Þá er ég kominn til Tripoli í norður Líbanon. Ég er staddur á hryllilegu internet kaffihúsi með stífasta lyklaborði í heimi og verstu tengingu sunnan Alpafjalla, þannig að þetta verður sennilega stutt færsla. Ég reyni að skrifa eitthvað á meðan að tölvan tekur sér 50 sekúndur í að opna hvern einasta tölvupóst sem ég hef fengið. Svo virkar ritvinnsluforritið bara frá hægri til vinstri, sem flækir hutina enn frekar
Síðustu dagar hafa verið frábærir. Tíminn í Beirút var ágætis upphitun fyrir hin löndin því að borgin er mun Vestrænni en þær borgir sem ég mun heimsækja seinna í ferðinni. Allavegana, á sunnudaginn fór ég til Baalbek. Ég fékk ljótan, leiðinlegan og svikulan leigubílstjóra til að keyra með mig frá Beirút til Baalbek. Sú borg er í dag aðallega þekkt fyrir að vera helsta vígi Hezbollah hreyfingarinnar, sem var nokkuð augljóst því útum allt voru myndir af leiðtogum Hezbollah og fyrir utan fornleifarnar voru sölumenn að selja boli með merki Hezbollah. Nú er það yfirlýst takmark mitt að láta ekki fyrri stjórnmálaskoðanir mínar hafa áhrif á þetta ferðalag, heldur fara í það með opnum huga, en ég efast um að undir það umburðarlyndi falli fjárstuðningur til Hezbollah. Auk þess sem að ég efast um að ísraelskir landamæraverðir yrðu alltof hrifnir við það að finna slíka boli í bakpokanum mínum.
Allavegana, þá var Baalbek eitt sinn ein merkasta borgin í rómverska heimsveldinu. Helstu hlutar rústanna sem enn standa eru annars vegar risastórar súlur, sem tilheyrðu Júpiter hofinu. Aðeins sex af þessum súlum standa enn, en þær eru hæstu súlur sinnar tegundar í heiminum, alls 23 metra háar. Það er erfitt að lýsa þessu öllu nema á myndum, sem ég mun birta seinna. Hinn merkasti hluti Baalbek er svo hof til heiðurs Bakkus. Það er ótrúlega heillegt og fallegt hof, sem er stærra en Parthenon í Aþenu. Það besta við að skoða þessar rústir í Baalbek var að ég var EINN. Algjörlega EINN. Bara ég og þessar ótrúlegu rústir. Eftir að hafa skoðað fornleifar sem eru algjör túristagildra einsog t.d. Chichen Itza, þá var það alveg stórkostlegt að vera þarna algjörlega í friði. En ætli myndir geri þessu ekki betur skil. En Baalbek var stórkostleg upplifun!
* * *
Á leiðinni aftur til Beirút stoppuðum við svo við sirka 10 varðstöðvar þar sem að herinn stoppaði bíla, áður en við stoppuðum í Zachlé, þar sem ég borðaði. Daginn eftir fór ég svo frá Beirút upp til Byblos. Byblos er ein þeirra borga í heiminum, sem hafa verið lengst samfellt í byggð. Talið er að þar hafi verið búið allt frá því 5.000 árum fyrir Krist. Höfnin í Byblos er talin vera elsta höfn í heimi og margir segja að nútíma stafrófið hafi verið fundið upp þar. Fyrir borgarastríðið var Byblos svo vinsæll ferðamannastaður og Hollywood stjörnur komu þar til að slappa af.
Í dag eru í bænum samansafn af fornleifum, sem eru allt frá því að vera 6.000 ára gömul hof uppí 13.aldar kastala. Líkt og Baalbek gat ég skoðað þetta svæði algerlega einn. Um kvöldið borðaði ég svo kvöldmat á einum af sögufrægu veitingastöðunum í borginni ásamt pari frá Kanada, sem ég hafði kynnst fyrr um daginn.
* * *
Eftir að hafa sólað mig aðeins við MIðjarðarhafið í morgun tók ég svo rútu hingað upp til Tripoli. Hérna er ég búinn að skoða gamla miðbæinn, sem er meira í átt við það sem ég bjóst við á þessu ferðalagi, fullur af þröngum götum og mannmergð og lítil vestræn áhrif ólíkt Beirút. Á morgun ætla ég að fara með svissneskum strák sem ég kynntist á hótelinu í ferð uppí fjöllin fyrir austan borgina og svo er planið að fara yfir til Sýrlands á fimmtudaginn.
Skrifað í Tripoli, Líbanon klukkan 17.00
Frábært að fá ferðasögur, vonandi heldur þú áfram að vera duglegur að skrifa í ferðinni, ég hlakka mikið til að sjá myndir..flott hjá þér að næla þér í ferðafélaga í fjöllin…væri sko ekki leiðinlegt að vera þarna með þér annars :=)
tek undir með Borgþóri að ég vil sjá skrif um kvenfólk..skítt með leiðindin, það má ekki láta svoleiðis stoppa sig,,við sem þekkjum þig vitum hvað þú ert rosa góður strákur 🙂
kveðja til þín & ég vona að þú eigir áframhaldandi góða ferð!
