Það er alveg magnað við þessi ferðalög mín að ég á það til að skilja eftir mig sviðna jörð. Ég flaug frá Cancun daginn fyrir fellibyl, eldfjall fór að gjósa þegar ég keyrði framhjá því í El Salvador og daginn sem ég var á leiðinni yfir landamærin til Kambódíu, þá var framið valdarán í Taílandi og Thaksin var steypt af stóli.
Núna í morgun keyrði ég með 5 sýrlenskum verkamönnum og bílstjóra yfir landamærin frá Líbanon yfir til Sýrlands. Og hvað gerist sama dag? Jú, Hezbollah hafa lýst yfir stríði í Líbanon. Einsog ég hafði skrifað um í fyrri pistlum var það augljóst að ástandið í Líbanon var mjög eldfimt og það var verulega furðulegt að vera í Beirút í þessu ástandi með verkföllum og fjölda hermanna á götum úti. Í fyrradag í Trípolí var okkur tjáð að það væri verið að skipuleggja mikil mótmæli í Beirút og Trípolí og þegar ég fór útúr húsi snemma í gærmorgun var herinn mættur á aðaltorgið í Trípolí, tilbúinn fyrir allt.
Ég eyddi deginum ásamt svissneskum strák, Roman, í ferð um Qadisha dalinn austur af Trípolí. Þegar við komum heim úr ferðinni var augljóst af kvöldfréttunum að ástandið var að versna. Flugvellinum hafði verið lokað og ástandið á götunum var orðið mjög slæmt. Í gær ákvað svo ríkisstjórnin að stöðva símakerfi sem er rekið af Hezbollah og við það varð allt vitlaust. Nasrallah, leiðtogi Hezbollah, kom fram í sjónvarpi og lýsti yfir stríði á hendur stjórnvöldum. Í dag og í kvöld hafa svo staðið yfir bardagar á milli súnníta og shíta í borginni.
Það er vonandi fyrir þessa blessuðu þjóð að þetta sé ekki upphafið á einhverju slæmu.
* * *
Einsog ég nefndi áður þá eyddi ég síðasta deginum í Líbanon í ferðalagi um Qadisha dalinn. Þetta er helgur dalur fyrir Maróníta, sem er Kristinn trúhópur, sem hefur ráðið mestöllu í Líbanon frá sjálfstæði landsins. Dalurinn er ótrúlega fallegur. Við ferðuðumst um hann allan með góðum leigubílstjóra, sem fór með okkur allt að Cedar skíðasvæðinu í um 2.500 metra hæð. Þar var snjórinn bráðinn, enda komið vor, en við gátum samt skoðað skóg af ævafornum cedar (hvernig þýðir maður “cedar” tré?) trjám, sem eru tákn (og á fána) Líbanon. Við skoðuðum svo ótrúlega falleg klaustur og borðuðum í Bcharré, sem er aðallega þekktur fyrir að vera fæðingarbær Khalil Gibran, sem að íslensk fermingabörn ættu að kannast við.
Í morgun fór ég svo yfir landamærin. Þar var furðu lítið vesen, þótt að landamæraverðirnir vissu ekki í byrjun hvað Ísland væri. Fór með leigubílnum að Homs, hvaðan ég tók rútu hingað til Hama. Hérna gisti ég á ágætis hóteli, sem ég sit inná núna. Internet-tenginin er ljómandi góð en þó er sýrlenska ríkisstjórnin svo tillitsöm að blokka algerlega á nokkrar síður, þar með talið Facebook og Youtube. Ljómandi alveg hreint! Framleiðni Sýrlendinga hlýtur að vera mun betri fyrir vikið.
Ég fór svo í dag í ferðalag að kastalarústum hér í nágrenninu, sem ég man ekki hvað heita og drakk svo te í moldarhúsum sem líkjast býflugnabú-um (sjá hér)
* * *
Sýrland er öðruvísi en Líbanon. Þetta eru mjög ólík lönd. Hér er ekkert vestrænt. Engir KFC staðir og það fæst ekki einu sinni Coca Cola, sem ég hef bara upplifað áður á Kúbu. Hér er líka lítið um kristið fólk, því um 90% íbúanna eru múslimar. Það er líka augljóst af klæðaburði kvenna að íhaldssemin er umtaslvert meiri. Allar konur ganga í einhvers konar kufli og flestar sýna mjög takmarkað af andlitinu. Allar eru með slæður um hárið, en svo má segja að um 50% sýni allt andlitið á meðan að hinn hlutinn sýni bara augun. Semsagt í svörtum kufli frá toppi til táar með smá op fyrir augun. Ég hef reyndar líka séð talsvert mikið af stelpum sem eru með allt andlitið hulið – og sjá þá væntanlega bara vegna þess að svarta efnið er hálf gagnsætt. Það er ansi magnað að sjá þetta á götum úti.
En fólkið er líka ótrúlega vinalegt. Ég ætla ekki að fella neina dóma um Sýrland fyrr en ég hef verið hérna lengur, en fyrstu kynni lofa afskaplega góðu. Já, og svo er það hressandi að geta labbað á milli götuhorna án þess að sjá hermenn vopnaða AK-47 rifflum á nokkurra metra fresti.
Skrifað í Hama, Sýrlandi klukkan 21.11
Cedar er sedrus viður. Gangi þér vel á ferðalaginu.
Fyndið að sjá fyrst frétt um bloggið þitt áður en maður les það.
Vertu bara feginn að hafa ekki misst af að sjá Beirút, fjöllin, Baalbeck og Hizbollistan!
Þessi ásýnd á eftir að breytast mjög mikið þegar þú ferð til Damaskus, enda margir mismunandi hópar (múslima) sem byggja Sýrland. Sunnan Damaskus sérðu svo aðra menningu. Að koma svo í Drúsaþorp sérðu svo enn annað samfélag. Færirðu í austurveg hittirðu fyrir Kúrdana.
