Það er ómögulegt að hrífast ekki af Jerúsalem.
Á sama götuhorninu getur maður séð kristna asíubúa berandi krossa, palestínska götusala, múslima biðjandi í átt að Mekka og Hasidi gyðinga á leiðinni að Vesturmúrnum.
Í gærkvöldi fylgdist ég með munkum bera kross eftir Þjáningarveginum (sem ég sit nú við á netkaffihúsi). Ég fylgdi svo hópnum inní Grafarkirkjuna. Þar beið ég svo í biðröð, á meðan munkarnir sungu, eftir því að komast inní grafhýsi Jesús. Eftir það klifraði ég svo uppá aðra hæð þar sem er geymdur steinninn sem að kross Jesús var festur á.
Einsog þetta væri ekki nóg af trúarþemanu, þá labbaði ég því næst að Vesturmúrnum á Musterishæðinni, sem er þekktur sem Grátmúrinn, helgasti staður Gyðinga. Á Musterishæðinni í Jerúsalem var eitt sinn annað hof Gyðinga, sem að Rómverjar eyðilögðu. Á þeim stað þar sem hofið var er í dag Dome of the Rock, sem að múslimar byggðu. Steinninn, sem að nafnið gefur til kynna, er sá steinn sem að Gyðingar trúa að allt líf hafi sprottið út frá. Samkvæmt trúnni mega Gyðingar ekki heimsækja Musterishæðina sjálfa, þar sem steinninn er – og því er Vesturmúrinn það næsta sem að Gyðingar komast að steininum.
Á sama punktinum getur maður því séð helgasta stað Gyðinga og þriðja helgasta stað Múslima. Allt nokkrum metrum frá þeim stað þar sem Jesús var krossfestur.
Ég er því búinn að skoða Grátmúrinn tvisvar. Fyrst á fimmtudaginn þegar ég fór líka í skoðunarferð um göngin meðfram múrnum. Í gegnum árin hefur sprottið upp byggð meðfram stórum hluta Vesturmúrsins og er sá hluti múrsins sem við þekkjum í dag af myndum aðeins lítið brot af múrnum sjálfum. Í ferðinni er farið undir byggðina og múrinn skoðaður einsog hann var fyrir 2000 árum. Ég setti líka á mig kippa húfu og labbaði uppað múrnum og fylgdist með.
Um kvöldið fylgdist ég svo með Gyðingum fagna Shabbat fyrir framan Grátmúrinn. Það er frábær upplifun. Torgið fyrir framan múrinn var fullt af Gyðingum – næst múrnum voru Hasadi gyðingar, sem að vögguðu sér fram og tilbaka og báðu og kysstu múrinn. Fyrir aftan þá voru svo hópar af strákum (aðkoma að múrnum er kynjaskipt) sem að dönsuðu og sungu. Því miður má ekki taka myndir á shabbat, en þetta var ógleymanleg upplifun.
* * *
(Sjitt hvað unglingsstrákar í Counter Strike eru viðbjóðslega óþolandi þjóðfélagshópur! Hérna á netkaffihúsinu er ég umkringdur palestínskum strákum, sem öskra uppí eyrað á mér einhver fagnaðaröskur á sirka mínútu fresti).
Fyrir utan þessa staði er ég búinn að túristast alveg fullt í Jerúsalem. Ég er reyndar búinn að taka því frekar rólega í dag, þar sem að ansi stór hluti af Jerúsalem lokar dyrum sínum á shabbat. Nánast allar búðir loka (nema þær sem eru reknar af múslimum eða kristnum), flest kaffihús loka og túristastaðir líka). Ég fór þó í morgun í gamla borgarvirkið þar sem er rekið nokkuð gott safn um sögu Jerúsalem. Í hádeginu var ég grand á því og fékk mér hádegisverð á hinu fræga American Colony Hotel í Austur Jerúsalem. Ef ég kem einhvern tímann aftur til Jerúsalem, þá ætla ég að gista á því hóteli. Ég labbaði svo um borgina og fann loks opið kaffihús þar sem ég kláraði að lesa A Thousand Splendid Suns (sem er frábær).
* * *
Í gær fór ég líka í tvö frábær söfn. Fyrst fór ég í Ísraels-safn, sem inniheldur meðal annars Dauðahafshandritin, ásamt öðrum fornminjum og listaverkum.
Síðan fór ég uppá Yad Vashem hæðina. Þar er samansafn af minnismerkjum um Helförina. Þar á meðal er frábært Helfarar-safn, sem er jafnvel betra en Helfararsafnið í Washington DC, sem ég heimsótti fyrir nokkrum árum. Þótt að maður þekki atburðina býsna vel, þá er alltaf hollt að rifja þessa hluti upp. Sérstaklega fyrir þá, sem á viðbjóðslegan hátt líkja saman Helförinni og aðgerðum Ísraelsmanna á Vesturbakkanum.
