Punktablogg helgarinnar

Jammmm.

  • Á Vegamótum á laugardagskvöldið hitti ég stelpu, sem ég kannast við, sem var að reyna að koma mér saman við vinkonu sína. Það eina, sem hún taldi upp sem kosti (vissulega á afar stuttum tíma) var vinnan sem stelpan var í. Ég held að það hafi aldrei gerst áður að starfstitill hafi verið nefndur sem kostur við stelpu við mig.
  • Ef ég er einn heima og hef frítíma (sem gerist reyndar ekki oft þessa dagana), þá eru svona 85% líkur á því að ég sé að spila Super Mario Galaxy, sem er einmitt besti tölvuleikur sem ég hef spilað í langan, langan tíma.
  • Á Kaffibarnum var ég að bíða eftir klósetti á meðan að par var að athafna sig þar inni. Næsti gaurinn í röðinni spurði hvort ég ætlaði bara að pissa eða hvort ég ætlaði líka að fá mér línu. Ég sagðist bara þurfa að pissa. Ógeðslega glatað!
  • Síðasta lagið eftir lokun á Vegamótum var Heartbeats með Jose Gonzalez, sem ég hafði ekki hlustað á í einhvern tíma. Mikið afskaplega er það æðislegt lag.
  • Er þetta veður eitthvað grín?
  • Hérna er skemmtileg síða með allskonar topplistum ársins að mati Time.
  • Hjá Dr. Gunna var Arcade Fire með plötu ársins. Ég kemst ekki yfir það að mér finnst þessi plata með þeim vera hundleiðinleg og þó dýrkaði ég frumraun þeirra. Ég kem auðvitað með minn lista um áramótin, en þetta verður val á milli LCD, Kanye, Okkervil, Radiohead og Jensa Lekman.

Svo mörg voru þau orð.

13 thoughts on “Punktablogg helgarinnar”

  1. Ég væri líka til í að vita hvar hún vinnur. Er nefnilega að pæla hvort hvort ég eigi að segja minni upp, hún er nefnilega bara lyfjafræðingur hjá Actavis.

  2. Hefði stelpa verið fyrir aftan þig í röðinni, hefði verið viðeigandi að spyrja: “Erum við næst?”

  3. Mér finnst svo fyndið að þú skulir vera hissa á því að hún skuli hafa tilkynnt við hvað vinkona hennar starfar. Við vinkonurnar gerum alveg kröfur við hvað strákar starfa sem við erum að kynnast eða deita. Ekki viljum við vera að deita einhverja sem hafa hvorki metnað né áhuga á að standa sig vel í skóla eða vinnu, því við leggjum áherslu á það.
    Við höfum alveg kynnst gaurum sem hafa verið í ömurlegum vinnum og ég get alveg viðurkennt að það hefur verið til þess að við hættum að deita þá, svipað eins og með gaura sem hringja sig inn veika og eru svo ekkert veikir.
    Ég held allavega að allir spá í þessu, þó svo að kannski þetta sé ekki það fyrsta sem maður auglýsir eða spyr eftir.
    Annars skemmtilegt blogg hjá þér : )

  4. Nei, ég var svo sem ekkert svo ótrúlega hissa. Þetta var bara svo örstutt kynning og þetta var beisiklí það eina sem kom fram – það er hvað hún vann. Fannst það skrýtið að það væri það eina sem kom fra. Þetta er í fyrsta skipti sem ég læri starfsheiti stelpu á skemmtistað áður en ég læri nafnið.

    Ég hef alveg staðið mig að því að spyrja mig að því hversu miklu starfið skiptir. Maður spáði kannski ekki í þessu þegar að maður var 17, en maður gerir það vissulega í dag.

    Það er hins vegar pottþétt að ég geri það ekki út frá peningaforsendum einsog margir gera eflaust, heldur eingöngu út frá því hvað starfið segir mér um persónuleikann.

    Ég hefði allavegana haldið það sjálfur að það gerði mig að fýsilegri í augum stelpna að ég sé í góðri stöðu. En að mínu mati verður allt svona að vera á réttum forsendum, sem ég held reyndar að þessi kynning á Vegamótum hafi verið (það er til að gefa í skyn að þetta væri sjálfstæð og klár stelpa).

    Hins vegar ef einhver kynnir sig t.d. sem verðbréfamiðlara hjá Kaupþingi, þá finnst mér líklegra að það sé verið að gefa það í skyn að viðkomandi hafi hærri tekjur og sé þess vegna fýsilegri kostur. Ég hefði viljað að ég væri hærra metinn útaf stöðu minni vegna þess að hún sýni fram á að ég sé metnaðarfullur, duglegur og sjálfstæður – ekki vegna þess að launin mín séu hærri.

    Þannig að já, ég spái í því hvað stelpur gera. En þar myndu tekjur alls ekki skipta máli. Mér finndist miklu meira spennandi að vera með stelpu, sem væri að fylgja eftir sínum draumum eða væri að starfa sjálfstætt, í stað þess að vera með stelpu sem vinnur í banka vegna þess að þar séu launin svo há eða vegna þess að allir aðrir gera það. Jafnvel þótt fyrri típan væri á margfalt lægri launum en sú síðari.

    (Og nei, enn og aftur – hef ekkert á móti bankastarfsmönnum, tek það bara sem dæmi um hálaunastétt hér).

  5. Já alveg sammála : )
    Ég var heldur alls ekki að meina tekjulega séð, svo er það nú annað… okkur stelpunum finnst það nú oft að við “megum heldur ekki” vera of sjálfstæðar eða að meika það einar… í augum karlmanna, því þá séum við að gefa það í skyn að við þurfum ekki á karlmönnum að halda, og það þykir nú mörgum fráhrindandi !!
    Þetta eru engar ýkjur, við höfum heyrt þetta beint og óbeint, hvort sem það er á djamminu eða á deiti.

  6. Vá, það er magnað.

    Mér finnst það einmitt mikill kostur að vita að stelpan þolir það að vera ein (sem einmitt mjög margar stelpur, sem ég kannast við, þola ekki), því það þýðir þá að ef þær enda í sambandi með mér þá hafa þær væntanlega áhuga á því að vera með mér, en eru ekki bara í sambandi af því að þær þola ekki að vera einar.

Comments are closed.