Hama og nágrenni er að mig minnir eitt helst vígi íslamista í landinu, sbr. þegar þeir reyndu að gera uppreisn gegn Assad hinum eldri fyrir um aldarfjórðungi og borgin var umsetin sýrlenska hernum dögum saman.
En finnst þér semsagt rautt Canada Dry Cola ekki jafn gott og Pepsi?
Frábært blogg 🙂
Gaman að lesa um Líbanon frá ísl.
Hef sjálf komið þangað tvisvar.
Fyrra skiftið í mitt stríð!
Hafðu það sem allra best í “skrýtnu löndunum 🙂
kv. Sólveig
Einar ! ég varaði þig við að djamma með Hazzbolllunum. Eins gott að þú varst búinn koma þér frá Beirút.. djís
Í byrjuninni á færslunni gleymdirðu að minnast á massífa jarðskjálftann sem lagði allt í rúst í kaffihéraðinu í Kólombíu 1999 rétt eftir að við vorum komin þar í gegn! .. andskotinn, það er eitthvað til í þessu!
Farðu varlega
heyrðu, svei mér, þú gleymdir einnig uppreisninni í Paraguay rétt eftir að við yfirgáfum landið. Varaforsetinn skotinn, landamærin lokuð og allt þetta fyrir utan hostelgluggann okkar.
… held þú sért kominn á snoðir um eitthvað þarna :-/
Óli, hvaða frétt ertu að tala um?
Takk, Dagur og Sólveig!
Ágúst, ég er búinn að finna Pepsi hérna í Hama (ég er fastur hérna í dag vegna þess að ég nennti ekki að fara í sight-seeing í rigningu og er því hangandi á netinu) en ég er búinn að gera dauðaleit að Nescafé dós, þar sem ég er kominn með alveg uppí kok af þessum hroðbjóð sem að menn kalla kaffi hérna.
Ég var auðvitað búinn að gleyma þessu með Kólumbíu, en man vel eftir þessu í Paragvæ. Ég bæti þessu við þenann stórslysalista. 🙂
Einar, hérna er frétt um ferðalag þitt á Vísi:
http://www.visir.is/article/20080508/LIFID01/546461761
Sæll Einar,
Gott að það er allt í lagi með þig þarna úti.
Þessi hamfara upptalning þín er vægast sagt áhugaverð, en er það ekki rétt munað hjá mér að þú varst í USA 11. september 2001? Má ekki bæta því við 😉
En ég vildi aðallega benda þér á þetta:
Vefritið velur grein mánaðarins
Ritstjórn Vefritsins mælir með grein Einars Arnar Einarssonar, Hvar ætlar þú að búa?, sem valin hefur verið grein apríl mánaðar. Í greininni bendir Einar á að baráttu höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar um íbúa eigi ekki lengur við. Sú byggðaþróun sem Íslendingar ættu að vera ræða er barátta höfuðborgarsvæðisins við stórborgir erlendis um þessa sömu íbúa. Hvetur Einar ráðamenn þjóðarinnar til að átta sig á þessu og haga stjórnmálaumræðunni í samræmi við það. Ritstjórn Vefritisins telur greinina gott framlag í skynsamlega stjórnmálaumræðu og hvetur ykkur til að lesa greinina
http://www.vefritid.is/index.php/greinasafn/hvar-aetlar-thu-ad-bua/
Kv. Þórir Hrafn
Takk, Haukur!
Jú, hei, snilldarábending Þórir. Það magnað við 11.september (hvað mig varðar) var að ég og mín fyrrverandi vorum búin að skipuleggja ferðalag til Kanada 12.september. Þannig að já,
Fellibylur í Cancun
Eldgos í El Salvador
Valdarán í Taílandi
Stríð í Líbanon
11.september í Bandaríkjunum
Stjórnarkrísa í Paragvæ
Jarðskjálftar í Kólumbíu
Hafa allir fylgt því að ég hef verið á leið frá viðkomandi landi (með smá vikmörkum þegar að kemur að 11.sept)
Já, og svo var ég nýfarinn til San Francisco þegar að borgarstjórnarskiptin urðu í janúar. 🙂
Sæll félagi.
Farðu bara varlega,.. og ekki veigra þér við “full body search” ef svo ber undir!
Þú ert heppinn Einar að hafa verið farinn áður þetta allt byrjaði…..það eru ekki allir eins heppnir…
Íslenskum ríkisborgurum ráðið frá því að ferðast til Líbanon
9.5.2008
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 36/2008
Vegna ófriðarástands í Líbanon þá ráðleggur utanríkisráðuneytið íslenskum ríkisborgurum eindregið frá því að ferðast til landsins. Ráðuneytið óskar jafnframt eftir upplýsingum um þá Íslendinga sem kunna að vera í landinu. Nánari upplýsingar veitir borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins í síma 545-9900.
Skilur þú einnig eftir þig sviðna jörð þegar þú ferð frá konum? 🙂
Já, ég veit Inam. Það er auðvelt að vera túristi og geta stokkið til og frá vandræðasvæðunum einsog manni hentar.
Takk kæra Utanríkisráðuneyti.
Og Nema, ég vil meina að svo sé ekki. Ég held nú að ef þú talaðir við þær stelpur sem ég hef verið með í einhvern tíma, þá beri þær mér nú vel söguna. En hvað veit ég svo sem. 🙂
Ég held ég leggist nú ekki í rannsóknarvinnu – þetta lá bara svo vel við höggi.
Spurning um að halda sig bara í einu landi og jafnvel því sem að þér líkar illa við.
Hafðu það gott á ferðalagi þínu.