Þetta er helvíti sniðugt.
* * *
Ég er furðu hress núna miðað við að hafa ekki farið að sofa fyrr en klukkan 6 í morgun. Var í algjörlega frábæru innflutningspartíi í gær og fór svo niðrí bæ með skemmtilegu fólki þar sem ég var fram eftir morgni. Frosnaði svo næstum því í hel hlaupandi heim. Ég var í jakka, með trefil og vettlinga en mætti akkúrat á leiðinni strák í stuttermabol. Ég á oft bágt með að skilja klæðaburð íslenskra karlmanna á djamminu.
* * *
Ég skrifaði aldrei um Liverpool ferðina sem ég fór í með vinum mínum í janúar. Sú ferð var algjörlega frábær. Auðvitað var leikurinn skemmtilegur og allt í kringum það, en einnig var það frábært að fara útað skemmta sér með vinahóp sem er ekki beint sá virkasti á djamminu lengur.
Þar sem ég skrifaði aldrei um ferðina þá skrifaði ég aldrei um aðdáun mína á bresku kvenfólki. Líkt og margir íslenskir karlmenn, þá virðast breskar stelpur einmitt þola allt veður. Við vorum þarna í janúar í reyndar nokkuð góðu janúar veðri. En um kvöldið var nokkuð kalt og ég fór um djammið í úlpu. Norður-ensku stelpurnar voru hins vegar allar klæddar einsog þær væru á strandbar í karabíska hafinu. Þær voru nánast án undantekningar í pilsum og ég sá varla nokkra stelpu í jakka eða nokkurri yfirhöfn.
Ég er ofboðslega veikur fyrir pilsum og því var ég nokkuð hrifinn af stelpunum í Liverpool einsog ég hef reyndar komið inná áður. Þessir fordómar Íslendinga gagnvart bresku kvenfólki eiga sér oft litla stoð í raunveruleikanum.
* * *
Ég fór líka á djammið á miðvikudaginn og held að þetta sé orðið ágætt í þessu páskafríi. Á morgun er auðvitað stórleikur í enska boltanum og ég skrifaði í gær heillanga upphitun fyrir hann. Á mánudaginn er ég svo að vonast til að komast á bretti. Talandi um Liverpool bloggið þá minnir mig að í gær hafi strákur kysst mig á 11-unni fyrir það að vera með bloggið. Það er án efa mest hressandi kveðja sem ég hef fengið á djamminu útaf þeirri síðu. 🙂
* * *
Hérna er pistill frá meistara Paul Krugman, sem hann skrifaði fyrir 5 árum við upphaf Íraks-stríðsins. Hann hafði rétt fyrir sér.
* * *
Macbook Pro tölvan mín er núna orðin 18 mánaða gömul og það magnaða við hana er að hún uppfyllir enn allar mínar kröfur alla daga vikunnar. Vanalega er ég ótrúlega spenntur að skipta um tölvu sirka tveim mánuðum eftir að ég kaupi hana, en þessi tölva hefur elst gríðarlega vel.
Ég verð þó að játa að ég verð alltaf spenntari og spenntari fyrir því að kaupa mér Macbook Air (sjá ágætis umfjöllun um mann sem skipti úr Pro yfir í Air). Ég hef átt tvær tölvur að undanförnu. Annars vegar mjög gamla og slappa iMac sem er heima hjá mér og hýsir alla tónlistina, myndir, myndbönd og slíkt. Og svo er ég með Macbook Pro, sem er vinnutölvan mín og sú tölva sem ég eyði langmestum tíma fyrir framan.
Mestöll vinnan sem fer fram á þessari tölvu er netráp, vinna í Keynote, OmniFocus, Mail, Excel og Word. Fyrir slíka vinnu er Macbook Air alveg nógu öflug tölva. Og það sem heillar mig við hana er stærðin. Ég er nefnilega með tölvuna á mér allan daginn í hliðartösku. Eftir að hafa höndlað Macbook Air í nokkur skipti þá finnur maður klárlega hvað hún myndi létta manni það að bera tölvu allan daginn. Einnig virðist hún gefa frá sér minni hita, sem mér finnst mjög mikilvægt.
Æji, ætli ég haldi þetta samt ekki út þangað til að Air fær sína fyrstu uppfærslu. Það er erfitt að réttlæta það að skipta um tölvu þegar að núverandi tölva sinnir sínu starfi. En mér hefur svo sem tekist að sannfæra mig um vitlausari hluti.
http://gaui.is/img/macbook_vs_commodore.jpg