* * *
Lífið í borginni er líka magnað. Ég gisti á hóteli í múslimska hluta gömlu borgarinnar. Þrátt fyrir alla þessa túristastaði í Gömlu Borginni, þá er borgin líka lifandi borg – hér býr fulltaf fólki. Í stað þess að borgin hafi breyst í safn, þá er hún iðandi af lífi allan daginn. Flestir túristarnir virðast vera fólk í hópum tengdum trúarbrögðum. Fulltaf kristnum Bandaríkjamönnum, útlenskum Gyðingum og fleirum. Ef maður vippar sér framhjá þessum hópum, þá verður maður ekki svo var við túristana, því að göturnar eru fullar af fólki, sem að býr hér.
Gamla borgin er líka mjög ólík nýja miðbænum. Á mörgum stöðum minnir gamla borgin á gömlu borgina í Damaskus. En nýrri hlutar af Jerúsalem minna á vestræna borg, þar sem umferðarreglum er sinnt, græn svæði útum allt og ekkert rusl.
* * *
Ég verð að játa það að ég er mjög hrifinn af Ísrael. Eftir 4 vikur í frábærum Arabalöndum, þá er svo margt sem að heillar við Ísrael. Allt frá hreinlætinu, skipulaginu til lýðræðis og kvenfrelsis. Á landamærunum voru konur landamæraverðir og kona keyrði leigubílinn sem fór með mig frá landamærunum til Eilat. Slíkt væri óhugsandi í mörgum nágrannalöndunum.
Og svo er auvðitað magnað að vera í þessum heimshluta í landi, þar sem að fólk getur óhrætt talað um stjórnmál. Í Sýrlandi þorði fólk oft ekki að tala um stjórnmál og það fyllti mig alltaf smá óhug að sjá allar þessar myndir af Assad forseta útum allt. Það sama gildir um Jórdaníu, þó að ástandið þar sé vissulega betra.
Vissulega er öryggisgæslan mikil útum allt, en ég vandist því vel í Líbanon að sjá hermenn með Ak-47 riffla útá götu einsog er hér. Ég var líka búinn að venjast því frá Jórdaníu að þurfa að fara í gegnum vopnaleit þegar ég fór inní verslunarmiðstöðvar eða á hótel. Þannig að öryggisgæslan er sennilega ekki jafnmikið sjokk fyrir mér og hefði ég komið beint frá Íslandi til Ísrael.
En ætli aðalástæðan fyrir því hve vel mér líður séu ekki stelpurnar. Guð minn góður, stelpurnar!
Eftir að hafa verið í Arabalöndum í 4 vikur, þá var það nánast sjokk fyrir mig að koma til Ísrael. Að sjá allt í einu stelpur í pilsum. Að sjá berar axlir, bera fótleggi, bera handleggi. Að sjá sítt hár. Að í stað þess að stelpur séu klæddar í föt, sem gera þær sem mest óaðlaðandi, þá megi stelpur hér klæða sig einsog þær vilja. Þetta hljómar kannski allt sjálfsagt fyrir okkur, en það er samt frábært að koma til þessa litla lands í þessum heimshluta og sjá hlutina með eigin augum. Og svo hjálpar það auðvitað að hérna í Ísrael er ótrúlega mikið af fallegum stelpum.
Hérna dettur engum í hug að banna konu sinni að sitja fyrir á ljósmynd, eða banna henni að fara útúr húsi án þess að vera með hulu fyrir andlitinu. Hérna dettur engum í hug að banna konum að keyra bíla eða vinna ákveðin störf.
Ég hef alltaf verið sannfærður um réttmæti Ísraelsríkis og sú sannfæring hefur ekki minnkað á þessum dögum hér. Ég held að hrifning mín á Sýrlandi og Jórdaníu hafi engum dulist, sem hafa lesið þessa síðu. En það breytir því ekki að ansi margt mætti betur fara í þeim löndum, sérstaklega þegar að kemur að málfrelsi, lýðræði og réttindum kvenna. Í öllum þessum málaflokkum mættu þau lönd taka sér Ísrael til fyrirmyndar.
* * *
Ég ætla að vera í Jerúsalem í einn dag í viðbót. Á morgun ætla ég að fara uppá Musterishæðina og skoða nokkra fleiri staði. Seinnipartinn ætla ég svo að fara til Haifa í norður Ísrael.
Já, og ég er búinn að setja inn nokkrar myndir frá Sýrlandi og Jórdaníu inná Flickr. Einsog áður, þá eru þetta eingöngu myndir úr litlu vélinni minni (sem ég svo týndi / var stolið á Vesturbakkanum), þannig að þær mynda ekki merkilega sögu.
Skrifað í Jerúsalem, Ísrael klukkan 20.58
One thought on “Mið-Austurlandaferð 14: Hin ótrúlega Jerúsalem”
Comments are closed.