Apple dót

Apple voru í dag að kynna nýja línu af iPod-um. Það hlýtur að vera merki um það hversu ánægður ég er með Apple vörurnar mínar í dag að ég hef getað horft á síðustu Apple kynningar án þess að fá í magann af spenningi fyrir því að panta mér strax nýtt dót. Þrátt fyrir að nýju vörurnar séu flottar, þá sé ég bara litla ástæðu til að uppfæra.

Í dag á ég tvo iPod-a.  Einn lítinn Nano, sem ég nota í ræktinni og svo 80gb iPod, sem ég nota í bílnum og á ferðalögum. Svo á ég ársgamla MacBook Pro og 3 ára gamla iMac. Ég veit að þetta hljómar fáránlega mikið, en fyrir barnlausan Apple aðdáanda þá er þetta ekki svo svakalegt og auk þess eru vörurnar flestar komnar til ára sinna. iPod-arnir eru 2 ára gamlir og iMacinn 3 ára. Þrátt fyrir að nýju vörurnar séu alveg lygilega flottar, þá er það merki um hversu mikið tækninni hefur farið fram að undanförnu að ég er sáttur við tækin mín í lengri tíma en áður tíðkaðist.

Það hefur til að mynda ekkert komið fram í fartölvum síðasta árið, sem gæti sannfært mig um að skipta um tölvu.

Allavegana, nýju iPod-arnir eru rosalega flottir, sérstaklega iPod Touch, sem er einsog iPhone án síma. Ég hugsa þó að ég bíði enn um sinn eftir því að iPhone komi til Evrópu. Ég sé einfaldlega ekki nein sérstök not fyrir iPod Touch. Ég nota iPod-a í ræktinni og í bílnum og Touch gagnast mér á hvorugum staðnum. Ég hugsa þó að ég uppfæri Nano-inn minn í nýjan 8gb Nano á næstunni. Ætli ég láti það ekki duga þangað til að ég geti keypt 3G 16gb iPhone einhvers staðar í Evrópu fyrir jólin. Þá verður sko tækjafíkn minni svalað, allavegana í nokkra mánuði.

5 thoughts on “Apple dót”

  1. Verslaði mér 8gb iPod Nano í Dixons á Heathrow í apríl, svínvirkar, snilldargræja.

Comments are closed.