkilegt.
    Ég hefði svo viljað sjá Gumma og Róbert á þingi.. en við verðum víst að bíða í 4 ár eftir því – nú eða skemur 😉

  2. Takk.

    Jammm, það hefði verið gott ef Gummi og Róbert hefðu verið inni. Ég er á því að það hefði átt að hætta talningu eftir fyrstu tölur. 🙂

  3. Góður pistill.

    Ég vil D og S í ríkisstjórn. Það yrði sterkasta stjórnin og góður málefnalegur grundvöllur og vel það.

    D á að vera í stjórn, það er deginum ljósara sama hvað hver segir finnst mér. Ég ætlaði ekki að trúa því að D bætti við sig þingmönnum eftir allan þennan tíma í ríkisstjórn. Geir er bara gúddí gæi eins og Guðfríður Lilja orðaði það í Silfrinu.

    Hannes var látin hverfa í kosningabaráttunni svipað og Árni Johnsen á landsvísu. Góð ástæða fyrir því, maðurinn er snælduklikk.

  4. Einsog bent var á í kommenti hjá Hagnaðinum þá beisiklí getur Íhaldið valið um tvennt. Stjórn með S, sem getur komið erfiðum framfaramálum í gegn og líka lyft upp Ingibjörgu Sólrúnu.

    Eða þeir geta farið í auma ríkisstjórn með framsókn sem verður í gíslingu hvers einasta þingmanns. Og sett stórt spurningarmerki við framtíð Ingibjargar.

    Ég held einfaldlega að óbeit Sjálfstæðismanna á Ingibjörgu sé sterkari en vilji þeirra til þess að beita sér fyrir framförum á Íslandi.

Comments are closed.