Síðustu dagar eru búnir að vera afskaplega skemmtilegir. Mér finnst þó alltaf fínt að koma í vinnu eftir át og leti-tíma.
Ég fór á mjög skemmtilegt djamm á laugardaginn. Byrjaði í jólagleði UJ, sem var frábær skemmtun, fór svo á Vegamót með vinum mínum þar sem ég skemmti mér með góðu fólki og endaði svo á Ölstofunni í skemmtilegum samræðum um sjálfan mig og loks í eftirpartí.
Fór að sofa um 7 leytið en var samt mættur í brunch hjá bróður mínum klukkan 11. Um eftirmiðdaginn komu vinir mínir í heimsókn að horfa á hrikalega frústrerandi jafntefli hjá Liverpool – og svo um kvöldið var ég með ansi skemmtilegt spilakvöld með vinum mínum.
* * *
Gamlárskvöld var svo frábært. Ég byrjaði heima hjá systur minni í frábærum mat og fór svo heim til mömmu og pabba þar sem var skotið upp flugeldum. Upplifði það meðal annars að fá tvær stórar rakettur til að springa í nokkura metra fjarlægð frá mér. Fyrst tókst bróður mínum að festa stærsta flugeld kvöldsins svo kyrfilega, að eftir að ég kveikti í honum, þá tókst hann ekki á loft. Þegar ég sá að hann hreyfðist ekki hljóp ég inní bílskúr og slapp við að fá þetta framan í mig.
Svo þegar ég og frændi minn vorum að kveikja á einni tertunni þá fór flugeldur frá nágrönnunum á hliðina, dúndraðist á tré og sprakk þar rétt hjá okkur. Mjög hressandi allt saman.
Eftir að hafa drukkið kampavín inní húsi fór ég svo í partí niðrí miðbæ. Þar var gríðarlega gaman. Ég þekkti fáa í partíinu, en það kom ekki að sök, því að ég kynntist mjög skemmtilegu fólki á staðnum. Um 5 leytið fór ég með tveimur vinum á Prikið þar sem við vorum í einhvern smá tíma áður en við fórum aftur í partíið þar sem ég var til klukkan 9. Og það þrátt fyrir að vera nokkurn veginn edrú. Frábært kvöld.
* * *
Gærdagurinn fór svo í það að snúa sólahringnum aftur við. Horfði á Ratatouille, sem var mjög góð en kannski ekki jafn stórkostleg og [Metacritic dómarnir gáfu í skyn](http://www.metacritic.com/film/titles/ratatouille?q=ratatouille), borðaði nammi og svaf heil ósköp.
En jæja, þá tekur víst alvaran við.
Heppinn að sleppa við þetta krakkafár á Broadway.