Sæll,
ég hafði ekki opnað síðuna þína svo heillengi að ég vissi ekki að þú værir að fara í þessa ferð. Fékkstu þér shawarma á Babar (Bæjarins bestu Beirútar)? Er sushi ennþá “the thing” þar? Ég var þarna mánuði eftir að þeir sprengdu Hariri og þess vegna mótmælendur ennþá Píslavættartorginu við Virgin Mega Store.
Baalbeck var æðislegur staður. Gömlu karlarnir sjálfsagt þarna ennþá með göngustafina og sixpensarana að reyna að fá eitthvað að gera við taka túrinn með þér. Þegar ég var þarna voru sá ég þrjú önnur túristapör þarna en meðan ég var inn í hofunum var ég einn megnið af tímanum. Að vera inn í Bakkusarhofinu einn með sjálfum sér þegar kallað er til bæna í bænum er magnað.
Og labba svo aftur út í bæinn og sjá myndir af hinni heilögu klerkaþrenningu aftur á öllum staurum, Khomenei, Khamenei og Nasrallah. Koma svo við í minjagripasölu Hizballah.
Ef þú fórst ekki frá Zahle til Anjar var það synd. Sá bær er meina en þess virði. Besti silungur sem þú færð sunnan Alpafjalla líka grillaður á As-Shams veitingastaðnum. Þar ók ég óvart inn á hlað hjá höfuðstöðvum sýrlensku leyniþjónustunnar í Líbanon (þetta var akkúrat á þeim tíma sem þeir voru að draga herinn sinn út) og skildi ekkert í öllum BMW-unum og hermönnunum með AK47 sem komu hlaupandi í áttina að mér.
Í Sýrlandi, þar sem ég fór bara til Damaskus og Gólan-hæða, sem ég verð að mæla með, þrátt fyrir að ég mæli ekki með því fyrir hvern sem er að leigja sér bíl líkt og ég gerði. Þú þarf að fá skriflegt leyfi innanríkisráðuneytisins, sbr. leiðbeiningarnar í Lonely Planet bókinni um Sýrlandi. Eiginlega möst fyrir þig að fara þangað, fyrst þú ert í svona langri ferð. Svo get ég emailað til þín símanúmerið hjá mjög þægilegum guide sem ég
hafði með mér um gömlu borgina í Damaskus, afskaplega þægilegur og sleppti öllum ilmvatnasjoppum og svoleiðis rugli, enda bað ég um ótúristalega túrinn. Hann fór líka með mig í Det danske institut sem er í afskaplega fallegu uppgerðu húsi vestarlega í gömlu borginni (eða var það allavega, held að það hafi ekki breyst). Þeir hleypa þér inn á verzlunarskóladönskunni þinni. Það er líka ótrúlegt að labba með honum um gamla Gyðingahlutann og svo veit hann hvar besta shawarmað er (við torgið í SA-horninu).
Nóg í bili, ég er orðinn yfir mig öfundsjúkur út í þig að vera þarna. Þetta er líka frábær tími að vera þarna, þó það verði orðið full heitt undir lokin og verður sjálfsagt steik þegar þú ferð til Petra!
Njóttu ferðarinnar!
Og líkt og sést á þessum bútum, þá gat ég ekki birt lengri texta í einu kommenti. Veit ekki hvort það er bara vandamál hjá mér. Reyndi bæði í Firefox og Internet Explorer.
Ég elska að lesa ferðalagabloggin þín, hef fylgst með blogginu þínu í nokkur ár út af þeim (og Liverpool en það er önnur saga). Ég er sérstaklega spennt fyrir að lesa um þessa ferð þína því að það hefur verið draumur minn í meira en tólf ár að fara á þessar slóðir.
Skemmtu þér vel og ekki fara þér að voða þarna!
Elín, þú færð þessa skýrslu um kvenfólkið. En þar sem ég er kominn til Sýrlands, þá er ekki frá miklu að segja. 🙂
Reyni að setja inn myndir fljótlega, hugsanlega á morgun þar sem ég er með svo góða tengingu á hótelinu hérna í Hama.
Takk, Jóhanna. Alltaf frábært að fá svona komment.
Og Ágúst, takk fyrir ábendingarnar. Ég fór ekki til Anjar og er ekki á leið aftur inní Líbanon að svo stöddu miðað við ástandið. Ég skoða þetta með Golan hæðir.
Æ Einar minn, er þetta ekki aðeins of hættulegt 😉
Eitt er alla vega á hreinu, þú safnar sögunum í sarpinn fyrir elliárin.
Ég fylgist með þér nú sem aldrei fyrr!
Góða skemmtun og vonandi ferðu varlega.
hehe ég hlakka til! 🙂 & hlakka til að sjá myndirnar:)